sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Útvarpsprédikun flutt í Seltjarnarneskirkju 17. maí 2009 · Heim · Skýrsla BaUN 2008-2009 »

Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 14. mars 2009

Sigurvin @ 21.48 27/5/09

Erindi þetta er sett fram sem hluti af rannsókn ég er að vinna undir handleiðslu Jóns Ma. Ásgeirssonar og ber yfirskriftina ,,Mynd karlmennsku: Persóna Jakobs í frumkristnum heimildum”. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvernig persóna Jakobs birtist innan Nýja testamentisins og í kristnum ritum fyrstu alda í ljósi hugmynda um karlmennsku og leiðtogahlutverk í hinum grísk-rómverska meningarheimi. Í þessu erindi verður fjallað um stöðu Jakobs í þeim flokki gyðing-kristinna rita sem nefnast Skugga-Klemensarritin.

Rannsakendur á frumkristnum hefðum glíma við fjölbreyttar spurningar er lúta að trúarlegum textum, samfélagi og þróun kristins átrúnaðar. Séu dregnar fram tvær lykilspurningar sem rannsakendur standa frammi fyrir má annarsvegar spyrja hvers vegna til eru jafn fjölbreyttar og ólíkar hefðir frá 1. og 2. öld okkar tímatals sem vísa til Jesú frá Nasaret og hinsvegar hvað varð til þess að hinn ungi rétttrúnaður sem varð að ritsafni Nýja testamentisins náði að leggja undir sig hugmyndaheim rómverska heimsveldisins á rúmlega tveimur öldum.

I.
Handritafundir á nítjándu og tuttugustu öld hafa gjörbreytt þeirri mynd sem fræðimenn gera sér af upphafi kristins átrúnaðar og sú mynd sem kirkjan hefur haldið á lofti frá dögum kirkjufeðranna, að til hafi verið einn hreinn kristinn átrúnaður sem á rætur að rekja til hinna tólf útvöldu postula og kirkjan hafi staðið vörð um gegn ýmiskonar villutrúarhugmyndum til okkar daga, stenst ekki nánari skoðun. Þvert á móti eru kristnar hugmyndir á fyrstu og annari öldinni fjölbreyttar og margræðar og svarið við spurningunni hvernig beri að skilja og túlka persónu og boðskap meistarans frá Galíleu mjög ólíkar.

Samband hins nýja átrúnaðar við hugmyndir gyðingdóms eru í forgrunni í þeirri umræðu sem átti sér stað í frumkristnum samfélögum og er það jafn miklum vandkvæðum bundið að skilgreina gyðingdóm fyrstu aldar sem samstæðan átrúnað og það er vandasamt að skilgreina kristindóm. Innan gyðingdóms á öldunum við mörk okkar tímatals má greina fjölbreyttar hugmyndir og tekist var á um hvernig beri að skilja hugmyndir gyðinga um lögmál Móse (Tóruna), útvalningu þjóðarinnar og trúarsiði í ljósi sambandsins við hina ríkjandi grísk-rómversku menningu. Sú deigla verður til þess að á annari öldinni brjótast fram rétttrúnaðarhugmyndir bæði innan gyðingdóms og kristni og rabbínskur gyðingdómur, sú hefð gyðingdóms sem varð ofan á, er að slíta barnsskónum á sama tíma og hin postullega kirkja.

Í frumkristnum ritum má sjá hvernig höfundar sækja í brunn hinna margvíslegu hefða gyðingdóms sem eru í mótun á helleníska tímanum, því tímaskeiði sem hófst við innreið grískrar menningar með hersigrum Alexanders mikla á fjórðu öldinni f.Kr. Þannig er Septuaginta, hin gríska þýðing hebresku biblíunnar, notuð til túlkunar á persónu og boðskap Jesú, auk spekirita, heimsslitabókmennta og gnóstískra hefða sem eru áberandi í gyðinglegum ritum þessa tímaskeiðs. Með hvaða hætti beri að líta á samband gyðingdóms og kristni er eitt af viðfangsefnum höfunda kristindómsins og fræðimenn hafa tekist á um hvort höfundar rita á borð við bækur Nýja testamentisins hafi litið á verk sín sem stofnrit nýrra trúarbragða eða litið á sig sem þátttakendur í fjölbreyttri trúarumræðu gyðingdóms. Á annari öldinni koma fram annarsvegar hópar á borð við fylgjendur Markíons frá Sínópe (85-160) sem hafna algjörlega tengslunum við trúarhefðir gyðingdóms, en fylgjendur hans héldu í heiðri 10 pálsbréf auk útgáfu af Lúkasarguðspjalli, og hinsvegar gyðing-kristnir hópar á borð við Ebjóníta og Nasórea sem áréttuðu tengslin við gyðingdóm með sterkari hætti en hinn ungi rétttrúnaður, boðuðu umskurn og héldu fastar í hefðir og lögmálshlýðni gyðingdóms. Kirkjan fetaði meðalveg þessara póla og áréttaði loks stöðu gyðingdóms með því að Septuaginta varð hluti af Biblíu kristinna manna.

Í gyðing-kristnum hefðum var Jakob bróðir Jesú áberandi persóna og nafn hans var mun þekktara á fyrstu öldum kristni heldur en varð eftir að áherslan á Pétur og Pál postula höfðu fest sig fastar í sessi. Af Pálsbréfunum og Postulasögunni vitum við að Jakob var leiðtogi safnaðarins í Jerúsalem og af þeim ritum má ráða mikilvægi þess safnaðar í frumkirkjunni. Jakob er nefndur í bréfi Páls til Galatíumanna og segir Páll hann vera einn þriggja máttarstólpanna í Jerúsalem, auk Kefasar (Pétri) og Jóhannesi. Í Galatabréfinu er greint frá deilum Páls við áherslur kristinna gyðinga um umskurn og ákvæði lögmálsins og fjallar Páll um deilur sínar við söfnuðinn í Jerúsalem í samhengi þess, en hann samanstóð aðallega af gyðingum. Þá er höfundur Jakobsbréfs tilgreindur ,,Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists” og þó að í Nýja testmentinu sé að finna vísanir í allnokkra sem báru það nafn er aðeins einn Jakob, sem var nægilega þekktur til að kalla ekki á nánari skilgreiningu, Jakob bróðir Jesú. Jakobsbréf varðveitir líklega einu varðveittu heimildina um áherslur safnaðarins í Jerúsalem og ber sterkust tengsl af ritum Nýja testamentisins við ummælahefð Jesú, utan guðspjallanna, auk þess að sækja í spekihefðir gyðingdóms.

Jósefus sagnritari (37-101), samtímahöfundur rita Nýja testamentisins nefnir Jakob á nafn, segir hann hafa verið bróður Jesú, leiðtoga safnaðarins í Jerúsalem og tiltekur dauðdaga hans en hann er sagður hafa verið grýttur af æðsta prestinum Ananíasi hinum yngri árið 62 (Antiquitates Judaicae, 20.200). Önnur heimild sem sýnir mikilvægi Jakobs fyrir frumkirkjuna er Evsebíus frá Sesareu (263-339) en hann titlar Jabob ,,hinn réttvísa” (Historia ecclesiastica, 2.23) og útfærir mjög frásögnina af dauða hans og píslarvætti. Evsebíus útlistar í hverju réttlæti hans fólst og er það nokkuð forvitnileg lesning: ,,Hann var heilagur frá því í kviði móður sinnar; og hann drakk hvorki vín né sterka drykki, né borðaði kjöt. Ekkert rakblað snerti höfuð hans, hann smurði sig ekki olíu, og fór aldrei í bað”.

Í Nag Hammadi ritsafninu birtist Jakob víða sem persóna og þrjú Nag Hammadi ritanna bera nafn Jakobs, Fyrri og Síðari Opinberun Jakobs og Huldugeymdir Jakobs. Í Tómasarguðspjalli er vitnað til Jakobs hins réttvísa í ummælum §12 en þar segir ,,Lærisveinarnir sneru sér til Jesú: Vér gerum oss grein fyrir því að þú munt hverfa á brott frá oss. Hver mun þá hafa forystu fyrir oss? Jesús svaraði þeim: Hvar sem þér kunnið að verða niðurkomnir þá leitið Jakobs hins réttvísa. Himininn og jörðin eru til orðin hans vegna.” Umdeilt er hvort ummælin eru meint sem hæðni eða uphafning á Jakobi en ummælin sýna fram á mikilvægi hans sem persónu í frumkristni.

Í gyðing-kristnum bókmenntum verður ekki um villst upphafningin á persónu Jakobs og í Hebreaguðspjallinu svokallaða, gyðing-kristið rit upprunnið í Egyptalandi á fyrri hluta annarar aldar, er mikil áhersla á Jakob bróður Jesú. Í textabroti úr Hebreaguðspjalli sem að Híerónýmus (347-420) varðveitir segir frá því að Jesús hafi birst Jakobi eftir upprisu og brotið með honum brauð en slík hafi verið trú Jakobs að hann hafi fastað frá síðustu kvöldmáltíðinni og fyrst borðað þegar mannsonurinn hafi risið upp frá þeim er sofa. Í gyðing-kristnum ritum sem kennd eru við Klemens frá Róm er leiðtogahlutverk Jakobs þróaðra en í eldri heimildum og hann sagður leiðtogi postulanna tólf, Jerúsalem safnaðarins og kirkjunnar í heild sinni.

Skugga-Klemensarritin svokölluðu eru flokkur rita sem varðveittur er í tveimur heimildum, Prédikunum Skugga-Klemensar (Homilies) og Minningabrotum Skugga-Klemensar (Recognitions), en Klemens er sagður hafa verið fyrsti biskup Rómar undir lok fyrstu aldar (ca. 92-99) og var samkvæmt Tertúllíanusi (160-225) skipaður af Pétri sjálfum. Höfundar þessara tveggja rita þekkja ekki hvor til annars og eru hvort í sínu lagi talin byggja á eldri gyðing-kristnum verkum. Prédikanir Skugga-Klemensar eru varðveittar í tveimur grískum handritum og eru líklega ritaðar í Sýrlandi af aríusarsinnuðum höfundi um 320. Minningabrotin eru aðeins yngri, talin rituð um 350 í Sýrlandi eða Palestínu, en höfundur þeirra tilheyrði hinum hefðbundnari armi kirkjunnar og hann tók ekki upp úr hinum gyðing-kristnu heimildunum guðfræði og ritdeilur við Pál sem voru í andstöðu við hinn unga rétttrúnað. Minningabrotin eru aðeins varðveitt í latneskri þýðingu Rúfínusar (345-410) en bæði Minningabrotin og Prédikanirnar voru snemma þýddar á sýrlensku og hafa varðveist að hluta í sýrlenskri þýðingu.

Þær heimildir sem taldar eru liggja að baki Prédikunum og Minningarbrotum Skugga-Klemensar eru í fyrsta lagi rit sem nefnist Klemensarsaga hins rómverska og hefur hún verið endurgerð á sambærilegan hátt og Ræðuheimildin svokallaða, sem guðspjöll Matteusar og Lúkasar varðveita í sitthvoru lagi. Klemensarsaga hins rómverska er merkileg m.a. fyrir þær sakir að hún er dæmi um kristin texta sem svipar mjög að uppbyggingu og söguþræði til hinnar hellenísku rómönsu sem kemur fram á fyrstu öldinni fyrir Krist og naut mikilla vinsælda á fyrstu öldum okkar tímatals.

Auk Klemensarsögu varðveita Prédikanir og Minningabrot Skugga-Klemensar rit er kallast Perlurnar í boðun Péturs (Kerygmata Petrou). Perlurnar hafa ekki varðveist sem sjálfstætt rit, en þær eru taldar vera ein af heimildunum að baki Klemensarsögu og hafa líkt og hún verið endurgerðar. Fræðimenn hafa gert sér í hugarlund að uppruni þess sé í Sýrlandi einhverntíman á fyrri hluta 3. aldar. Við Perlurnar var bætt þremur bréfum, Bréfi Péturs til Jakobs, svari Jakobs Áskorun vitnisburðarins (Contestatio) og Bréfi Klemensar til Jakobs en það byggir á fyrstnefnda bréfinu. Bréfin eru annaðhvort rituð á þriðju öldinni af höfundi Klemensarsögu eða af höfundi Prédikana Skugga-Klemensar, en efni þeirra endurspeglar að nokkru marki stef úr verkum ebjóníta.

Loks er frásögn í upphafi Minningabrota Skugga-Klemensar (I.33-44.2; 53.4-71) sem talið er að varðveiti aðra gyðing-kristna heimild en titill þess Vegsemdir Jakobs II (Anabathmoi Iakobou II) dregur nafn sitt af samhljómi við rit sem varðveitt er að hluta í verki Epífaníusar (Panarion (Adversus haereses) 30.16.6-9) en samband þeirra er nokkuð á reiki. Vegsemdir Jakobs II eru mögulega elsta heimildin að baki Skugga-Klemensarritunum og uppruni þess er líklega á seinni hluta annarar aldar. Fræðimenn hafa tengt hefðir Vegsemda Jakobs við arftaka safnaðarins í Jerúsalem en Evsebíus varðveitir heimildir um að Jerúsalemsöfnuðurinn hafi flúið til Pella í Makedóníu skömmu eftir andlát Jakobs vegna stigvaxandi ófriðar á milli Rómverja og gyðinglegra yfirvalda í borginni (Historia ecclesiastica III 5.3).
Áður en vikið verður að því hvernig persóna Jakobs birtist í ritum Skugga-Klemensar er rétt að fjalla um hugmyndir um karlmennsku í rómverska heimsveldinu á ritunartíma þeirra, á annarri til fjórðu öld.

II.
Í upphafi þessa erindis vék ég að tveimur lykilspurningum en sú síðari snýr að því hvað varð til þess að hin ungu trúarbrögð urðu átrúnaður keisara Rómarveldis frá valdatíð Konstantínusar I (272-337, keisari frá 306), með einni undantekningu (eftirmaður hans Flavíus Kládíus Júlían (keisari 331-363, keisari frá 355) hélt fast við rómverskan átrúnað og fékk fyrir vikið fékk viðurnefnið Júlían trúníðingur). Spurningin hvernig að átrúnaður sem ekki var til við upphaf okkar tímatals varð að átrúnaði meirihluta íbúa í Rómarveldi frá miðri fjórðu öld er eins og Gregory J. Riley orðar það mun áhugaverðari spurning en umfjöllun um ,,réttlætingu í bréfum Páls”, dæmi um mjög hefðbundið viðfangsefni ritskýringar. Svar Riley við þeirri spurningu er sú að í ritum Nýja testamentisins má finna samhljóm við hugmyndaheim grísk-rómverskrar menningar sem ekki er til staðar í átrúnaði austrænna þjóða, á borð við gyðingdóm, eða dýrkun á hinum egypska Ísis og persneska Míþras sem naut nokkurra vinsælda. Þó að kristin rit frá fyrstu og annari öld vísi til hugmyndaheims gyðingdóms eru þau hellenísk rit, flest rituð á grísku og enduróma grísk-rómverskar hugmyndir og hugsjónir.

Þær hugmyndir gyðingdóms sem að kristnir höfundar fyrstu og annarrar aldar voru í samræðu við tilheyrðu hellenískum gyðingdómi en á ritunartíma Nýja testamentisins höfðu liðið 360 ár frá því Palestína féll fyrst undir grísk yfirráð og grísk menningaráhrif voru fyrir löngu orðin óaðskiljanlegur hluti af lífi og menningu Gyðinga. Hellenismi sem fyrirbæri verður til við hersigra Alexanders mikla (334-323 f. Kr.) en hugtakið lýsir því flókna samspili (syncretism) austrænnar og grískrar menningar sem myndaðist í hinu nýja heimsveldi og nær hugtakið yfir pólitíska, félagslega, hagræna og trúarlega þætti þess. Áhrifamesta arfleifð helleníska tímans er menntakerfið en Alexander kom á fót í borgum sínum þrískiptu menntakerfi sem hélst nær óbreytt fram á miðaldir og innsiglaði áhrif grískrar menningar um langan aldur. Með grískri menntun varð hellenismi æ sterkari í menningu Gyðinga en hellenískar hugmyndir breyttu mjög mannskilningi hinna austrænu þjóða. Að vera helleni hafði meira með gríska menntun og tungu að gera en eiginlegan þjóðernisuppruna og í stað þess að aðgreina menn í Grikki og barbara voru þeir metnir eftir manndómi (arete) og brestum (kakia). Lykillinn að hinni nýju mannsmynd helleníska tímans varð því menntunin, paidea. Fyrir innreið hellenisma höfðu hinar austrænu þjóðir engar upprunahugmyndir sambærilegar hinum grísku en ætterni og átthagar skilgreindu manninn í austrænni hugsun. Í kjölfar babýlónsku herleiðingarinnar var það að vera Gyðingur fyrst og fremst spurning um ætterni og í dreifingunni varð nauðsynlegt að tryggja að Gyðingar giftust einungis innbyrðis. Það breyttist á helleníska tímanum og mörkin urðu óljósari, líkt og Gyðingar gátu orðið hellenar gátu aðrir gerst Gyðingar og skýrasta heimildin um trúboð Gyðinga eru verk Fílons frá Alexandríu (20 f. Kr.–50 e. Kr.) en hann fjallar ítarlega um trúarlega, siðferðislega og félagslega aðlögun trúskiptinga að gyðinglegri menningu.

Eftir sigur Rómverja á Makedóníu og grikklandi 168 f.Kr. urðu grísk/hellenísk áhrif áberandi í rómverskri hugmyndafræði og á fyrstu öldinni f. Kr. voru nær allir rómverskir menntamenn orðnir grískumælandi. Rómarveldi fór að aðlaga hugsjónir sínar að fordæmi hellenisma, og hellenismi hafði áhrif á trúarbrögð, menningu og menntun Rómverja. Á fyrstu öldinni f. Kr. hafði helleníska menntakerfið náð útbreiðslu í Róm og líkt og í hinum helleníska heimi voru Kviður Hómers kenndar á öllum stigum menntunar og textar úr verkum hans gegnsýrðu lestarbækur og kennslubækur í ræðulist, samanber progymnasmata. Við upphaf keisaraveldisins ritaði hirðskáld Oktavísuar Virgill nýja epík fyrir Rómarveldi er byggði á Kviðum Hómers. Eneasarkviða túlkar frásagnir Odysseifskviðu og Ilíonskviðu og samþættar fornum rómverskum sögnum af hetjunni Eneasi, er kemst undan til Ítalíu við fall Trójuborgar og stofnar á grundvelli þess Róm. Undirliggjandi í kviðu Virgils voru stjórnmálaleg markmið en skáldið kallar Rómarveldi ævarandi ríki og í gegnum persónu Eneasar gat Oktavíus keisari rakið ættir sínar til guðanna en Eneas var sonur gyðjunnar Venus.

Innreið hellenisma og endalok lýðveldisskeiðs Rómarveldis höfðu gríðarleg áhrif á stöðu rómverskra karlmanna og bók Mathew Kuefler The Manly Eunuch gerir tilraun til að skýra aðdráttarafl kristinna hugmynda fyrir rómverska karlmenn á þeim grundvelli að kristnar hugmyndir hafi mætt þeim með hugmyndafræði sem gat svarað breyttri stöðu þeirra. Á lýðveldistímanum byggðu karlmennskuhugmyndir rómverskra hefðarmanna á þeirri trú að karlmennska byggðist á dyggðum á borð við sjálfstjórn, visku, réttlæti og hugrekki sem að konur og karlkyns þrælar höfðu ekki til að bera. Konur voru álitnar andstæður karlmanna, jafnt líffræðilega sem og í siðferði sínu, taldar skorta sjálfstjórn og vera kjánalegar, hvatvísar og veiklunda. Vettvangur karla á sviði hermennsku, stjórnmála og á sviði einkalífsins staðfesti kalmennsku þeirra og svo nátengdar eru hugmyndir um dyggðir og karlmennsku að dyggðahugtak rómverja virtus er dregið af orðinu yfir karlmann eða vir.

Á keisaraskeiði Rómarveldis var hefðbundum hugmyndum um karlmennsku ógnað af þjóðfélagslegum breytingum og karlar af hefðarættum áttu æ erfiðara með að árétta karlmennsku sína. Eftir hina miklu hersigra Rómarveldis á fyrstu öldum fyrir okkar tímatal tók við skeið sem einkenndist af innanríkisdeilum, uppreisnum hernuminna þjóða og árásum erlendra hervelda á heimsveldið, en hernaðarkrísa Rómarveldis náði hápunkti á þriðju öldinni. Upphafning á lífi hermannsins, vita millitaris, einn af hornsteinum kalmennskuhugsjóna átti því mjög undir högg að sækja og uppgangur Míþrasardýrkunar, launhelgar þar sem karlmenn upphöfðu hinn pesrnenska guð hernaðar, bera vott um viðbrögð við þeirri krísu.

Þátttaka í stjórnmálum hafði á lýðveldistímanum verið leið fyrir aðalsborna Rómverja að árétta karlmennsku sína með þátttöku á þinginu, Senatus Romanus. Á keisaratímanum færðist valdið frá þinginu yfir á Keisarann, hinar gömlu valdafjölskyldur misstu áhrifastöðu sína og þó að þingið hafi ekki verið lagt niður varð hlutverk þess táknrænt. Breytingar á stöðu karlmanna á hinum opinbera vettvangi hafði óhjákvæmilega áhrif á stöðu þeirra í einkalífinu og Kuefler bendir á að lagaleg réttindi kvenna hafi aukist á keisaratímanum samhliða því að vald karlmanna Paterfamilias innan fjölskyldunnar hafi verið dregið í efa. Dæmi um slík réttindi eru að á annarri öld öðluðust konur rétt til að skilja við eiginmann sinn, í upphafi fjórðu aldar fengu konur að ráðstafa eigum sínum að vild og í upphafi fimmtu aldar voru samningar sem konur gerðu teknir gildir. Siðferðisleg viðmið um kynferðislega hegðun karlmanna breyttust einnig mjög á keisaratímanum og mörkin milli þess sem talið var Pudicita (kynferðislega skaplegt) og Impudicita (óviðeigandi) urðu líkari milli kynjanna. Afleiðing af því var meðal annars að pederastia (samneiti yngri drengja með eldri mönnum) var fordæmd sem og heimsóknir karla til vændiskvenna.

Kristnir höfundar mættu hinum klassísku hugmyndum Rómverja um karlmennsku með nálgun sem kollvarpaði skilningi þeirra á hvað sönn karlmennska merkir. Gegn hugmyndum Rómverja um dyggðir hermennsku stilltu kristnir höfundar á borð við Tertúllíanus, upp píslarvottum sem gáfu líf sitt í ofsóknum. Þeir unnu sigur sem hermenn Krists, miles Christi, með því að grípa ekki til vopna, heldur þáðu laun sín á himnum og leyfðu Guði að hefna þeirra. Sem hermenn háðu þeir stríð sem ekki var af þessum heimi heldur í þágu áætlunar Guðs í heiminum. Þeir sem ekki sættu eiginlegum ofsóknum gátu verið þátttakendur í þeirri baráttu með því að berjast gegn valdi hins illa í mannlífinu og við girndir hið innra. Fram að valdaskeiði Konstantínusar var því haldið á lofti að kristnir menn neituðu hermennsku og höfundar á borð Tertúllíanus, Hippólýtus og Ágústínus voru allir andvígir þátttöku kristinna manna í hernaði. Tertullíanus svarar gagnrýni þeirra sem ásökuðu hina kristnu um mannleysu á þann hátt að með því að neita hermennsku væru þeir í raun karmannlegri og betri hermenn en heiðnu samborgarar hans. Tertúllíanus sækir orðfæri sitt til hernaðarhugtaka og Míþrasardýrkunar og sem dæmi um mælskulist hans má nefna hugtakið sacramentum, sem hann velur til að lýsa skírninni, en það sækir hann í hernaðarlegt heiti yfir hollustueið hermanna sem gengu í rómverska herinn. Hin æðsta dyggð varð patientia, sem bókstaflega merkir að líða eða sýna undirgefni, en hana segir Tertúllíanus vera hápunkt dygðanna (summa virtus) og sú áhersla var í beinni andstöðu við hinar árasargjörnu dyggðar vita militaris.

Svipaður viðsnúningur á gildum á sér stað meðal biskupa kirkjunnar, sem margir voru af hinum gömlu rómversku valdafjölskyldum, en undirgefni þeirra við Guð gaf þeim stöðu til að andmæla jafnvel keisaranum sjálfum. Biskupar á 3. öldinni á borð við Kýpríanus frá Karþagó (d. 258) lýstu sjálfum sér sem brúði Krists til að undirstrika undirgefni sína við Guð og með því að lýsa sjálfum sér í kvennlegri stöðu gátu þeir út á við haft meiri áhrif en með hefðbundinni þátttöku í stjórnmálum. Kýpríanus hélt því fram að líkt og biskupinn hlýðir Guði sem brúður hans, ber öðrum að hlýða biskupnum og það að óhlýðnast biskupsvaldinu er það sama og að óhlýðnast Guði. Skýrasta dæmið um það vald sem biskupar gátu haft með tilvísun í samband sitt við guðdóminn er Ambrósíus (340-97), sem var biskup í Mílanó á 4. öld en hann hafði betur í átökum við tvo sitjandi Keisara, Valentínus II (371-392) og Þesódíus (347-395), þann er gerði kristni að ríkistrú í Róm. Líkt og eldri biskupar sótti Ambrósíus í viðsnúning á kynjahugmyndum til að árétta vald sitt og í verki sem ber heitið Um Ísak eða um sálina (De Isaac vel anima) eru kynferðisleg blæbrigði þegar hann talar um að sem brúður Krists væntir kirkjan, og hann, þess með löngun að Kristur kyssi sig á munninn. Með því að komast í valdastöðu innan kirkjunnar gátu aðalsbornir Rómverjar komist til áhrifa á keisaratímanum á hátt sem stóð þeim ekki til boða í gegnum rómverska þingið. Þverstæðan er hinsvegar sú að meðal biskupa þótti það dyggðugt að sækjast ekki eftir því valdi en hinar æðstu dyggðir sem biskupar kirkjunnar áttu að búa yfir, þóttu hógværð, auðmýkt og hreinlífi.

Kristnir höfundar rómarveldis höfðu litlu við hið nýja siðferði kynlífs og hjónabands Rómverja að bæta en staðhæfðu að með því að hafna kynlífi og hjónabandi urðu þeir fullkomnari karlmenn en þeir sem völdu fjölskyldulíf. Það að halda aftur af kynhvötinni leiddi til dyggðugra lífs og tóku þar með undir neikvæðar hugmyndir Rómverja um kynlíf á keisaratímanum. Staða karlmannsins yfir konunni fékk guðlega réttlætingu og jafnvel þeir sem í nafni trúarinnar höfnuðu hjónabandi glötuðu ekki guðlegum yfirráðum sínum yfir konum. Híerónýmus (347-420) heldur því fram í bréfi að kona sem skilið hefur við mann sinn þarf að gefa sig staðfastlega á vald kirkjunnar þjónum til að hið guðlega fyrirkomulag haldist, karlinn sé höfuð konunnar. Til að verja karlmennsku sína og frjósemi hafandi valið skírlífi, staðhæfir Híerónímus að sæði hans sé hundraðfalt á við þann sem lifir í hjónabandi þrátt fyrir að feðra engin börn sjálfur. Á tímum þar sem vald karlmannsins innan fjölskyldunnar átti undir högg að sækja, gátu biskupar haldið fram feðraveldi sínu í hinni ævarandi fjölskyldu kirkjunnar.

III.
Sé vikið aftur að persónu Jakobs í Skugga-Klemensarritunum er ljóst að hlutverk hans þar á meira skylt við átök um réttmæti kennivalds og yfirráð biskupa á 2. og 3. öld en hinn sögulega Jakob. Í þeirri heimild sem talin er vera elst, Vegsemdum Jakobs II, er sagt frá því að Jakob, nefndur leiðtogi biskupanna, sé að kenna í musterinu í Jerúsalem, þegar Páll (nefndur Sál) stofnar til óeirða til að trufla kennsluna. Óeirðirnar verða blóðugar og enda með því að Sál hrindir Jakobi niður stiga og telur hann látinn (R I 70). Frásögnin ber skyldleika við píslarvættishefðir um dauða Jakobs sem varðveittar eru annarsvegar hjá Jósefusi, sem sagði hann hafa verið grýttann af æðsta prestinum Ananíasi, og hinsvegar í Endurminningum Hegesipussar sem að Evsebíus varðveitir (Historia ecclesiastica) en þar er hann einnig grýttur til dauða. Í Vegsemdum Jakobs II lifir hann fallið af en frásögnin undirstrikar þrátt fyrir það hlutverk hans sem píslarvott trúarinnar. Með því að stilla Páli upp sem árasaraðila grefur höfundur Vegsemdanna undan kennivaldi hans og áréttar á sama tíma karlmennsku Jakobs, sem líður þjáningar fyrir sína sönnu og hreinu trú.

Áherslan á Jakob sem biskup endurspeglar átök um réttmæti kröfu biskupa til valds og Jakob er í Vegsemdunum sagður skipaður biskup yfir hinum fyrsta söfnuði í Jerúsalem af Jesú sjálfum (R I 43) og tilskipanir hans dásamaðar fyrir réttsýni. Honum er lýst sem biskupi biskupanna og sú nafnbót gefur til kynna að vald hans er ekki staðbundið heldur nær yfir kirkjuna í heild sinni og samkvæmt Prédikunum Skugga-Klemensar ber að skoða alla kennslu í ljósi þess er Jakob boðaði til að ganga úr skugga um réttmæti þeirra (H I 35). Líkt og í Vegsemdunum er biskupsvald Jakobs áréttað í bréfunum þremur Bréfi Péturs til Jakobs, svari Jakobs Áskorun vitnisburðarins (Contestatio) og Bréfi Klemensar til Jakobs, en þar eru jafnframt taldar upp þær dyggðir sem biskup þarf að búa yfir. Fyrst og fremst leyfist þeim er veitt er slíkt embætti ekki sækjast eftir því með metnaði, heldur þarf að sína fram á auðmýkt sína í öllu hátterni og vera uppfræddur í orðinu. Í bréfi Klemensar til Jakobs er hinn ímyndaði höfundur að segja frá því þegar Pétur útvelur hann til að gegna embætti biskups í Róm og líkt og viðeigandi er biðst Klemens undan því og sannar þar með auðmýkt sína (3.1-4). Klemens er sjálfur kominn af rómverskum aðalsættum og er því lýsandi dæmi um karlmann sem kemst í valdastöðu á hátt sem honum hefði ekki staðið til boða með hefðbundinni þátttöku í stjórnmálum.

Loks beita Skugga-Klemensarritin beinum vísunum í kynlíf og kynjahugmyndir til að upphefja persónur og boðskap ritanna. Í bréfi Klemensar til Jakobs er ungu fólki ráðlagt að ganga í hjónaband hið fyrsta til að hemja girndirnar, kirkjunni er stillt upp sem brúði Krists og þjónum hennar ber að varðveita skírlífi sitt þar til brúðguminn kemur til baka (7-8). Í skírlífi sínu öðlast biskuparnir eins og fyrr sagði stöðu sem fullkomnari karlmenn og lýstu karlmennsku sinni á grundvelli hinnar kvennlegu myndar af meyjarbrúði Krist. Þá stilla Perlurnar í boðun Péturs upp andstæðum hinnar sönnu boðunar, sem Pétur og Jakob eru fulltrúar fyrir, gegn falskenningu Páls, sem tvenndarpörum (syzygy), en röksemdarfærslan byggir á upphafningu karlmennsku sem dyggðar andstætt hinu kvennlega. Sannleiksgildi kenninganna er rakin sem röð para frá upphafi sköpunnar þar sem hið falska og þar með kvennlega varð til fyrst í formi Evu, og á eftir fylgdi hinn sanni og karlmannlegi Adam. Síðast í upptalingunni er Páli stillt upp í gervi Símoni Magusar, föður allrar trúvillu, sem fulltrúa hins veika, kvennlega og falska, andstætt Pétri (og þar með Jakobi) sem erindreka hins sanna og karlmannlega (H II 16-17, (KP). Þannig er í árásunum á Pál grafið undan karlmennsku hans á sama tíma og karlmennska Péturs og Jakobs er upphafin.
IV.

Séu efnistök Skugga-Klemensarritanna borin saman við hinn unga rétttrúnað verður ljóst að þau tilheyra hefð sem gerir kröfu til postullegs uppruna hjá Pétri á sama hátt og í samkeppni við þá hefð sem öðlaðist meirihlutastöðu innan kirkjunnar. Upphafningin á leiðtogahlutverki og karlmennsku Jakobs áréttar hina gyðinglegu arfleifð Jesú, í andstöðu við þá sem höfundur segir Pál hafa afbakað, og auk gyðing-kristinna stefja er að finna í ritunum efnistök sem bera skyldleika við gnóstíska hugsun, samanber umfjöllun Perlanna um tvenndarpör (syzygy). Þó að guðfræði Skugga-Klemensarritanna beri vitni um fjölbreytileika kristindómsins á fyrstu öldum þess er uphafning karlmennskunnar til að árétta stöðu biskupanna algjörlega í takt við hinn kristna hugmyndaheim. Líkt og kirkjufeður 2. – 4. aldar beita höfundar ritanna viðsnúningi á hugmyndum um hermennsku, þátttöku á sviði stjórnmála og á sviði einkalífsins til að árétta karlmennsku sína. Karlmennsku sem birtist í því að líða ofsóknir fyrir trú sína, með því að tala fyrir hönd Guðs á hinum opinbera vettvangi, sem kvonfang hans og með því að hafna fjölskyldu- og kynlífi. Mælskufræði karlmennskunnar skýrir að hluta þær vinsældir sem að kristnar hugmyndir nutu í rómverska heimsveldinu.

url: http://sigurvin.annall.is/2009-05-27/erindi-flutt-a-hugvisindathingi-haskola-islands-14-mars-2009/


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli