sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Neskirkju 27. júlí 2014 · Heim · Kristín Sólveig Jónsdóttir f. 21.5.1933 d. 24.7.2014 »

Katrín Ásmundsdóttir f.30.07.1925 – d. 22.07.2014

Sigurvin @ 09.43 1/8/14

Hvernig er hægt að þakka,
það sem verður aldrei nægjanlega þakkað.
Hvers vegna að kveðja,
þann sem aldrei fer.
Við grátum af sorg og söknuði
en í rauninni ertu alltaf hér.

Höndin sem leiddi mig í æsku
mun gæta mín áfram minn veg.
Ég veit þó að víddin sé önnur
er nærveran nálægt mér.

Og sólin hún lýsir lífið
eins og sólin sem lýsti frá þér.

Ljóð þetta er kveðjuljóð skáldkonunnar Siggu Dúu við andlát ömmu sinnar og barnabörn Katrínar, þau Katrín og Kári Jón völdu ljóðið til minningar um ömmu sína. Ljóðið heldur áfram.

Þegar að stjörnurnar blika á himnum
finn ég bænirnar, sem þú baðst fyrir mér.
Þegar morgunbirtan kyssir daginn,
finn ég kossana líka frá þér.
Þegar æskan spyr mig ráða,
man ég orðin sem þú sagðir mér.

Vegna alls þessa þerra ég tárin
því í hjarta mínu finn ég það,
að Guð hann þig amma mín geymir
á alheimsins besta stað.

Ótti minn er því enginn
er ég geng áfram lífsins leið.
Því með nestið sem amma mín gaf mér,
veit ég að gatan hún verður greið.

Og þegar sú stundin hún líður
að verki mínu er lokið hér.
Þá veit ég að amma mín bíður
og með Guði tekur við mér.

Þessar ljóðlínur sem þið völduð krakkar er í senn vitnisburður um mikilvægi trúarinnar á kveðjustundu og falleg þakkarkveðja fyrir það sem amma Katrín var ykkur, og verður alla tíð.

Það trúartraust sem lýst er í þessum ljóðlínum byggir á fyrirheiti guðspjallsins, sem lesið var hér áðan. Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?

Við stöndum ekki ein í lífinu og við þurfum ekki að óttast dauðann, því “í báðum víddum”, eins og skáldkonan orðar það erum við umvafin elsku. Katrín, sem á sinni ævigöngu mat ástvini sína ofar öllu og umvafði fólkið sitt hlýju og alúð, er nú sjálf á kveðjustundu umvafin. Í þessari vídd er hún vafin í minningar ykkar, ást og fyrirbæn og í faðmi Guðs fær hún nú notið þeirrar hlýju, sem bíður okkar allra handan þessa lífs.

Örugg í þeirri von, getum við staðið óhrædd frammi fyrir dauðanum og tekið undir með skáldkonunni: Vegna alls þessa þerra ég tárin, því í hjarta mínu finn ég það, að Guð hann þig amma mín geymir á alheimsins besta stað.

Katrín Ásmundsdóttir fæddist 30. júlí 1925, næstelst fjögurra systkina, en fjölskyldan bjó á Týsgötu 5 í Reykjavík. Foreldrar Katrínar voru þau Eygerður Guðbrandsdóttir og Ásmundur Jón Magnússon, en þau voru bæði Árnesingar. Ásmundur var sjómaður, en varð fyrir slysi, og starfaði eftir það í landi sem símamaður.

Bræður Katrínar, Magnús sem var elstur fæddur 1921 og Guðbrandur fæddur 1927, létust báðir árið 2008, en systir hennar Oddný kveður systur sína hér í dag. Þau systkini voru náin og héldu þétt hópinn, og Oddný minnist þess að hafa leitað mikið til systur sinnar enda voru þær samrýmdar.
Bernskuheimili þeirra var tónlistarheimili, en á Týsgötunni var til fótstigið harmonium og fiðla, sem Ásmundur spilaði á. Katrín lærði því ung að meta tónlist og hafði ánægju af því að hlusta á vandaða tónlist alla tíð. Hún gat spilað nótulaust á orgel og átti forláta upptökur sem hún spilaði af tveggjarása hljóðsnældum. Afkomendur Katrínar eiga margar minningar af tónlistarástríðu hennar og hún hafði fjölbreyttan og vandaðan tónlistarsmekk. Þýska dægurlagið Spanish eyes var eitt af hennar uppáhaldslögum og ítalski óperusöngvarinn Pavarotti, sem hljómaði við minningarstund hennar í Sóltúni, var í miklu uppáhaldi hjá Katrínu.

Foreldrar Katrínar áttu sumarbústað í Laxnesi í Mosfellsdal og hann var þeirra griðarstaður á sumrin. Systkinin dvöldu þar um lengri tíma með móður sinni, en faðir þeirra kom um helgar. Æskuvinkona fjölskyldunnar Ingibjörg Þorkelsdóttir rifjaði upp að börnin fengu það hlutverk að sækja vatn í lækinn, þar sem ekki var rennandi vatn í bústaðnum, og að Kata hafi verið liðtæk við að baka klatta á olíueldavél. Katrín átti góðar minningar af samverustundum í Laxnesi og hvíldarstaður hennar í Gufuneskirkjugarði er með útsýni yfir Mosfellsdalinn.

Katrín gekk í Austubæjarskóla og þaðan lá leiðin í Kvennaskólann í Reykjavík. Hún hóf nám þar með vinkonu sinni Ingibjörgu og var vegna samviskusemi veitt það heiðurshlutverk að vera umsjónarkona bekkjarins. Hún útskrifaðist úr Kvennaskólanum 1944. Eiginmanni sínum, Kára Elíassyni, hárskera giftist hún 6. maí 1950 og þau hófu búskap sinn í foreldrahúsum Katrínar á Týsgötu 5. Framtíðarheimili sitt eignuðust þau í Mávahlíð 22 þar sem þau bjuggu næstu 60 árin. Kári rak ásamt kollega sínum Leifi Jóhannssyni, Rakarastofu Leifs og Kára, í yfir 50 ár en hún var starfrækt á Frakkastíg og síðar Njálsgötu í Reykjavík.

Hjónaband þeirra var innilegt og farsælt og dótturdóttur þeirra, sagði það áberandi hvað þau væru ástfangin og ánægð hvort með öðru.
Börn Katrínar og Kára eru Elías fæddur 1952 og Katrín Ásgerður fædd 1963. Ásgerður er gift Hannesi Jóni Helgasyni og þau eiga Katrínu, sem er á 19. ári og Kára Jón sem fermdist nú í vor.

Þau hjón voru samrýmd og nutu þess að eyða tíma saman, á ferðalögum sem og í faðmi fjölskyldunnar. Fyrsta utanlandsferðin var farin til Evrópu með Gullfossi árið 1956. Kári stundaði um áratugaskeið golfíþróttina og seinni árin var farið í golfferðir, sem Katrín naut ekki síður en Kári, þó hún hafi ekki spilað sjálf. Þau unnu reyndar eitt sinn bikar í hjónakeppni en þá spiluðu mennirnir og konurnar púttuðu.

Katrín var glæsileg kona, bar sig af reisn og var ávallt vel klædd, og var bleikur hennar uppáhalds litur. Hún hafði létta lund og hafði einstakt lag á að finna gleði í aðstæðum sínum. Hún hafði hnyttin tilsvör á reiðum höndum þegar minnið fór að gefa sig, hún kannaðist t.d. ekkert við að vera sjúklingur og þegar hún var minnt á að hún byggi á Sóltúni svaraði hún ,, það er eins gott að vita það?”

Þá var í hennar huga alltaf tími til að skapa gæðastundir með fólkinu sínu og þeim var búin umgjörð með kaffibolla, snittum, marengstertum og að ógleymdum rauðu jarðaberjahlauptertunum. Þessi ræktarsemi er börnum hennar og barnabörnum í blóð borin og þau heimsóttu foreldra sína daglega á Sóltún, til að spjalla, fara í göngutúra eða eins og Kári Jón orðaði það, til að horfast í augu og kinka kolli í notalegri þögn.

Í veikindum sínum veitti Sóltún kærkomið skjól og aðstandendur vilja þakka þá alúð sem þeim hjónum hefur verið sýnd á hjúkrunarheimilinu.

Katrín Ásmundsdóttir lést á heimili sínu að Sóltúni þann 22. júlí síðastliðin og hefði orðið 89 ára gömul í gær, 30. júlí.

Ótti minn er því enginn
er ég geng áfram lífsins leið.
Því með nestið sem amma mín gaf mér,
veit ég að gatan hún verður greið.

Og þegar sú stundin hún líður
að verki mínu er lokið hér.
Þá veit ég að amma mín bíður
og með Guði tekur við mér.

Katrín kveður þennan heim auðug af þeim fjársjóði, sem einum er þess virði að safna, kærleika, alúð og minningum ástvina.

Þið kæru ættingjar og vinir kveðjið hér í dag með ríkulegt nesti frá henni.

Guð helgi söknuð ykkar og trega, og blessi minningu Katrínar.

SalmaskraB4

url: http://sigurvin.annall.is/2014-08-01/katrin-asmundsdottir-f-30-07-1925-d-22-07-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli