sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Neskirkju 2. nóvember 2014 · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 16. nóvember 2014 »

Kári Elíasson f. 7.6.1925 – d. 31.10.2014

Sigurvin @ 15.15 10/11/14

Fígaró, Rakarinn frá Sevilla, varð fyrir valinu til að heiðra minningu óperunnandans Kára Elíassonar og er það ekki úr vegi þar sem þeim svipar til að nokkru leiti. Fígaró stundaði iðn sína í miðborginni, glaðbeittur rakari sem deildi kjörum með kúnnum sínum, rakaði fyrirmenni þjóðarinnar og hafði hrífandi sagnargáfu sem hann miðlaði óspart af.

Kári starfaði sem rakari í hartnær sextíu ár og tók fastakúnna í stólinn heim eftir að stofan lokaði á meðan heilsan leyfði. Hann fylgdist því með mannlífi Reykjavíkur breytast og þróast frá stríðslokum, þegar hann byrjaði á rakarastofunni Eimskip, og fram til ársins 2001, þegar þeir Leifur Jóhannesson hættu rekstri á Njálsgötunni eftir 52 ára rekstur.

Á rakastofu Leifs og Kára voru sagðar sögur og þeir kúnnar sem þangað sóttu rakstur og klippingu, sóttu ekki síður í þann sagnaarf og frásagnarmenningu sem þar ríkti.

Á kveðjustundu segjum við sögur, ekki til að vega líf hins látna á vogarskálum metorða eða verðleika, heldur til að heiðra minningu þess sem hann var ykkur, ástvinum sínum. Sögur glæða minningarnar lífi, í sögum rifjum við upp tengsl ykkar og tryggðarbönd og í gegnum sögur fær sorgin farveg til að streyma fram.

Saga Kára hófst þann 7. júni 1925 en hann var fæddur hjónunum Margréti Halldórsdóttur frá Vestdal í Seyðisfirði og Elíasi Pálssyni yfir-fiskimatsmanni frá Fífilsholti í Vestur Landeyjum Rangárvallasýslu. Elías hafði frásagnargáfu og eru æviminningar hans af sjómennsku og störfum við mat á fiski til útflutning merkileg lesning. Síðustu vikurnar las Kári sögu föður síns, Lífið er Saltfiskur, með aðstoð djáknans í Sóltúni.

Kári ólst upp í Vesturbænum að Lindarbrekku við Vesturvallagötu og átti eldri bróður, Sverri Elíasson, en hann lést fyrir aldur fram árið 1949. Sem ungur maður spilaði hann Knattspyrnu, fyrst með Gammi og síðar með KR en þar spilaði hann t.d. með Gunnari Huseby frjálsíþróttahetju og Hauki Mortens tónlistarmanni, auk annarra minnistæðra félaga. Að loknum gagnfræðaskóla fór Kári í hárskeranám í Iðnskólanum í Reykjavík og lærði fagið undir Sigurði Ólafssyni á Eimskip.

Trausti Thorberg, aldavinur Kára og kollegi, ber því vitni að þeir hafi verið stakir reglumenn á gullárunum og borið sig vel með hatta á höfði, eins og prestarnir í þá daga. Það er því ekki furða að Katrín Ásmundsdóttir hafi fallið fyrir unga rakaranum en þau giftu sig 6. maí 1950. Þau hófu búskap í foreldrahúsum Katrínar en eignuðust fljótt hæð að Mávahlíð 22, þar sem þau héldu heimili í 60 ár. Hjónaband þeirra var innilegt og farsælt og þau voru alla tíð áberandi ástfangin og ánægð hvort með öðru.

Hin ástin í lífi Kára var golf og sú ástríða greip um sig þegar hann gekk í Golfklúbb Reykjavíkur 1956. Þá var ekki aftur snúið og Kári notaði hverja lausa stund á golfvellinum, fyrst við Öskjuhlíð og síðan í Grafarholti en hann lagði mikið til við undirbúning golfvallarins þar. Lítið var um formlega kennslu á þessum upphafsárum íþróttarinnar á Íslandi og var Kári einna fyrstur manna til að kaupa erlent efni, tímarit og bækur, til að bæta árangur sinn og tækni. Á rakarastofunni var fagnaðarefnið borið út með golfsögum og það eru ugglaust margir sem frelsuðust til íþróttarinnar fyrir hans atbeina.

Ein golfsagan komst í blöðin en hann var þá að spila í Grafarholtinu með syni sínum og þriðja manni þegar það er skotið á þá af skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur. Kári hleypur af stað í öfuga átt, það er í átt að skotunum og sér þar unglingspilta sem hlaupa undan honum. Sá hinn sami hljóp í annað sinn undan honum þegar Kári fékk hann í stólinn til sín og spurði hvort það hafi verið hann sem hafi skotið á sig á golfvellinum. Hann sást víst ekki aftur sá á rakarastofunni.

Í ævisögu Elíasar er sagt frá fyrstu utanlandsferð þeirra Katrínar og Kára en hann tók á móti þeim í Höfn af Gullfossi 1956 og hjálpaði þeim fyrstu skrefin á ferðalagi þeirra. Í þessari eftirminnilegu ferð sem Katrín og Kári fóru í með vinahjónum sínum Ingu og Guðna var ferðast um á Skoda Station á hraðbrautum Þýskalands en bíllinn þótti heldur seinfær þar sem hann komst ekki hraðar en 75. Þær áttu eftir að vera margar utanlandsferðirnar sem þau fóru í hjónin og þá var yfirleitt haldið sig í grennd við golfvelli.

Kári var mikill fjölskyldumaður og hann náinn börnum sínum og barnabörnum. Sonur þeirra hjóna er Elías fæddur 1952 og dóttir þeirra er Katrín Ásgerður fædd 1963. Ásgerður er gift Hannesi Jóni Helgasyni og þau eiga Katrínu fædda 1995 og Kára Jón fæddann 2000.

Katrín minnist þess hversu glöð þau hjón voru alltaf að sjá barnabörnin sín og hún fann að afi þeirra mat þau mikils. Þeir nafnar fóru nokkrum sinnum í golf saman og Kári Jón fékk að sjálfsögðu forláta golfkylfu frá afa sínum. Kári Jón spilar fótbolta með 3. flokki Fjölnis og þeir voru nálægt því að taka Íslandsmeistaratitil í sumar, líkt og afi hans forðum með 3. flokki KR. Kára gafst ekki færi á að sjá dótturson sinn spila í sumar en stoltið leyndi sér ekki þó hann hafi iðulega spurt hvort hann væri ekki á leið í KR.

Auk íþrótta hafði Kári margvísleg áhugamál. Hann las mikið, hlustaði jöfnum höndum á jazz og óperutónlist og hafði mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar þeir Leifur og Kári luku störfum í lok árs 2001 voru þeir heiðraðir af borgarstjóra Reykjavíkur fyrir hálfrar aldar þjónustu við íbúa Reykjavíkur. Vinsældir hans sem rakari voru þó slíkar að hann sinnti kúnnum að heiman um árabil eftir að stofunni lokaði, þar til heilsan leyfði ekki lengur.

Þau hjón fluttu að Sóltúni fyrir tæpu ári og nutu þar dýrmætrar aðhlynningar sem ættingjar þeirra vilja þakka. Katrín lést 22. júlí síðastliðinn og hvílir nú í Gufuneskirkjugarði með útsýni yfir Mosfellsdalinn, sem var henni svo kær. Það er skammt stórra högga á milli en eftir langa samfylgd er aðskilnaðurinn sár. Kári mun nú hvíla við hlið konu sinnar og njóta með henni þess útsýnis sem við þeim blasir.

Sögur glæða minningu þeirra Kára og Katrínar lífi og það kemur í ykkar hlut, sem þau þekktuð og unnuð, að halda á lofti þeim sagnaanda og helga minningu þeirra. Í boðun sinni sagði frelsarinn sögur til að miðla þeim boðskap að við stöndum ekki ein í lífinu og að við stöndum ekki ein frammi fyrir dauðanum.

Þvert á hina jarðnesku tilveru okkar, eigum við í kjarna okkar þá vissu að við erum af Guði komin og munum til hans aftur snúa. Kári og Katrín hvíla nú í hendi þess Guðs, sem heldur okkur í lófa sínum í lífinu og hefur rist nafn okkar í lófa sinn, svo við megum aldrei gleymast.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-11-10/kari-eliasson-f-7-6-1925-d-31-10-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli