sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Margret Erna Hallgrímsson f. 13.10.1953 – d. 6.2.2015 · Heim · Kristján K. Hall f. 2.4.1935 – d. 16.6.2015 »

Margrét Magnúsdóttir f. 24.10.1962 – d. 16.5.2015

Sigurvin @ 11.18 29/5/15

Hverju safnar þú í lífinu?

Þau eru æði mörg sem safna auðæfum, gegn betri vitun, vitandi sem er að þar er enga hamingju að finna. Ef Göggu áskotnaðist fé var það hennar fyrsta verk að deila því með öðrum og gera vel þau sem hún unni. Eldhúsið hennar var fullt af mat og opið fyrir öllum sem vildu borða með henni.

Sumir búa yfir skipulagðri söfnunarþrá og einbeita sér að því að eignast safn fágætra frímerkja, mynta eða muna sem framleiddir hafa verið í afmörkuðu upplagi. Safnakostur Göggu var sundurlausari en svo að hægt væri að telja hann sem áhugamál eða greina með einhverju flokkunarkerfi.

Listsafnara er allstaðar að finna, jafnt einstaklinga sem stofnanir, og verk eftir Göggu eru safnkostur á ekki ómerkari stöðum en Museum of Modern Art og Guggenheim, auk Listasöfnum Íslands og Reykjavíkur. Þörf Göggu lá í að skapa og tjá list en ekki endilega eignast hana sjálf.

Safnkostur hennar fólst í sundurlausu safni muna, af öllum gerðum og uppruna, sem hver um sig minnti hana á upplifun. Gagga safnaði upplifunum og þó hennar safn hafi ekki verið til sýnis bar líf hennar þess vitni að hún þráði að lifa lífinu til fulls og upplifa allt það fagra og jafnframt allt það sára sem felst í því að vera manneskja. Þá upplifun tjáði hún í verkum sínum og í tengslum við samferðarfólk og hana varðveitti hún í þeim munum sem hún hafði safnað að sér.

Það kostar kjark að leyfa sér að upplifa til fulls fegurð og sársauka heimsins og samhliða lífsgleði hennar og sköpunarþrá var ofinn þráður angistar sem fylgdi henni í gegnum lífið og braust út í þeim fíknisjúkdómi sem hún glímdi við.

Verkefni okkar, er við komum saman til að kveðja Margréti Magnúsdóttur, er að heiðra þær upplifanir sem hún skilur eftir í minningu ykkar, ástvina hennar, og draga upp mynd af því hver hún var ykkur.

Margrét var fædd í Reykjavík 24. október 1962. Listina átti hún ekki langt að sækja en faðir hennar, Magnús Tómasson, er einn af okkar þekktari samtímalistamönnum og móðir hennar, Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir, hefur unnið með textíl og starfrækt listgallerí. Margrét var eina barn foreldra sinna en hún á fimm hálfsystkini sem kveðja systur sína hér í dag.

Hún var frá upphafi heimsborgari en fyrstu 5 árin bjó hún með foreldrum sínum í Kaupmannahöfn og flutti í kjölfarið til Reykjavíkur með móður sinni þar sem hún ólst upp. Sem unglingur fór hún til Svíþjóðar að vinna sumarlangt og það var ætíð stutt í ævintýra- og ferðaþrá hennar. Eftir stúdentspróf af myndlistarbraut frá FB lá leið hennar í Myndlistar- og handíðaskólann þaðan sem hún lauk prófi frá Höggmyndadeild 1987. Í kjölfarið fluttist hún til Berlínar þar sem hún lauk framhaldsnámi í Höggmyndalist frá Hochschule der Künste árið 1992.

Tjáning hennar einskorðaðist ekki við áþreifanleg verk en vinkona hennar, Ellen Freydís Martin, rifjar upp að á námsárunum í M.H.Í. var hún kölluð Sally, þar sem hún hafði slegið í gegn í skólasýningu á söngleiknum ‘Cabaret’ þar sem hún fór á kostum í hlutverki Sally Bowels, sem Liza Minelli hafði gert ódauðlega. Gagga naut þess að vera hrókur alls fagnaðar og hreif fólk með lífsgleði sinni og söng.

Eftir nám flutti hún til Íslands og var heima í tæpan áratug, með hléi þó þegar hún dvaldi vetrarlangt í Hollywood. Árið 1995 flutti hún til Hollfeld í Þýskalandi þar sem hún rak myndlistagallerý um tíma en það var innréttað í gamla lögreglustöð í 3500 manna þorpinu. Gagga var mikil framkvæmdarkona og gekk í öll störf eins og kom í ljós við þær framkvæmdir, þar sem hún múraði og málaði, smíðaði og tengdi rafmagn í þessari gömlu byggingu. Börn hennar rifjuðu upp að framkvæmdagleði hennar hafi vakið eftirtekt í bænum og að mikið hafi verið skrafað um íslensku fjölskylduna. Umtalinu mætti hún með sínum glettna húmor og hafði á orði að fólkið yrði þá ekki uppiskroppa með umtalsefni á meðan og vorkenndi bæjarbúum helst fyrir að hafa ekki fengið þau fyrr til sín.

Gagga hafði mikla frásagnargáfu og þó allar sögur hennar hafi verið sannar og réttar, vissu hún vel að ekki ætti að láta góða frásögn gjalda sannleikans þegar kemur að nákvæmni. Gagga gat iðulega séð léttari hliðar tilverunnar, jafnvel í erfiðleikum sínum, og húmorinn var í hennar tilfelli síðastur til að fara. Við síðustu innlögn sína á sjúkrahús fyrr í mánuðinum spurði hjúkrunarfræðingur hana hvort hún væri með þekkt ofnæmi. Hún hélt nú það og það helst fyrir frekum körlum.

Gagga var lífskúnstner og áhugamál hennar báru því vitni. Hún söng í kórum bæði í Þýskalandi og hér heima, var alæta á tónlist – hlustaði á Bach og Abba og allt þar á milli – hafði unun af bókmenntum og listum, og elskaði góðan mat. Dóttir hennar lýsti því svo að hún hafi eyðilagt fyrir henni ánægjuna af því að fara fínt út að borða því allt fölnaði í samanburði við heimhornaeldamennsku móður sinnar og sonur hennar heiðrar þá eldamennskuarfleifð með því læra nú til matreiðslumanns.

Börn Margrétar eru fjögur talsins. Elst er Una Stígsdóttir myndlistarkona fædd 1982, en hún er gift Anik Todd og þau eiga Óðinn Antonio, fæddan 2009, og Æsu Margréti fædda 2012. Magnús Ólafsson er fæddur 1989 og stundar matreiðslunám. Inga Sigríður Franksdóttir er fædd 1997 og Friðrik Franksson fæddan 1998 en þau eru búsett í Bayern í Þýskalandi.

Inga Sigríður minnist þeirrar alúðar sem móðir sín lagði við að kenna sér, t.d. að Hekla, elda og bera sig að til verka og Friðrik minnist móður sinnar með þakklæti og trega yfir því að hafa notið hennar svo stutt sem raun ber vitni. Faðir þeirra systkina er fyrrverandi eiginmaður Margrétar en þau hafa alist upp hjá föður sínum frá því að hún fluttist til Íslands árið 2009 eftir skilnað þeirra.

Skuggi áfengissýki setti mark sitt á æviferil Margrétar og olli henni og ástvinum hennar sársauka sem óneitanlega varpar skugga á þær fögru minningar sem þau eiga af henni. Af sjúkdómsins völdum er hennar æviskeið ótímabært á enda.

Gagga hafði getu til að tjá upplifanir sínar að fullu í list sinni og til að sjá hið góða mitt í erfiðleikunum í fegurð listarinnar, húmor hversdagsins og haldreipi trúarinnar. Trúin lifði með henni alla tíð og var henni styrkur og vonarglæta á sjúkdómsgöngu sinni.

Að eiga trú er svo fjarri því að búa við lokaða heimsmynd, þar sem regluverk kenningarinnar leiðir til köntóttrar heimsmyndar, þó guðstrú eigi sannarlega slíka málsvara. Heldur er trúin það sjónarhorn að sjá heiminn í ljósi elsku Guð og sannfæring um þá von að kærleiksrík hönd sé að baki lífinu og grípi okkur þegar lífið fjarar undan.

Í þeim lófa hvílir ástvinur ykkar nú er við felum góðum skapara okkar sál Margrétar Magnúsdóttur í fyrirbæn. Við rúmstokk hennar voru sagðar bænir og þeim miðlaði hún til barna sinna í versum á borð við:

Vertu nú yfir og allt um kring
Með eilífri blessun þinni
Sitji Guðs englar saman í hring
Sænginni yfir minni.

Frelsarinn varaði við því að safna veraldlegum munum, sem tíminn vinnur bug á, heldur hvetur okkur til þess að safna fjársjóðum á himni með orðunum: ,,hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.”

Gagga hafði hugrekki til að opna hjarta sitt að fullu fyrir þeirri upplifun að vera manneskja og tjá þá upplifun með einlægni hjartans. Því fylgir fegurð og sársauki sem flestir hlífa sér við en hjarta hennar var helgað því að lifa lífinu til fulls.

Fyrir áramót og um síðustu jól átti hún regluskeið þar sem hún dvaldi á Ökrum með föður sínum og var þá í sambandi við börn sín og ástvini. Þá var henni tíðrætt um Óðinn og Æsu, það fólk og þá gæfu sem hún hafði notið í lífinu og þær upplifanir sem hún hafði safnað að sér og varðveitt í formi þeirra muna sem prýddu upplifunarsafn hennar. Á nýju ári upphófst á ný skeið þar sem sjúkdómurinn tók völdin og rændi hana loks endanlega heilsuna en hún lést á Landspítala þann 16. maí 2015.

Arfleifð Margrétar er ykkar að njóta, með öllum þeim kostum sem hún bar gæfu til að bera og allri þeirri elsku sem bjó í brjósti hennar, þrátt fyrir þann sársauka sem hún bar. Í trúnni eigum við fyrirheiti um að andspænis óréttlæti og sjúkleika þessa heims búi að baki tilveru okkar kærleikur, friður og von, sem engir erfiðleikar geta svipt okkur aðgangi að. Margréti felum við góðum Guði í trausti til þeirrar vonar að hann muni vel fyrir henni sjá og í bæn biðjum við um frið og æðruleysi okkur til handa sem enn glímum við það flókna verkefni að vera manneskja.

url: http://sigurvin.annall.is/2015-05-29/846/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli