sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Katrín Ásmundsdóttir f.30.07.1925 – d. 22.07.2014 · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 2. nóvember 2014 »

Kristín Sólveig Jónsdóttir f. 21.5.1933 d. 24.7.2014

Sigurvin @ 20.06 8/9/14

Screen shot 2014-05-28 at 22.57.05Er viðeigandi að syngja svona í Jarðaför?

Þeirri spurningu beindi Lilla til Sigrúnar Þorgeirsdóttur og Gunnars Gunnarssonar, sem ásamt fleiri söngvurum flutti ,,When the Saints go Marching in” í áttræðisafmæli hennar fyrir ári síðan.

Svarið er að sjálfsögðu já og það sem meira er að sálmurinn, sem Satchmo gerði ódauðlegan á gullöld jassins, er spilaður við nær allar jarðafarir í New Orleans.

Sálmurinn var upphaflega sunginn í kirkjum, sem lofgjörð um þá von að eiga himnavist handan þessa lífs með öllum heilögum, en Louis Armstrong gerði djassútgáfu sem sigraði heimsbyggðina.

When the Saints go marching in
O Lord, I want to be in that number
When the Saints go marching in

Þau hjón fengu að njóta þess að heyra Satchmo sjálfan flytja lagið í Cleveland forðum, á útitónleikum í blíðskaparveðri, og Lilla ræddi um það árum saman að vilja að það yrði flutt við sína útför.

Boðskapur sálmsins á sannarlega við. Hann ber þeirri von vitni að okkur sé frátekinn staður með öllum heilögum í ljósinu og játar að við viljum eiga hlutdeild í þeirri fylkingu. Á kveðjustundu treystum við því að ástvinur ykkar, sem mat þessa játningu mikils, sé nú “in that number, When the saints go marching in.”

Kristín Sólveig Jónsdóttir fæddist á Stykkishólmi 21. maí 1933, dóttir hjónanna Jóns Steingrímssonar sýslumanns og Karítasar Guðmundsdóttur. Hún var yngst fjögurra systkina en Benta Margrét Briem er elst fædd 1925, þá Guðný Schrader, fædd 1927 og loks Steingrímur fæddur 1929, en hann lést árið 2007. Þau hafa frá barnæsku verið náinn systkinahópur og eiga sín á milli djúpa vináttu.

Faðir þeirra tók við sýslumannsembættinu í Borgarnesi þegar Lilla var 4 ára og hún ólst því upp að mestum hluta þar. Æska hennar var hamingjurík og þar sem hún var yngst og hvers manns hugljúfi, varð hún eftirlæti foreldra sinna og systkina. Hún tók sem barn virkan þátt í skátastarfi og stundaði útivist af kappi, fór í göngur, klifraði í klettum og synti í sjónum.

Þegar faðir hennar fór í þingaferðir um nærsveitir Borgarness var Lilla iðulega með í för en þau feðgin voru náin. Þá var hún settur siðgæðisvörður eitt sumar, þegar Valgarð leysti verðandi tengdaföður sinn af sem sýslumaður, og bankaði samviskusamlega á herbergi systur sinnar á miðnætti til að sjá til þess að hann færi heim.

Á menntaskólaárum bjó hún hér í Reykjavík og stundaði nám við Menntaskólann og seinni námsárin bjó hún á heimili þeirra Bentu og Valgarðs Briem á Sóleyjargötu 17. Eftir stúdentspróf felldu þau hugi saman, hún og Ólafur Örn Arnarson, en þau samstúdentar byrjuðu að draga sig saman á Dimmision. Ólafur og Lilla trúlofuðu sig örlagaríka nýársnótt, í forláta Ford bíl sem Valgarð átti, en hann festist í snjóskafli og þurftu þau aðstoð til að komast heim. Þau gengu í hjónaband 20. september 1957 í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Hjónin hófu búskap sinn á Birkimel 10b, í blokkaríbúð sem þau fengu afhenta fokhelda. Ólafur var þá að starfa á kleppi og þegar maður kom að rukka fyrir gólfdúkinn, sagði Lilla honum að koma aftur síðar, því Ólafur væri á Kleppi. Sá dúkur er enn ógreiddur.

Árið 1963 fluttist fjölskyldan til bandaríkjanna, þar sem Ólafur hóf sérnám í þvagfæralækningum, fyrst í New Britain, Conneticut og síðar í Cleveland. Árin Vestanhafs voru þeim mikil reynsla, enda róstursamir tímar í sögu bandaríkjanna sem þau upplifðu þar. Lilla skrifaði reglulega heim og hélt sambandi við systkini sín og fjölskyldu, en á þeim tíma komu þau einungis einu sinni til Íslands, þá til að leyfa fjölskyldunni að hitta yngstu dóttur þeirra.

Ólafur og Kristín eiga þrjú börn: Elst er Guðrún, byggingaverkfræðingur, fædd 1959, sambýlismaður hennar er Hjalti Sigurðsson. Þá er Sverrir rafmagnsverkfræðingur, fæddur 1960, eiginkona hans er Ingibjörg Hauksdóttir. Yngst er Katrín, doktor í Hagfræði, en hún er fædd í bandaríkjunum 1965.

Lilla var fyrst og síðast fjölskyldukona og hún sinnti börnum sínum af einstakri alúð. Hún hafði ríka þjónustulund og var tamt að setja hagsmuni ástvina sinna ofar sínum. Hún gat bakað sig eða eldað inn í hjörtu þeirra sem sóttu hana heim og heimilið skipti hana miklu máli sem athvarf fjölskyldunnar.

Þau hjón bjuggu víða, áttu heima á Seltjarnarnesi í 20 ár, og eiga nú heimili að Mánatúni 2. Garðrækt var alla tíð henni hugleikinn og garður þeirra á Seltjarnesi var valinn fallegasti garður bæjarins, enda þannig hugsaður að einhver hluti hans var alltaf í blóma. Fram á síðasta dag naut hún þess að huga að gróðri og á líknardeildinni var komið upp Kristínarlundi úti palli þar sem hún gat sett niður sumarblóm.

Þá var Lilla flink í höndum og fjölskyldan á marga dýrgripi, sem hún vann í gegnum árin. Bútasaumsteppi, kjóla og lopapeysur og öll eiga þau strending sem á stendur Drottinn blessi heimilið. Eftir hana liggur óklárað stykki, sem kemur í hlut dætranna að ljúka.

Lengstan hluta starfsævinnar vann hún heima en um 15 ára skeið starfaði hún sem læknaritari á heilsugæslunni á Seltjarnarnesi. Þar var hún vinsæl samstarfskona og hún naut þess að starfa á þeim fjölsótta vinnustað. Lilla var húmoristi og átti glettin nöfn yfir hversdagslega hluti og bjó til ýmis orðatiltæki. Spagettí voru ormar og sniglar, lasagna kölluð Sonja og í matinn var iðulega dýrindis ,,rusl og drasl”. Þá þýddi lítið að vera ,,eins og úfinn hænurass í vindi” og spekin höfð yfir að ,,lidt skid skader ikke” eða eins og hún þýddi það í draumi fyrir Dorrit ,,a little dirt doesn’t hurt”.

Þegar barnabörnin komu til sögunnar breyttust reglurnar á heimilinu, og Lilla sem sá ekki sólina fyrir börnunum, vissi ekkert betra en að hafa þau hjá sér. Hún var óþreytandi við að spila við börnin og leyfði þeim, sem ekki mátti áður, sulla í vöskum og klifra á bókastæðum, Merkum Íslendingum. Verst þótti henni hvað barnabörnin stækkuðu hratt og hún tók af þeim loforð um að verða aldrei eldri en 14 ára, sem þeim hefur gengið misvel að efna.

Barnabörn Lillu eru fjögur, þau Ólafur Haukur, Atli Örn, Snorri og Kristín Björg Sverrisbörn og barnabarnabörnin tvö, þau Elísa Karítas og Bergur Jarl Ólafsbörn. Fram á síðustu stundu voru barnabörnin hennar líf og yndi og þegar langömmubörnin heimsóttu hana nú fyrir skemmstu, lifnaði hún öll við í veikindum sínum.

Í Skorradalnum eignaðist fjölskyldan langþráðan bústað, sem hafði verið svo lengi í bígerð að hann fékk nafnið Óðagot, svona óformlega. Þar setti Lilla niður kartöflur og gróðursetti alparósir og eplatré, til að gera griðarstað. Til er falleg mynd af þeim hjónum á göngu í Skorradalnum, í takt eftir yfir 50 ára hjónaband. Það er, eins og hún sagði svo oft, alltaf sól í Skorradalnum.”

Lífsgöngu Lillu er nú lokið, en hún lést á Vífilstöðum, þann 24. júlí síðastliðinn.

Systir hennar Guðný, eða Didda eins og hún er kölluð, bað fyrir kveðju hér í dag frá henni og dóttur sinni, en þær eru búsettar í bandaríkjunum. Í minningu systur sinnar las hún fyrir mig ljóð, sem kallast á við sálminn “When the saints go Marching in.”

When I come to the end of the road
and the sun has set on me,
I want no rites in a gloom filled room,
why cry for a soul set free.

Miss me a little–but not too long,
and not with your head bowed low,
Remember the love that we once shared,
miss me–but let me go.

Ljóðið sem Didda valdi, ber voninni vitni um himnavist og frelsi handan þessa lífs og hvetur okkur sem kveðjum, til að gleðjast og þakka fyrir gleðistundir og dýrmætar minningar.

Skarð Lillu, ástvinar ykkar, verður aldrei fyllt en minning hennar lifir í hjörtum ykkar og hún dvelur nú í þeirri vist þar sem alltaf er sól ,,alveg eins og í Skorradalnum”.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-09-08/kristin-solveig-jonsdottir-f-21-5-1933-d-24-7-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli