sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Kristín Árnadóttir f. 12.6.1925 – d. 16.5.2014 · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 20. júlí 2014 »

Prédikun flutt í Neskirkju 6. júlí 2014

Sigurvin @ 16.18 6/7/14

Við erum sköpuð til tengsla
TengingarÞið kannist sjálfsagt öll við þá tilfinningu að standa ráðþrota gagnvart sjálfum sér.
Þið vitið að vera fullviss um eitthvað og tilbúinn til að verja það af fullum þunga, þar til á augabragði að þú uppgötvar að þú hafðir algjörlega rangt fyrir þér og eins og hendi sé veifað er hinn gagnstæði sannleikur jafn mikil fullvissa og sú fyrri var.
Eða þegar þú veist betur, skynsemin segir þér að sleppa einhverju og þú, upplýstur og gegn betri vitund, heldur í ósiðinn sem þú veitir þér stundarfróun.
Eða þegar þú stendur þig að verki við að dæma einhvern fyrir eitthvað, sem þú sjálfur hefur margoft gerst sekur um, en af einhverjum sökum getur leyft þér að fordæma í öðrum.
Það er flókið að vera manneskja og sá mannskilningur sem við búum yfir leggur grunninn að því hvernig að okkur farnast við að takast á við það verkefni.

Í vestrænni menningu erfum við mannskilning sem er þverstæðukenndur og að mörgu leiti óræður. Frá Hebreum erfum við hugmyndina um að við séum sköpun Guðs og birtum hann í okkur og frá Persum þá hugmynd að til sé gott fólk og vont fólk. Grikkir skilgreindu sig á grundvelli menntunar, sem lagði grunninn að mannsmynd Upplýsingarinnar, þeirri hugmynd að ef þú veist betur þá gerir þú betur. Sálfræðingar 20. aldarinnar leituðu til undirmeðvitunarinnar í leit að skýringum á hegðun mannsins, Freud í kynhvötina og Jung í erkitýpurnar sem birtast í goðsögnum heimsins.

Allar þessar mannsmyndir byggja á birtingarmyndum mannlegs samfélags en mannskepnan er í eðli sínu svo þverstæðukennd að hún verður ekki skilgreind á grundvelli algildra kenningakerfa. Við erum sannarlega heilög í eðli okkar en sú hugmynd að til séu tvær gerðir fólks, gott fólk og vont fólk, er einföldum sem leiðir til ills. Upplýsingin hefur aflétt miklu böli en sú hugmynd að hægt sé að leiðrétta allt í mannlegu samfélagi með nægum upplýsingum, gengur gegn þeirri staðreynd að flest okkar breytum iðulega gegn betri vitund. Kynlíf hefur mikil áhrif á líf okkar, en auðvellt er að gera of mikið úr mikilvægi þess, og undirmeðvitundin er sannarlega öflug en því ber að hafna að við séum einungis leiksoppar óræðra innri hvata.

Kristin mannskilningur er hvorki algild skilgreining né lokað kenningakerfi, en hann er í senn raunsær á syndugt eðli manneskjunnar og bjartsýnn að getu mannsins til að breytast.

Í grunninn erum við nefnilega ekki skynsemisverur, þó að við höfum getu til að setja tilveru okkar í röklegt samhengi.

Við erum heldur ekki í kjarna okkar afreksverur, þó að metnaður okkar sé sannarlega sýnilegur í því samfélagi sem við búum.

Og við erum heldur ekki einungis tilfinningaverur, þó að líf okkar væri sannarlega snautt án þeirra tilfinninga sem glæða sálarlíf okkar litum.

Í grunnin erum við gerð til tengsla. Tengsla við okkur sjálf,
tengsla við samfélag okkar og ástvini
og tengsla við það samhengi lífsins að baki tilveru okkar, sem við köllum Guð.

Synd er ekki skortur á skynsemi eða þekkingu, þó það hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Synd er ekki brotinn metnaður, brostnir af væntingar eða óklárað ævistarf, þó að slíkt geti sannarlega legið þungt á þeim sem upplifa að þeir hafi brugðist á einhvern hátt.

Synd er ekki sinnisveiki þar sem tilfinningar taka stjórnina á sálarlífi manneskjunnar, þó geti sannarlega gerst.

Nei synd er að vera úr tenglsum.
Úr tengslum við eigið sálarlíf, hugsanir sínar, tilfinningar og drauma.
Úr tengslum við samfélag manna og það ástvinanet sem hverjum manni er nauðsynlegt.
Og úr tengslum við Guðs, það ástríka samhengi sem tengir okkur þeirri tilveru sem sköpunarverkið er.

Orðsifjar hugtaksins bera þess merki.
Á tungumáli okkar en hugtakið synd dregið af sund, sem merkir gjá eða hyldýpi, sem og sundrung.

Synd er því hver sú hugsun, hver sú tilfinning, hver sú aðgerð og hvert það ástand sem skapar sundrung í lífi okkar og aðskilur okkur frá okkur sjálfum, frá öðrum og frá Guði.

Birtingarmyndir syndar eru óteljandi og við segjum sögur til að hjálpa hvert öðru til að skilja eðli syndarinnar, í lífi okkar og annarra.

Það að vera úr tengslum hið innra birtist í sektarkennd, skömm og minnimáttarkennd,
rofin tengsl við aðra í gremju, hroka og sinnuleysi gagnvart þörfum annara
og tengslaleysi við Guð í getuleysi til að skynja samhengi þess hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa á umhverfið og til að sjá ást og tilgang í tilveru sinni.

Guðspjöllin eru full af dæmisögum sem lýsa þessu ástandi og þeim fögnuði sem verður þegar einstaklingur kemur til sjálfs sín, nær sáttum við samferðafólk sitt eða skynjar nærveru Guðs og samhengi lífsins á nýjan hátt.

Sagan af týnda syninum og góða hirðinum eru þekktastar en dæmisögurnar í guðspjalli dagsins eru sömu gerðar.

Í formála þeirra er falin kunnugleg ásökun á hendur fræðimanna og farísea, sem verða líkt og víða í frásögnum guðspjallanna tákngerving þeirrar syndar að aðgreina sig frá öðrum og útiloka fólk á grundvelli þess að þykjast betri en aðrir.

Þar segir: Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“

Í fordæmi Jesú er fólgin áskorun til kirkjunnar að vera opið samfélag og taka að sér syndara og samneyta með þeim. Þar erum við fæst undanskilin, þó staða okkar sé ólík, og þegar við förum í manngreinarálit í kirkjunni bregðumst við köllun okkar sem fylgjendur Krists.

Dæmisögurnar lýsa þeim fögnuði sem verður við að taka sinnaskiptum og í niðurlagi þeirra er ítrekuð gagnrýni á þá sem telja sig ekki þurfa slíkra sinnaskipta við: ,,þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.”

Kristin trú boðar ekki algilda aðferðafræði, heldur tengsl, og allt helgihald kirkjunnar miðar að því að komast í tengsl hið innra og hið ytra, við sjálfan sig, Guð og menn.

Grunnboðskapur Jesú er að Guð sé svo nærri að ekki sé hægt að fjarlægjast hann og að við sem erum hans sköpun séum tengd þráðum sem ekki verða rofin.

Kirkjan kallast á við þann boðskap með því að miðla þeim sannleika og stuðla að tengslum í fjölbreyttum birtingarmyndum sínum.

Rétttrúnaðarkirkjan á djúpa íhugunarhefð, sem byggir á því að horfast í augu við hina heilögu í gegnum íkona, og komast þannig í tengsl við sjálfan sig og Guðdóminn. Hvítusunnumenn leita andans í lofgjörð og vilja þannig komast í tengsl við Guð og fólk í gegnum upplifun og tilfinningar og okkar messuform miðar að því að koma á tengslum sem hafa verið rofin.

Fögnuðinn þekkjum við öll í mismunandi myndum, þann fögnuð að upplifa hversu dýrmæt við erum, þegar séð er í gegnum syndina sem yrgir okkur sýn.

Fögnuðinn sem fylgir því að upplifa okkur ekki ein, heldur tengd því samfélagi sem við lifum í og þörfnumst til að farnast vel í lífinu.

Og þann fögnuð að upplifa nærveru Guðs í lífi okkar, sem glæðir lífinu ást og töfrum í önnum hversdagsins.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-07-06/predikun-flutt-i-neskirkju-6-juli-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli