sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Neskirkju 6. júlí 2014 · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 27. júlí 2014 »

Prédikun flutt í Neskirkju 20. júlí 2014

Sigurvin @ 16.08 20/7/14

Það kostar hugrekki að eiga þannig trú!
Kunnugleiki trúarinnar hefur þau áhrif að það er auðvellt að missa sjónar á því hversu róttækur boðskapur kristinnar trúar er.

Á öllum sviðum boðar Nýja testamentið róttækan viðsnúning á öllum þeim gildum og lögmálum sem einkenna mannlegt samfélag. Félagslega, stjórnmálalega, persónulega og á sviði spurninga er varða eðli lífs og dauða.

Jesús kollvarpar félagslegum lögmálum þess að vera vinur vina sinna og óvinur óvina sinna og segir – elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofækja yður.

Jesús kollvarpar í boðun sinni gamalgrónum lögmálum stjórnmála, sem byggja á ógnun, hervaldi og ríkidæmi og segir – elskið, látið af völdum og gef eigur ykkar fátækum.

Og Jesús boðar að dauðinn, sem virðist óhjákvæmilegt lögmál þess að lifa, hafi verið sigraður og segir – að hann hafi búið okkur stað handan þessa lífs.

Í mínum huga eru samt róttækustu hugmyndirnar og jafnframt þær sem auðvelldast er að missa sjónar á sökum kunnugleika trúarinnar, þær sem snúa persónulega að þér og mér.

Þær hugmyndir að við séum elskuð, að okkur hafi verið fyrirgefið, að Guð hafi áætlun með lífi okkar og að við höfum kraft Guðs innra með okkur.

Öll gjörþekkjum við þessar hugmyndir, búumst við að rekast á þær í Biblíunni og það að prestur skuli fjalla um þær í prédikun er fullkomlega fyrirsjáanlegt og jafnvel klisjukennt.

Þrátt fyrir það eru fáir, sem í raun þora að trúa þessum einföldu trúarsannindum og þar er ég á meðal.

Hvernig myndir þú lifa lífi þínu ef þú værir sannfærð eða sannfærður um að þú værir í grunninn elskuð af skapara okkar?

Hvernig myndir þú lifa ef þú vissir að þú þyrftir ekki að burðast með skömm, sektarkennd, ótta?

Hvernig myndir þú lifa ef þú tryðir því að Guð hefði áætlun fyrir líf þitt?

Hvernig myndir þú lifa ef þú sannfærðist um að þú hefir kraft Guðs innra með þér?

Það er auðvellt að hljóma eins og sölumaður og reynslan kennir okkur að það sem hljómar of gott til að vera satt – er það yfirleitt.

En þetta er sá boðskapur sem okkur er treyst fyrir, sem játendum Jesú Krists.

Biblían boðar að við séum börn Guðs, sköpuð í hans mynd, og hjálpræðissaga Biblíunnar frá Mósebókum til Opinberunar Jóhannesar ber þess vitni á ótal vegu að Guð hafi í elsku sinni gert ótal tilraunir til að miðla til okkar kærleika sínum … og geri enn. Sú tilhugsun að vera elskuð af Guði vekur upp mismunandi viðbrögð frá fólki og reynsla okkar af lífinu mótar þá heimsmynd eða Guðsmynd sem við geymum innra með okkur, en við eigum það fyrirheiti að mega þiggja elsku Guðs þar sem við erum stödd hverju sinni, hverjar sem aðstæður okkar eru.

Öll þörfnumst við þess að upplifa okkur elskuð og sú tilfinning eða reynsla að skorta ást getur knúið okkur til að krefja fólk ástar eða að setja á svið leikrit til að reyna að fá annað fólk til að samþykkja okkur. Ef við trúum því að við séum frá upphafi elskuð og viðurkennd, þurfum við ekki á slíkum verkfærum að halda. Við getum óhindrað og óhrædd elskað aðra skilyrðislaust og þegið ást og viðurkenningu frá umhverfi okkar án þess að þurfa að krefjast hennar.
-
Höfundar Nýja testamentisins leggja mikið á sig til að útlista á hvern hátt koma Jesú Krists inn í þennan heim, leiðir af algjöra syndaaflausn þess, sem tekur á móti frelsunarverki hans. Við erum samkvæmt því fagnaðarerindi sem Biblían boðar, syndlaus og flekklaus án þess að hafa unnið til þess og megum treysta þeirri náð sem engum manni bregst.

Flest okkar glíma við sektarkennd og skömm í sálarlífi okkar sem litar upplifun okkar af lífinu, eins og suð í sjónvarptæki. Við erum svo vön því að lifa með slíkum kenndum að það virðist óhugsandi annað en að burðast með þær og ógjörningur að leiðrétta allt sem miður hefur farið í samskiptum okkar við annað fólk. Ef við þiggjum þá náð, trúum því að við getum byrjað með hreint borð og að okkur sé algjörlega fyrirgefið, þá getum við rétt úr bakinu og horfst í augu við lífið og samferðarfólk án þess að þurfa að líta undan.
-
Frásagnaheimur biblíunnar er heillandi meðal annars fyrir þær sakir að fjalla um venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum. Það er hvergi dregið undan í því að lýsa mannlegum breiskleika persónanna og það fólk sem stærstu hlutverki gegnir er oft ófullkomnast. Móse verður ofurölvi, Abraham er konu sinni ótrúr, Davíð verður manni að bana, Pétur afneitar frelsara sínum og Páll ofsótti kristna menn. Sameiginlegur boðskapur í öllum frásögnum Biblíunnar er að Guð hafi áætlun með lífi fólks og það er áskorun þeirrar arfleifðar til okkar að trúa því og leita að guðlegum tilgangi okkar í lífinu.

Flest erum við verur vanans og það er auðvellt að koma sér upp venjum, sem við fylgjum hugsanalaust í takti hversdagsins. Sá þægindarammi sem eitt sinn þjónaði okkar, getur orðið hindrun í því að vaxa og farartálmi á för okkur til betra lífs. Ef við trúum því að okkar bíður betra líf, hlutdeild í áætlun Guðs í þessum heimi, þá getum við óhrædd fylgt hjarta okkar, tekið áhættur og leitað af heilum hug að leiðsögn um vilja Guðs okkur til handa.
-
Loks ber Biblían þess vitni að andi Guðs, kraftur heilags anda, standi okkur til boða og vilji tendra bál djúpt innra með okkur sem verður ekki slökkt af neinum nema okkur sjálfum. Kraftur Rutar sem stóð með fjölskyldu sinni, hugrekki Davíðs sem felldi risann, viska Salómons sem sameinaði þjóðir, og sannfæring fylgjenda Jesú sem breiddu út kristindóminn, bera þess vitni.

Flest höfum við upplifað í tilveru okkar vanmátt gagnvart eigin aðstæðum og getuleysi til að breytast, þrátt fyrir að hafa fúsleikan til þess. Ef við eigum aðgang að krafti heilags anda getum við beitt þeim krafti til að breyta aðstæðum okkar, öðlast trúfesti, hugrekki, visku og kraft, sem getur yfirbugað allar hindranir og leyst úr læðingi ótæmandi möguleika í lífi okkar.
-
Allt þetta stendur okkur til boða.

Það kann að virðast auðveldara að vera varkár í samskiptum en að elska fólk skilyrðislaust, það er jú ekki víst að ástin verði endurgoldin.

Það kann að virðast auðveldara að halda í fortíðardrauga, það er jú ekki víst að aðrir geti fyrirgefið okkur þrátt fyrir fúsleika okkar til að bæta fyrir fortíðarmistök.

Það kann að virðast auðveldara að draga fram afsakanir fyrir því að fylgja ekki draumum sínum, en að taka áhættuna á því að gera sig að fífli og að mistakast.

En ef spurt er að leikslokun er líklegra að eftirsjáin yfir því að hafa ekki lifað lífinu til fulls sé verri, en að hafa gert sitt besta og uppskorið annað en lagt var upp með.

Guðspjall dagsins er í senn einföld frásögn og uppskrift að leyndardómi þess að bera ávöxt í lífinu. Jesús er að kenna mannfjöldanum við Genesaretvatn og vinir hans eru með honum. Þegar hann er búinn segir hann við Símon Pétur, ,, Legg þú út á djúpið” en Pétur svarar, sem eðlilegt er: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið”. En hann lætur ekki þar við sitja heldur játar, ,,fyrst þú segir það skal ég leggja netin.” Þá fyllast netin af fiski.

Þessi látlausa frásögn, sem fjallar um hversdagslíf fiskimanna í sveitahéruðum Galíleu, ber með sér leyndardóm þess að láta trú sína bera ávöxt.

Símon Pétur er fús til að leita Guðs og hlusta á það sem Jesús hefur við hann að segja, hann fylgir leiðsögninni eftir þó hann telji sig hafa reynt aðferðirnar áður og uppsker fyrir vikið ríkulega.

Kristin trú er ekki lokuð hugmyndafræði eða algild svör, hún er áskorun um að lifa lífi sínu í öðrum takti.

Lifa eins og að við séum elskuð,
Lifa eins og að okkur sé að fullu fyrirgefið
Lifa eins og að draumar okkar séu hluti af áætlun Guðs
Lifa eins og að við höfum kraft hið innra til að láta þá rætast

Það kostar hugrekki að eiga þannig trú.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-07-20/predikun-flutt-i-neskirkju-20-juli-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli