sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. mars 2014 · Heim · Prédikun flutt í Laugarneskirkju 6. apríl 2014 »

María Sigríður Júlíusdóttir f. 31.5.1927 – d. 21.3.2014

Sigurvin @ 16.55 3/4/14

Screen shot 2014-04-03 at 17.03.30Á komandi sunnudag eru haldnar um hinn kristna heim Maríumessur en sá dagur, boðunardagur Maríu, fagnar þeim ávexti sem María guðsmóðir bar inn í þennan heim. Tímasetningin er viðeigandi þegar við kveðjum Maríu Sigríði Júlíusdóttur og fögnum þeim ávöxtum sem líf hennar borið, í afkomendum, Maríum og minningum.

Jesús lagði grundvöllinn að nýjum sið, sem orðið hefur að fjölmennustu trúarhreyfingu mannkynssögunnar og mótað hefur menningu okkar frá landnámi. Lögmál kristindómsins eru einföld og byggja á því fordæmi, sem Jesús sýndi með boðun sinni og breytni. Hinu forna fórnaraltari, var breytt í eldhúsborð sem til þessa dags prýðir miðju hverrar kirkju, og við það eldhúsborð eru allir velkomnir, rónar jafnt sem ráðherrar. Máltíðin er látlaus, brauð og vín, en boðskapurinn sterkur. Hann er að mæta fólki af kærleika, þjónusta það og veita skjól og fara ekki manngreinarálit þar sem öll erum við jöfn frammi fyrir skapara okkar.

Með það í huga verður ljóst að Mæsa var sannkristin kona. Hún hafði sjálf þurft að leita skjóls í lífinu og því stóð heimili hennar opið, stundum á kostnað Þórðar sem þurfti að gefa eftir húsbóndaherbergið til að hýsa umkomulausa. Við eldhúsborðið mátti þiggja látlausar veitingar, kaffi og meðlæti. Þangað voru allir velkomnir að skrafa og reykja og þar var ekki farið í manngreinarálit, María sá engan mun á róna og ráðherra. Þá sá hún lengra en nef sitt náði, var bænakona sem hafði innsýn í leynda dóma, djúpvitur hvunndagsheimspekingur og hafði hlátursmildi þess, sem reynt hafði að gleðjast í erfiðum aðstæðum.

María Sigríður var dóttir Júlíusar Sigurðar Hafliðasonar, sjómanns frá Akureyri, og Sigríðar Ingiríðar Stefánsdóttur en hún var úr Skagafirði. María var fimmta í röð sjö systkina, fædd 31. maí 1927 á Akureyri þar sem fjölskyldan var búsett. Þau hjón skildu og var systkinahópnum tvístrað í kjölfarið, en María dvaldi lengst af í Málmey í Skagafirði þar sem hún fór í fóstur. Þessi reynsla reyndist henni erfið og þar reyndi hún mikilvægi þess að eiga augu sem sjá út fyrir þennan heim. Í sálarstríði ákvað hún að stökkva í sjóinn, en var bjargað af álfkonu í bjarginu sem varð henni dýrmætur vinur og henni þakkaði María lífsbjörgina alla tíð.

Hún fluttist ung til Reykjavíkur og 17 ára eignast hún elsta son sinn Sævar með írskum flughermanni, John Morton, sem kom hingað í stríðinu. Aðstæður leyfðu ekki að hún gæti sinnt Sævari sem skildi og hann var því ættleiddur af hjónunum Sæmundi Marteini Bjarnasyni skólastjóra og Guðrúnu Jónsdóttur kennara í Hrísey, þar sem hann ólst upp við gott atlæti. Þessi tengsl voru alla tíð rædd opinskátt og María heimsótti son sinn þegar færi gafst og fylgdist vel með uppvexti hans.

Í Reykjavík fann María skjól í Laugardalnum hjá hjónunum á Múlafelli, en sá bær stóð í dalnum þar sem nú er Skautahöll Reykjavíkur. Húsfreyjan á bænum, Helga Grímsdóttir, var þannig gerð að hún tók öllum vel og María bjó hjá þeim um skeið. Dísa, Þórdís Grímheiður Magnúsdóttir, rifjar upp að María hafi verið eins og ein af systrunum á bænum og að þær hafi nánast gert allt saman sem ungar konur. Þær hittu kærastana sína sama dag, trúlofust sama dag, urðu óléttar sama dag og giftu sig sama dag, án þess þó að hafa samráð um það. Eftir vistina hélt hún sambandi við fjölskylduna á bænum, sótti þangað í mat á sunnudögum og naut skjóls og stuðnings þegar þess þurfti með.

Manni sínum, Þórði Einarssyni, giftist hún 16. mars 1949 en Þórður var að vestan, fæddur á Selskeri á Barðarströnd. Þau hófu búskap í Reykjavík, að Þingholtsstræti 23, í húsi sem frændi Maríu átti. Börn þeirra hjóna eru þrjú, Hugrún Guðríður er fædd 1948, Ásgeir Ebeneser, 1950 og yngstur er Júlíus fæddur 1960. Eitt sinn er Þórður kom í land, hafði hún fjárfest og flutt í bragga á Skólavörðuholti og Þórður neyddist til að leita uppi fjölskyldu sína. María var ein fárra braggabúa, sem átti afsal að sínum bragga og sú elja kom sér vel þegar holtið var rýmt, því þá átti fjölskyldan fyrir útborgun að fasteign. Undan bárujárnsboganum fluttu þau í Barmahlíð, þar sem þau bjuggu í 5 ár, en lengst af bjuggu þau í Sigtúni 35, þangað sem þau fluttu í stórhríð á 17. júní 1960.

Heimilið að Sigtúni varð fjölskyldumiðstöð og eldhúsborðið var hjarta heimilisins, þar sem María gaf öllum kaffi sem áttu leið um. Þau hjón voru samrýmd og ástfangin en verkaskiptingin var skýr, Þórður sá um fjármálin og María um að allir fengu nóg að borða og föt til skiptanna. Þegar ástvinir eru beðnir um að lýsa heimilishaldinu, er fljótt minnst á það hversu stríðnir álfarnir voru við hana … eða réttara sagt iðnir við að fá að láni það sem hún hafði týnt. Þórður kvað um konu sína í stríðni:
Ein var kona á norðurslóð
huganum átti bágt að beita
eigum sínum týndi og tróð
alla ævina var hún að leita.
Í dag hefði hún verið greind með athyglisbrest, en slíkum bresti fylgir oft mikil sköpunargáfa og geta til að einbeita sér að því sem hjartað brennur við.

Þannig var henni tónlist og María fylgdi draumi sínum um að læra á orgel hjá Tónskóla Sigursveins og spilaði heima á fótstigið harmonium, sem Þórður hafði fengið greitt út af útgerðinni. Börnin lærðu fljótt að þegar María spilaði út á orgelið þýddi ekkert að reyna að ná athygli hennar fyrr en hún hafði lokið sér af. Þá skrifaði hún allar hugrenningar sínar og hugðarefni í dagbækur sem hún hélt um áratugaskeið. Þá orti hún ljóð, sem vert er að safna saman í framtíðinni, en af íslenskri alþýðuhógværð voru þau einungis gefin út í tækifæriskortum til vina og ættingja. Þá voru bækur henni hugleiknar og hún var óþreytandi við að lesa sögur sér til ánægju, Júlíus færði henni vikulega bækur af bókasafninu, reifara, glæpasögur og ástarsögur og fullur pokinn entast sjaldnast vikuna.

Aðaláhugamál Maríu var fólkið hennar og hún var óþreytandi að fylgjast með og styðja þau sem henni voru kær. Af systkinum sínum var hún nánust Ollu, Þórunni Ólafíu, en þær systur töluðu saman daglega og oft á dag. Þegar Olla, sem er búsett á Akureyri, kom í heimsókn var Þórði úthýst og þær systur kúrðu saman og skröfuðu fram á nótt.

Afkomendur Maríu eru orðnir 27 talsins og sá ættbogi var stollt hennar og prýði. Systkinin hafa öll þau reynslu að hafa í erfiðleikum hallað sér að móður sinni og hún reyndist þeim sá klettur í hafinu, sem hún sárlega þurfti sjálf sem ung kona. Sævar er kvæntur Elínu Björgu Jóhannsdóttur. Þau eiga elstann Sæmund, hann á dæturnar Báru, Brynju og Björk; þá Guðrúnu Ösp, en hún á Önnu Maríu, Elvar Jóhann og Bjarka Rúnar; og yngst er María Sif, en hún á Viktor Ara, Elínu Ásu og Hjört Elí. Hugrún Guðríður á þau Maríu Þórunni, en hún á soninn Ævar Örn, og Ævar, en hann á soninn Hilmi Dan. Ásgeir Ebeneser á elsta Maríu Dís, en hún á soninn Mána; þá Álfhildi, en hún á þau Elmar Þór, Emil Þór og Telmu; og yngstan Óla Þór. Júlíus er barnlaus en unnusta hans er Ása Gígja.

Daginn fyrir gamlársdag 2006 fékk María heilablóðfall, sem settu svip sinn á ævikvöld hennar. Eftir eins árs endurhæfingu hafði hún náð til baka mikilli færni og fullum áttum og í kjölfarið flutti hún að Sóltúni sem var hennar heimili síðustu árin. Ættingjar vilja þakka þá alúð sem henni var þar sýnd. María Sigríður Júlíusdóttir lést á Sóltúni, þann 21. mars síðastliðinn.

Á kveðjustundu söfnumst við frammi fyrir því eldhúsborði sem stendur í þessum helgidómi og varðveitum góðar minningar af ættmóður ykkar og ástvini. Altari Guðs er eldhúsborð, ekki aðeins vegna þess að þar deilum við máltíð í guðsþjónustu kirkjunnar, heldur einnig vegna þess að þar sitjum við öll við sama borð. Í Davíðssálmi 23 segir: ,,Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum.” Með því að sitja við sama borð í helgidómi Guðs og horfast í augu sem jafningjar, fáum við tækifæri til að leggja ósætti til hliðar og gleðjast yfir því að vera samferðafólk í þessu lífi og deila kjörum hvert með öðru.

Það ákall sálmaskáldsins er í anda Maríu, þar sem eldhúsborð hennar stóð öllum opið. Þangað mátti, líkt og í helgidómi kirkjunnar, leita skjóls, sátta og stuðnings, og ef vel bar undir þiggja kaffi og sígarettu.

Guð blessi ykkur kæru ástvinir Maríu og megi hann helga minningar ykkar um hana.

url: http://sigurvin.annall.is/2014-04-03/maria-sigridur-juliusdottir-f-31-5-1927-d-21-3-2014/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli