sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Sumar í Neskirkju ! · Heim · Ferð unglingastarfs Neskirkju á Evrópumót KFUM í Prag »

Trúlausi guðfræðingurinn og guðfræðideild Háskóla Íslands.

Sigurvin @ 11.23 10/7/08

Þann 16. Júní síðastliðinn birtist opnulöng grein í Fréttablaðinu eftir Teit Atlason er ber yfirskriftina ,,Trúlausi guðfræðingurinn”. Greinin sem er tekin af bloggsíðu höfundar lýsir trúleysisafstöðu hans og því hvernig að tveggja ára nám við guðfræðideild Háskóla Íslands hafi haft áhrif á þá trúarafstöðu. Í greininni gagnrýnir höfundur guðfræðideildina, sem hann segir gallaða stofnun, og tiltekur m.a. eftirfarandi rök fyrir því:

,,Í mínum huga eiga að vera skýr skil á milli hinnar trúarlegu innrætingar og hinnar fræðilegu kennslu. Það vantar einnig ýtarlegri (sic) biblíugagnrýni, kenningar um hinn sögulega Jesú, kynningu á trúarlegu umhverfi þegar Biblían er rituð, trú Egypta, kynningu á (sic) betri kynningu á gnóstískum ritum. Svo ekki sé talað um Júdarsarguðspjall sem er merkilegasti fornleifafundur síðustu árhundruða.”

Gagnrýni Teits á guðfræðideildina er af tvennum toga og snýr sú fyrri að tvíþættu hlutverki deildarinnar. Guðfræðideildin annast annarsvegar rannsóknir og kennslu á sviði trúarbragðafræði og guðfræði. Hinsvegar er próf úr guðfræðideild forsenda þess að öðlast vígslu í íslensku þjóðkirkjunni. Þurfa þeir sem vígjast til prests að hafa lokið svokölluðu embættisprófi sem er 5 ára nám eða 150 einingar. Er venja að þeir einir kalli sig guðfræðinga sem hafa lokið 5 ára námi líkt og tíðkast meðal annarra fræðinga á borð við verkfræðinga og lögfræðinga. Að uppfylltum skilyrðum um háskólapróf á sviði guðfræði annast þjóðkirkjan síðan þjálfun prestsefna. Fyrirkomulagið er sambærilegt öðrum starfsstéttum sem krefjast háskólamenntunar, lögmanna, endurskoðenda, lækna ofl. Nemendum í guðfræðideild Háskóla Íslands er ekki mismunað á grundvelli trúarafstöðu sinnar.

Síðari gagnrýni höfundar á guðfræðideildina snýr að kennslu á sviði biblíufræða og þá sérstaklega nýjatestmentisfræði sem undirrituð hafa valið að sérsviði. Prófessor í nýjatestamentisfræði er dr. Jón Ma. Ásgeirsson en hann er menntaður frá Claremont háskóla í BNA og er þekktur á alþjóðavísu sem fræðimaður á þessu fræðasviði. Við guðfræðideildina eru kennd fjölmörg námskeið á sviði nýjatestamentisfræða og til að ljúka embættisprófi í guðfræði þarf nemandi að hafa lokið 33 einingum á því sviði. Til að sækja framhaldsnámskeið í nýjatestamentisfræðum þurfa nemendur að hafa lokið grunnnámskeiðum í samtíðarsögu, inngangsfræði og guðfræði Nýja testamentisins auk 10 eininga í forn-grísku. Þekking á forn-grísku, frummáli textans, er forsenda allrar umræðu um ritskýringu og greiningu á Nýja testamentinu. Venja er að nemendur sæki framhaldsnámskeið í nýjatestamentisfræðum á þriðja til fimmta ári náms en ekki á BA stigi. Fjallað verður nú sérstaklega um þau sex atriði sem að Teitur nefnir í þessu samhengi.

Ítarleg biblíurýni á sér stað í framhaldsnámskeiðum sem kallast ritskýring en þar eru tekin fyrir einstaka rit Gamla- og Nýja testamentisins. Í inngangsnámskeiðum nýjatestamentisfræða er eðli málsins samkvæmt farið nokkuð hratt yfir sögu en í ritskýringarnámskeiðum gefst rými til ítarlegri umfjöllunar. Uppbygging kennslunnar er þannig háttað að í hverri viku eru lesnir textar á gríska frummálinu og þeir krufðir ítarlega með tilliti til málfræði, setningarfræði og merkingarsviða. Textarnir sjálfir eru síðan settir í samhengi við rannsóknir á sviði biblíuvísinda og er reynt að gefa fjölbreyttum sjónarmiðum gaum. Nýjatestamentisfræðin er þverfagleg fræðigrein sem notfærir sér þekkingu og rannsókir á sviði fjölmargra fræðigreina til að varpa ljósi á texta Nýja testamentisins. Má þar nefna klassísk fræði, fornleifafræði, sagnfræði, málvísindi, bókmenntafræði, mannfræði, félagsvísindi, kynjafræði og þannig mætti lengi telja.

Kenningar um hinn sögulega Jesú eiga langa hefð í umfjöllun um Nýja testamentið og persóna Jesú hefur heillað trúaða jafnt sem efasemdamenn öldum saman. Fyrstu vísindalegu rannsóknir á Jesú sem sögulegri persónu áttu sér stað í Þýskalandi á átjándu öld en þær voru mjög gagnrýndar fyrir að endurspegla frekar aðstæður og áherslur rannsakenda frekar en forsendur fyrstu aldar. Nútíma rannsóknir byggja á grunni nákvæmra textarannsókna og heimildarýni. Í guðfræðideild Háskóla Íslands eru kenningar um hinn sögulega Jesú kynntar í inngangsnámskeiðum í trúfræði og nýjatestamentisfræðum og í framhaldsnámskeiðum takast nemendur á við slíkar kenningar með því að rannsaka þær frumheimildir sem fyrir hendi eru.

Trúarlegt umhverfi á ritunartíma biblíunnar er viðfangsefni inngangsnámskeiða og liggur til grundvallar allri ritskýringu. Þar fá nemendur innsýn í fjölbreytilegt efni sem tekur til jafnt stjórnmálasögu, hugmyndafræði og trúarbragða í umhverfi Nýja testamentisins. Í inngangsfræði Nýja testamentisins er farið yfir bókmenntasögu alls Nýja testamentisins ásamt kynningu á ýmsum skyldum ritum.

Þekking á trú Egypta er mikilvæg í samhengi Nýja testamentisins vegna þess samruna grískrar og austrænnar menningar sem átti sér stað eftir tíma Alexanders mikla á þessu landsvæði og lögð er mikil áhersla á að textarnir séu lesnir í því samhengi. Prófessor Jón Ma. er sérmenntaður í egypskum fræðum en rannsóknir hans í bandaríkjunum voru á textum úr frumkristni sem varðveist hafa á egypskri tungu.

Hvað snertir gnóstísk rit hefur prófessor Jón Ma. komið að rannsóknum og þýðingum rita af þeim flokki. Leggur hann áherslu á í kennslu sinni að nemendur m.a. kynnist ritum Nag Hammadi safnsins, flokki gnóstískra rita sem fundust í Egyptalandi 1945, og voru rannsökuð í Claremont þar sem Jón starfaði. Nýleg lokaritgerð við guðfræðideildina fjallar ítarlega um gnóstísk rit og tengsl þeirra við Jóhannesarguðspjall.

Júdasarguðspjall hefur þá vakið mikla athygli vegna þess að eintak þess komst nýlega í hendur fræðimanna, illa farið eftir langa og sorglega meðferð forngripabraskara. Ritið var boðið Claremont háskóla til sölu á þeim tíma er Jón starfaði þar og fékk rannsóknarhópur hans að skoða ritið. Því miður hafði háskólinn ekki burði til að borga eigendum þess það verð sem sett var upp og því komst það ekki fyrr en nýlega í hendur fræðimanna og í mun verra ásigkomulagi. Jón Ma. greindi frá þessari atburðarás ítarlega í erindi á Hugvísindaþingi haustið 2006 og fór þar yfir rannsóknarsögu Júdasarguðspjalls. Auk þess var nemendum Jóns sem stunda rannsóknir á sviði nýjatestamentisfræða boðið að sækja norræna ráðstefnu 2007 þar sem kynntar voru nýjustu niðurstöður rannsókna á Júdasarguðspjalli. Þess má geta að í haust er í boði námskeið í guðfræðideild um apókrýf guðspjöll, m.a. Júdasarguðspjall.

Í greininni ,,Trúlausi guðfræðingurinn” er vegið að kennslu á sviði biblíufræða við Háskóla Íslands af nemanda sem ekki hefur setið framhaldsnámskeið á sviði nýjatestamentisfræða. Við sem þessa grein ritum stundum bæði rannsóknir á sviði nýjatestamentisfræða við Háskóla Íslands undir handleiðslu Jóns Ma. Ásgeirssonar. Við finnum okkur því knúin til að leiðrétta þá aðför sem í orðum hans felst. Þau atriði kennslu og rannsókna sem að Teitur Atlason kallar eftir eru gerð vegleg skil í starfi deildarinnar og sitja þar allir nemendur við sama borð.

Sigurvin Jónsson guðfræðingur og MA nemi á sviði nýjatestamentisfræði.
Sunna Dóra Möller útskriftarnemi í guðfræði.

url: http://sigurvin.annall.is/2008-07-10/trulausi-gudfraedingurinn-og-gudfraedideild-haskola-islands/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Matti @ 10/7/2008 11.44

Sigurvin á að vita að Teitur hefur þegar svaraði þessum pistli en vísar ekki á svarið.

Undarlegt.

Sigurvin @ 10/7/2008 18.33

Takk fyrir ábendinguna Matti.
Ég hafði ekki séð svar Teits þar sem ég hef ekki verið nettengdur í júlí og greinin var tilbúin og beið birtingar frá því í Júní.
Undarlegra er það nú ekki

Sigurvin @ 10/7/2008 19.13

Grein þessi birtist í styttri útgáfu í Fréttablaðinu 10. júlí og jafnframt í heild sinni á heimasíðu Sunnu Dóru Möller.
Grein Teits má lesa í Fréttablaðinu 15. Júní.


© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli