sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Laugarneskirkju á páskadagsmorgun · Heim · Prédikun flutt í Neskirkju 6. júlí 2014 »

Kristín Árnadóttir f. 12.6.1925 – d. 16.5.2014

Sigurvin @ 23.00 28/5/14

Screen shot 2014-05-28 at 22.57.05Æðruleysi er einn eftirsóknarverðasti ávöxtur trúariðkunar og markmið margra með reglubundnu bænalífi. Æðruleysi er andstæða þess að æðrast, sem merkir að missa tökin á tilfinningalífi sínu andspænis mótlæti, og æðruleysi er því getan til að mæta andstreymi af innri yfirvegun. Æðruleysisbænin vinsæla biður um slíka innri ró og leiðir jafnframt hugann að mikilvægi þess að bera skynbragð á hverju okkur ber að breyta og hverju einungis er hægt að sætta sig við.

Guð gefi mér æðruleysi,
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Á meðan mörg okkar eiga fullt í fangi með að halda yfirvegum virðist öðrum vera gefið meira æðruleysi í þessu lífi. Þeirrar gerðar var Kristín Árnadóttir en hún hafði einstaka getu til að halda ró sinni í öllum aðstæðum. Hvort sem um var að ræða deilur manna á milli, gleðskap barna sinna eða erfiðleika og veikindi mætti hún þeim af yfirvegum og leyfði því að verða sem vildi. ,,Heima hjá ömmu var eins og tíminn stæði í stað” orðaði barnabarn Kristínar um nærveru ömmu sinnar, sem alltaf var athvarf sama hvað gekk á.

Kristín var fædd í Reykjavík þann 12. júní 1925, dóttir hjónanna Árna Björns Björnssonar gullsmíðameistara og Hróðnýjar Svanbjargar Einarsdóttur húsfreyju. Foreldrar hennar ráku úra- og gullsmíðaverkstæði í miðborg Reykjavíkur en föðurbræður hennar voru jafnframt kaupmenn þar. Kristín var næstelst í hópi fjögurra systkina en fjölskyldan bjó lengst af á Túngötu í húsi sem foreldrar hennar byggðu.

Faðir hennar var mikill útivistarmaður og sem barn lærði Kristín að meta náttúru Íslands í gegnum gönguferðir, fjallgöngur og hestamennsku. Að loknu verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands, ferðaðist Kristín til Englands og foreldrar hennar sóttu hana þaðan og fóru með dóttur sinni í eftirminnilega ferð um Evrópu. Í þeirri ferð var meðal annars farið á skíði í svissnesku Ölpunum, sem þótti óvenjulegt á þeim tíma, en faðir hennar átti þangað erindi við innkaup á úrum fyrir verslun sína.

Manni sínum, Stefáni Ólafi Ólafssyni, kynntist hún um tvítugt í hestaferð við Heklu en þau hófu búskap í Svíþjóð þangað sem hann sótti verkfræðinám. Þau giftu sig í Stokkhólmi 15. maí 1948 og áttu góðar minningar af námsárunum. Þegar heim var komið starfaði Stefán hjá Reykjavíkurborg sem verkfræðingur og þau bjuggu meðal annars í kjallaranum að Túngötu á meðan þau voru að byggja sér heimili. Húsið að Sporðagrunni 14 var reist í samvinnu við nágranna og er Kristín síðust frumbyggja í götunni að kveðja heimili sitt, þar en hún hafði búið samfleytt frá árinu 1956.

Þau hjón eignuðust fimm börn og af þeim er orðinn mikill ættbogi.

Elstur er Árni Björn augnlæknir fæddur 1949, eiginkona hans er Gunnhildur Stefánsdóttir sjúkraliði. Þau eiga Stefán, sambýliskona hans er Sara Jóhannsdóttir og börn hans eru Nökkvi og Alexander Máni. Dóttir Gunnhildar er Sigrún Hermannsdóttir og dætur hennar eru Gunnhildur Karen og Bryndís Arna.

Næstelstur er Ólafur Már tæknifræðingur fæddur 1953, kona hans er Kristín Pétursdóttir tanntæknir, dætur þeirra eru Íris Ósk, maður hennar er Ingólfur Örn Ómarsson, sonur þeirra er Nökkvi Örn og Ninna Björg, maður hennar er Lárus Helgi Ólafsson.

Þá er Björg skrifstofustjóri fædd 1955, maður hennar er Sveinbjörn Garðarsson. Börn þeirra Kristín Halla, maður hennar er Ómar Davíðsson og börn þeirra eru Sveinbjörn Orri, Davíð Óli og Friðrik Pétur og Gunnhildur, maður hennar er Helgi Gíslason og börn þeirra eru Sigurbjörg, Þórhildur og Haukur Þór.

Næst er Auður hjúkrunarfræðingur fædd 1958, maður hennar er Ágúst Guðmundsson. Börn þeirra eru Eiður, kona hans er Hulda Hrund Jónasdóttir, dóttir þeirra er Steinunn Harpa; Arnar, kona hans er Halldóra Guðmundsdóttir; Alda maður hennar er Anton Fannar Árnason, og Atli.

Yngstur er Einar Kristján verkfræðingur fæddur 1965, kona hans er Sigurlaug Guðrún Þórðardóttir. Dætur þeirra eru Arndís, Stefanía og Katrín. Alls eru þetta fjórtán barnabörn og ellefu barnabarnabörn að ótöldum tengdabörnum.

Á fjölmennu heimili var oft mikið um að vera og Kristín sinnti börnum sínum af alúð, án þess þó að skammast mikið í þeim eða segja þeim til verka. Þau voru mörg uppátækin sem voru umborin af elsku, m.a. var kvartað í götunni undan fyrirferð drengjanna, sett ofan í við þá fyrir innflutning stórra hverasnigla í garðinn og eitt sinn gleymdist jafnvel sófasett heimilins úti í garði eftir gleðskap án þess að Kristín skipti skapi.

Þau hjón voru ástrík og Stefán lagi mikið stollt við að klæða konu sína upp og tók vinkonu hennar með í kjólaleiðangra að velja á konu sína. Í fríum var lagt upp úr því að ná sólargeislum í andlitið og þá bárust fréttir af súkkulaðilit Kristínar, sem dökknaði eftir því sem leið á sumarið á skalanum frá hvítu yfir í suðusúkkulaði, eftir því hvernig viðraði til sólbaða.

Kristín var mikil íþróttakona, hljóp á skautum frá barnsaldri, stundaði fimleika og sýndi með ÍR og var slíkur fastagestur í sundlaugum að jafnvel á ferðalögum varð að finna laug til að dýfa sér ofan í. Hún synti daglega og barnabörnin muna vel að vera dregin í sund með hraustri ömmu sinni í útiklefa í öllum veðrum, þar sem var staðið á höndum, sippað og hangið áður en var syntur hinn daglegi skammtur. Fram á síðustu ár stundaði hún laugarnar og þegar heilsan brast var komið upp göngugrind fyrir hana í Laugardalslauginni þar sem hún var daglegur gestur. Sína eigin grind geymdi hún í bílskúrnum og þótti spaugilegt að sjá til hennar opna með fjarstýringunni og skunda að heiman og heim. Heilsuræktin náði þó ekki til reykinga, en í hennar huga voru það mannréttindi sem standa þurfti vörð um. Þau hjón reyktu bæði og á ferðalögum varð oft þoka inni í bílnum af sígarettureyk. Eins þverstæðukennt og það er, var það hennar síðasta tilefni til hreyfingar og líkamsræktar að skjótast út af Landakoti, setjast á bekk og fá sér sígarettu.

Þingvellir voru hennar griðarstaður en foreldrar hennar áttu bústað við Þingvallavatn. Náttúrufegurð þessarar lýðræðisvöggu okkar Íslendinga er einstök og Kristín vandi komu sína þangað út lífið. Síðast átti hún athvarf undir stiganum í bústað sonar síns en þar gat hún sofið vært fram eftir í fleti sem varla rúmaði lágvaxna konuna. Berjatínsluferðir voru hennar líf og yndi og fór hún gjarnan í Skógarkot á Þingvöllum með foreldrum sínum. Þegar geta til göngu fór að minnka, en þráin var enn til staðar vílaði hún ekki fyrir sér óhefðbundnari og nýtískulegri ferðamáta til að komast í ber með fólkinu sínu. Sást til hennar á fjórhjóli á Skógarkotsstíg fyrir 5 árum og ekki laust við að einhverjir óttuðust afleiðingarnar ef upp kæmist. Fjölskyldan sá fyrir sér blaðafyrirsagnirnar „Hálfníræð kona tekin við ólöglegan akstur á fjórhjóli í berjaferð í þjóðgarðinum á Þingvöllum“.

Kristín fór í sjúkraliðanám og lauk því með sóma árið 1970, þá rúmlega fertug. Sem sjúkraliði starfaði hún í aldarfjórðung og var allstaðar rómuð fyrir dugnað og sérstakt lundarfar sitt, sem sætti öll sjónarmið með stakri rósemi. Þegar ævistarfi hennar lauk tók við annasöm dagskrá gullnu áranna, en auk þess að synda spilaði hún reglulega Bridge, sótti námskeið og ferðaðist eins og heilsa og efni leyfðu.

Barnabörnin minnast hlýjunnar í Sporðagrunni og að þar var yfirleitt eldað á pizzastöðum eða Nings til að gleðja börnin. Öll voru þrifin hátt og lágt með borðtusku og áttu stað hjá ömmu sinni. Kristín hafði í hógværð sinni alla þræði fjölskyldunnar í hendi sér, fyldist grant með fólkinu sínu og gat rakið vegferð fjölskyldunnar langt fram í ættir. Hún var með sanni miðja fjölskyldunnar og ættmóðir. Kristín náði háum aldri og auðnaðist að geta búið heima þar til í marsmánuði á þessu ári, þar til heilsan leyfði það ekki lengur. Kristín Árnadóttir lést á Landakotsspítala þann 16. maí síðastliðinn 89 ára að aldri.

Æðruleysi er dýrmæt gjöf sem Kristínu var eðlislæg en hún hafði einstaka getu til að mæta lífinu af yfirvegun. Að baki þeirri náðargáfu býr sú vissa að þær stundaráhyggjur sem við oft beinum sjónum okkar að, draga athyglina frá því sem raunverulega skiptir máli. Með því að eyða ekki kröftum sínum í að ergja sig á öðrum gat hún beint sjónum sínum að því að lifa lífinu til fulls og njóta samvista við ástvini sína og samferðafólk.

Æðruleysisbænin er lengri en þær fjórar línur sem flestir þekkja, en bæn þessi er upprunin hjá bandaríska guðfræðingnum Reinhold Niebuhr.

Bænin heldur áfram …

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann

og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.

Á kveðjustundu kallast á sorg og gleði, eftirsjá og þakklæti fyrir það æviskeið sem mótað hefur tilveru ykkar sem af henni eru komin. Fordæmi hennar að mæta lífinu af æðruleysi og lífsþrótti er í anda frelsarans og er fyrirmynd okkur sem þurfa meira fyrir slíkri rósemi að hafa. Æviskeið hennar var farsælt og hamingjuríkt, þó áföll og sorg hafi sett svip sinn á langa ævi, og við megum finna huggun í þeirri von að hennar bíði friðarríki handan þessa lífs.

Guð helgi minningu Kristínar Árnadóttur og veiti ykkur hlutdeild í himneskum friði sínum.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-05-28/kristin-arnadottir-f-12-6-1925-d-16-5-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli