sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Kristján K. Hall f. 2.4.1935 – d. 16.6.2015 · Heim ·

Þórdís Kalman f. 27.8.1924 – d. 3.7.2015

Sigurvin @ 12.57 10/7/15

Yfirstandandi ár hefur verið merkisáfangi í íslenskri kvennasögu, þar sem eitt hundrað ár eru nú liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt á Íslandi. Hundrað ár eru í sögu mannkyns sem augnablik en það er óhætt að fullyrða að sú kynslóð sem nú kveður samfélag okkar, södd lífdaga, hefur upplifað meiri framfarir en nokkur önnur kynslóð í sögunni.

Árið 1924, þegar Þórdís Ingibergsdóttir er fædd, voru konur að ryðja sér til rúms í menntun og embættum á Íslandi og áttu eftir að líða mörg ár þar til slíkt var til jafns við karla. Sú kynslóð kvenna sem hún tilheyrir ólst upp við þann veruleika að karlmenn voru nær allsráðandi á vettvangi menningar og fyrirmyndir úr röðum kvenna skiptu því miklu máli.

Selma Lagerlöf er ein slíkra fyrirmynda, rithöfundur sem varpaði skugga á frægðarsól margra karla og varð fyrst kvenna til að vinna nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1907. Á því látlausa verkamannaheimili sem Þórdís ólst upp á var slíkum fyrirmyndum hampað, bókmenntir og menning höfð í hávegum, og á vegg heimilisins hékk mynd af þeirri miklu kvenfyrirmynd.

Þórdís braust til mennta, með stuðningi og hvatningu foreldra sinna, sem var fátítt á þeim árum, sérílagi frá fjölskyldu sem bjó í verkamannablokkum við Hringbraut, og varð fyrst íslenskra kvenna til að hljóta námsstyrk til háskólanáms á erlendri grundu. Slíka áfangasigra í íslenskri kvennasögu skyldi ekki vanmeta og vafalaust hafa verið gerðar á hana ríkari kröfur en stúdentsbræður sína sem hlotnuðust sami heiður.

Að loknu löngu æviskeiði Þórdísar situr eftir fyrirmynd hennar í lífi ykkar sem af henni eru komin, fyrirmynd sem er ykkar dýrasta arfleifð. Vinnusemi og dugnaður, þekkingarþrá og menningarást, litríkur klæðaburður og ástríkt uppeldi eru arfleifð sem ástæða er til að þakka og fágætur lofsöngur til lífsins. Lífs sem lifað var með rósrauðum augum, La vie en rose.

Þórdís Ingibergsdóttir Kalman var fædd í Reykjavík þann 27. ágúst 1924, þriðja í röð sex systkina. Foreldrar hennar voru þau Ingibergur Runólfsson og Sigríður Olga Kristjánsdóttir en hann var úr Árnessýslu og hún vestan að Ísafirði. Ingibergur starfaði meðal annars við flutning ullar frá Álafossi, fyrst á hestum, og er hann fékk bílpróf einna fyrstur manna á Íslandi var ullin flutt á vörubílum. Þau hjón bjuggu sem fyrr segir í verkamannabústöðum við Hringbraut en Þórdís var sjö ára þegar þau fluttust þangað, sem var gæfuspor á árum þar sem erfitt var að fá húsnæði í Reykjavík.

Í uppeldi hennar var lögð rækt við menntun og menningu. Faðir hennar tók börn sín að sjá fræðslumyndir í kvikmyndahúsi, á meðan önnur börn fengu að sjá Charlie Chaplin, og þau systkini ólust upp við mikinn lestur á heimilinu. Þórdís lauk Landsprófi og gat þar með sleppt undirbúningsbekk fyrir framhaldsskóla og hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík 1940. Stúdentahópur hennar hafði sérstöðu í sögu Menntaskólans og útskrifaðist á Lýðveldisdaginn sjálfan, 17. júní 1944, en nýstúdentarnir fóru saman til Þingvalla í tilefni dagsins.

Að loknu stúdentsprófi sóttist hún eftir styrk til náms og fékk stuðning sem dugði henni til háskólanáms í Edinborg í fjögur ár, þaðan sem hún lauk meistaraprófi í enskum og frönskum bókmenntum. Þegar hún kom heim auglýsti hún kennslu í þeim tungumálum, auk þess að starfa í bókabúð í Reykjavík.

Manni sínum, Birni Kalman, kynnstist hún í MR en hann var tveimur árum eldri en hún, fæddur 25. júní 1922. Að loknu stúdentsprófi hóf Björn nám í læknisfræði við Háskóla Íslands en hann fylgdi unnustu sinni ekki út til Edinborgar. Þau giftu sig þegar Þórdís kom heim í jólafrí í desember 1946. Þegar Björn hafði lokið kandítatsskyldum sínum hóf hann sérnám í Vejle, þangað sem fjölskyldan fylgdi honum, en hélt í kjölfarið til Umeå í Svíþjóð þar sem Þórdís bjó í 55 ár.

Björn og Þórdís eiga mikinn ættboga en alls eignuðust þau 8 börn. Elst er Martha María tungumálakennari, fædd 1950, þá Sigríður Helga læknir, fædd ‘52, þá Bergur kerfisfræðingur, fæddur ’53, síðan Hildur sjúkraþjálfari og heimspekingur, fædd ’55, þá Þórdís læknir, fædd ’59, Björn efnafræðingur, fæddur ’61, þá Ásdís myndlistarkona og kennari, fædd ’64 og yngstur er Páll Einar lögfræðingur, fæddur 1965. Auk barna sinna eiga þau 25 barnabörn og 6 barnabarnabörn.

Heimilið í Umeå skar sig frá öðrum heimilum að mörgu leiti en þau voru fyrsta íslenska fjölskyldan til að flytja til bæjarins. Þar var matur kl. 18.00 á hverju kvöldi, krakkarnir vissu betur en að trufla móður sína þegar hún var niðusokkin í bók, liggjandi á maganum í sófanum, og vinir þeirra voru alltaf velkomin í spjall við stofuborðið. Þau bjuggu ekki við efni, enda mörg í heimili, en það sem var keypt var vandað og hönnunarvara. Eldamennskan var íslensk þó hráefnið hafi verið sænskt og öll hjálpuðust þau að við heimilisverkin og að sjá um hvert annað.

Námsþorsti Þórdísar slokknaði aldrei og þegar háskólinn í Umeå var farinn að gera sig gildandi las hún þar leikhúsfræði. Í kjölfarið fór hún í nám í bókasafnsfræði og útskrifaðist um fimmtugt, með áherslu á franskar leikhúsbókmenntir frá 1960 og fram á áttunda áratuginn.

Þórdís var litrík kona sem klæddi sig eins og sá heimsborgari sem hún var. Hún var náin manni sínum og ást þeirra var öllum ljós sem þau þekktu. Það var fjölskyldunni mikið áfall þegar hann lést úr krabbameini árið 1981. Þórdís starfaði við bókasafn í Umeå fram að starfslokum og sótti eftir það töluvert heim en hún hafði haldið sambandi við samstúdenta og saumaklúbb á Íslandi allar götur.

Síðastliðin fimm ár hefur hún búið nær alfarið á Íslandi, hér í Vesturbænum þar sem rætur hennar liggja, og var það hennar ósk að ævi hennar myndi renna sitt skeið á heimaslóðum. Þórdís var Íslendingur, þó hún hafi verið búsett erlendis í yfir hálfa öld, og því breytti fjarlægðin aldrei. Það var hvíld í því að þekkja götur æsku sinnar og heyra íslensku talaða í útvarpinu.

Minning Þórdísar Kalman tilheyrir þeirri kvennasögu sem við nú vinnum með sem samfélag á aldarafmæli kosningarréttar kvenna. Þá sögu lifði Þórdís.

Hún las Simone de Beauvoir, þegar Hitt Kynið kom út, hafði unun af Doris Lessing og Iris Murdoch þegar þær voru að gefa út sínar bækur og ólst upp með Selmu Lagerlöf á veggnum heima. Stærri gerast fyrirmyndirnar ekki og hún fetaði í fótspor dugmikilla kvenna, sem sjá mikilvægi þess að njóta menningar og láta um sig varða í þeim heimi hugsunar sem einkennir okkur sem manneskjur.

Með rósrauðum augum, La Vie en Rose, tókst hún á við lífið í litríkum fötum og með fagurbókmenntir í höndum, og hvetur okkur til að gera slíkt hið sama.

Blessuð sé minning hennar.

url: http://sigurvin.annall.is/2015-07-10/thordis-kalman-f-27-8-1924-d-3-7-2015/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli