sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Laugarneskirkju á Pálmasunnudag 2014 · Heim · Prédikun flutt á Skírdag 2014 »

Helga Jónsdóttir f. 2.8.1930 – d. 2.4.2014

Sigurvin @ 18.59 15/4/14

HelgaJonsÞau eru ófá heimilin í landinu þar sem stendur skrifað Drottinn blessi heimilið en í þeim látlausu orðum er fólgin sú djúpstæða bæn að sá bústaður sem tekin er upp beri yfirbragð heimilis. Það er ekki sjálfgefið að bústaður verði að heimili, enda notum við lýsingarorð til að lýsa þeirri upplifun að heimili sé heimilislegt. Hús verður heimili þegar það reynist skjólshús þeim sem þar búa og þeim sem þangað leita og slíkt skjól verður einungis búið af hjartahlýju, alúð og metnaði. Í fjallræðu Jesú, á eftir þeirri bæn sem öllum bænum er merkari, segir hann: ,,Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.”

Þessi orð vísa samtímis til þeirrar handanvistar, sem vonir okkar líta til að loknu þessu lífi, og jafnframt þeim hversdagslega sannleika að veraldlegir munir eru verðlausir í samanburði við ástvini okkar og afkomendur. Hjarta Helgu var hjá fjársjóði sínum, fólkinu sínu, og þessvegna lagði hún metnað sinn í að búa þeim skjól. Heimili hennar var fallegt og metnaður hennar fyrir heimilinu bar því vitni að hún vildi búa fólkinu sínu ástríka umgjörð. Heimili hennar var fullt af næringu; kjötsúpu, lakkrísafgöngum og egg og beikoni fyrir líkamann og alúð, ást og sótsvörtum húmor fyrir sálina, og heimili hennar var opið þeim sem þangað áttu leið, að deila með henni hlutdeild í lífi sínu og þiggja af henni ást og áhuga.

Að loknu æviskeiði eru það ekki veraldlegir hlutir sem sitja eftir, þeir sem að lokum verða verðlausir eða möl og ryði að bráð, heldur tengslin við ástvini okkar. Eilífa lífið er í eðli sínu tvíþætt, við eigum vist í faðmi Guðs, þaðan sem við komum, og við lifum í minningum þeirra sem að faðmur okkar hefur umvafið í lífinu. Heimilið er sá faðmur og því varðar sú bæn Drottinn blessi heimilið, eilífa lífið.

Helga Jónsdóttir var fædd í Reykjavík, 2. ágúst 1930, yngst í hópi sjö systkina. Foreldrar hennar voru þau Jón Sigurðsson, frá Fagurhóli á Vatnsleysuströnd, og Guðrún Halldóra Sigurðardóttir, frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Heimili þeirra að Vitastíg 12 var fjölmennt og móðir Helgu sinnti börnum sínum af alúð á meðan faðir hennar var langdvölum að heiman í millilandasiglingum, en Jón var stýrimaður og skipstjóri á skipum Eimskipafélags Íslands, síðast á Gullfossi. Helga gekk í Austurbæjarskóla og var einn vetur í Ingimarsskóla en þaðan lá leiðin í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún átti góðar minningar af námsdvöl sinni þar og hélt sambandi við skólasystur sínar út lífið. Heimili hennar bar þess merki að hún var húsmæðraskólagengin og handskrifaða uppskriftabókin, sem var grundvölluð á námsárunum, er enn í notkun af dætrum hennar.

Þegar Helga var á átjánda ári lést móðir hennar af veikindum og það áfall reyndist henni sárt. Faðir hennar bar gæfu til að kvænast á ný og Helga kallaði seinni konu hans, Dýrfinnu Tómasdóttur, stjúpu sína þó hún hafi verið orðin fulltíða þegar Finna kom inn á heimilið. Systkinin fyldust vel með hvort öðru og Helga ræktaði sambandið við systkini sín, Mörtu Richard og Sigurveigu af alúð. Dætur hennar muna það vel að vera dregnar gangandi inn í Kópavog á fund móðursystra sinna og þá voru lappirnar ekki nánda nærri nógu langar til að fylgja gönguhraða móður sinnar eftir.

Manni sínum, Þór Elíssyni, kynntist hún í gegnum sameiginlega vináttu, en vinkona Helgu var að slá sér upp með vini Þórs. Annars var nú ekki langt á milli þeirra en Þór gat séð inn um gluggana á heimili Helgu frá heimili sínu á Rauðarárstíg. Þau felldu hugi saman og voru gift heima hjá Jóni Thorarensyni, Neskirkjupresti, þann 7. nóvember 1953. Þór starfaði við siglingar alla tíð og var líkt og tengdafaðir sinn skipstjóri á millilandaskipum, m.a. Brúarfossi og Gullfossi. Þau hjón hófu búskap í risinu á Langholtsvegi en þar bjó móðir Þórs og móðurafi og nutu þau stuðnings af þeim fyrstu árin sín í búskap.

Lengst áttu þau heima í fjölbýlishúsi að Háaleitisbraut 18, en þau voru frumbyggjar í blokkinni og voru þar alls í 39 ár. Blokkin var þeirra stuðningsnet og mikill samgangur var á milli íbúða á þessum árum. Konurnar sem unnu heima studdu hvor aðra í barnauppeldinu, dætur þeirra komu aldrei að tómu húsinu og þegar Þór var í siglingum var jafnvel skipst á að elda. Íbúðin var hennar prýði og Helga lagði mikinn metnað í að búa dætrum sínum og eiginmanni fallegt og hlýtt heimili. Gardínurnar voru stilltar af, kögrinu á teppunum greitt og hvergi sást skítur í hornum. Sama metnað lagði hún í matargerð og jólakökurnar voru ekki bara ljúffengar, heldur fallegar líka eins og dæturnar fengu að heyra þegar þær sjálfar spreyttu sig á bakstri. Fyrst og fremst var heimili þeirra miðstöð, þar sem rými var fyrir fólk og öllum var mætt af metnaði og hlýju.

Fjölskyldan naut góðs af starfi Þórs, en þau hjón fóru í margar reisur saman á skipum Eimskipafélagsins. Á heimilinu var oft á borðum vörur, sem ekki sáust öllu jafna á Íslandi, epli, Cheerios og Mackintosh. Þá var farið á hverju ári í ferðalög innanlands, með berbotna tjald og fjölskyldan á margar dýrmætar minningar af íslenskum sumrum. Ein eftirminnileg tjaldferð var í Galtalæk þegar fjölskyldan barðist við að halda tjaldinu yfir þeim, svo hvasst var í skóginum.

Þór og Helga eiga þrjár dætur og af þeim er orðinn myndarlegur, og nokkuð hávaxinn, ættbogi. Elst er Elín Jóna, fædd 1954. Eiginmaður hennar er Magnús Guðmundsson, synir þeirra eru: Guðmundur Þór en sambýliskona hans er Jófríður Halldórsdóttir og þau eiga þau Björgu og Magnús; næstur er Helgi Már, sambýliskona hans er Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og þau eiga drengina Ara Má og Einar Atla; yngstur er Finnur Atli. Næst er Guðrún Halldóra, fædd 1958. Sambýlismaður hennar Eðvald Albert Eðvaldsson, dætur þeirra eru: Helga Björg, sonur hennar er Birkir Armin; Eyrún, sambýlismaður hennar er Hermann Þór Pálmason og Eva, sambýlismaður hennar er Mikael Nors-Ganer. Yngst er Rósa Björg, fædd 1966. Eiginmaður hennar er Arnar Gestsson, börn þeirra eru Andri Már, Þór og Snædís. Þau eru búsett í Kolding í Danmörku og biðja fyrir kveðju hér í dag.

Barnabörnin áttu skjól hjá afa og ömmu og þá leyfðist margt, sem þær systur hefðu ekki mátt. Barnabörnin máttu skoppa um í húsgögnunum, horfa á upptökur af Tomma og Jenna, heilsubælinu og Mr. Bean og alltaf var til blár Ópal og allar sortir af smákökum. Helga var mikill sælkeri og þegar henni var bent á að Pepsí Max og súkkulaði væru ekki hollustufæði, sagði hún stollt að úr einhverju yrði maður að drepast. Þetta andsvar var lýsandi fyrir þann harðskeytta húmor sem Helga hafði en hún hafði alltaf hnyttið andsvar á reiðum höndum.

Helga var ætíð vel til höfð, glæsileg í taujinu og með varalit, lét ekki sjá sig öðruvísi. Þá var hún alla tíð í góðu formi, stundaði líkamsrækt um áratugaskeið í hópi Ástbjargar Gunnarsdóttur. Hún leit ekki stórt á sig, þó það þætti fínt í einhverjum hópum að vera skipstjórafrú, heldur var hún jarðbundin og umburðarlynd í fasi, eins og heimsborgara sæmir. Hún starfaði lengi með kvenfélaginu Hrönn, en í þeim hópi voru margar eiginkonur skipstjórnarmanna á kaupskipum og þær sendu sjómönnum sem voru fjarri heimahöfn jólagjafir og studdu sjómenn með ýmsu móti. Þegar barnabörnin fóru að stálpast fengu þau eldri að fara í siglingu með afa sínum og var þá Helga að sjálfsögðu með í för. Sú ferð var þeim ógleymanleg, endalausir ranghalar um borð og eftirminnilegar heimsóknir á sædýrasafn og dýragarð á áfangastöðum.

Eftir að dætur hennar komust á legg vann Helga úti, fyrst í lakkrísgerðinni Krumma og síðustu ár sín á vinnumarkaði sem matráðskona á leikskólanum Álftaborg. Fyrir sjö árum veiktist Helga og heilsuleysi setti svip á líf hennar síðustu árin. Hún hélt þó ætíð reisn sinni og glæsileika og húmorinn var síðastur til að fara. Fyrir skemmstu voru dótturdætur hennar í heimsókn á sjúkrahúsinu, þegar hún kvartaði sáran yfir súrefnisgjöfum – hún ætti svo erfitt með að halda sér í rúminu og svifi upp í loft. Þá var hún spurð skömmu fyrir andlát hvort ekki ætti að snúa henni til að geta séð dóttur sína og eiginmann, en þá svaraði hún til ,,Nei – ég er búin að sjá þau nógu oft.” Hennar hinsta ósk var að dætur hennar myndu biðja fyrir henni, og við erum hér samankomin til að taka undir með þeim systrum í bæn í minningu móður sinnar.
Helga Jónsdóttir lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, 2. apríl síðastliðinn.

Heimilisfang Helgu er flutt og hún mun nú búa á þeim stað sem bíður okkar allra handan þessa lífs, en fjársjóð hennar er ykkar að njóta kæru ástvinir hennar. Hann er að finna í þeirri ást sem hún sýndi, þeirri alúð sem hún bjó ykkur og þeim sótsvarta húmor sem hún arfleiddi ykkur að. Drottinn blessi heimili hennar, og ykkar allra. Amen.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-04-15/helga-jonsdottir-f-2-8-1930-d-2-4-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli