sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Hörmungarnar í Mumbai. · Heim · Málstofa í nýjatestamentisfræðum »

Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 3. nóvember 2006

Sigurvin @ 22.27 4/11/06

Heiti þessa erindis er Spekin í samhengi hellenismans en efnið er hluti af rannsóknarritgerð í nýjatestamentisfræðum sem var unnin undir leiðsögn prófessor Jóns Ma. Ásgeirssonar og lögð fram nú í haust. Ritgerðin beindi sjónum að gríska hugtakinu Sofía, er merkir speki, en þar er birting þess hugtaks og sérílagi persónugerving rannsökuð, annarsvegar í Jesúhefðum Nýja testamentisins og hinsvegar í gyðing-kristnum bókmenntum frá fyrstu öldum okkar tímatals.

Hugtakið hellenismi lýsir því flókna samspili (syncretism) austrænnar og grískrar menningar sem myndaðist við hersigur Alexanders mikla. Á örfáum árum (334-323 f. Kr.) lagði hann undir sig Egyptaland, Sýrland-Palestínu, Mesópótamíu og heimsveldi Persa alla leið til Indlands. Eftir dauða Alexanders skiptu hershöfðingjar hans því í fjóra hluta en það sem sameinaði hið sundraða heimsveldi eftirmanna hans var sameiginleg tunga, hin attíska koine (almenna) gríska, sem varð fljótt alþjóðamál í hinum helleníska heimi. Áhrifamesta arfleifð helleníska tímans er menntakerfið en Alexander kom á fót þrískiptu skólakerfi sem hélst nær óbreytt fram á miðaldir og innsiglaði áhrif grískrar menningar um langan aldur. Með grískri menntun varð hellenismi æ sterkara afl í heimsveldunum og sjálfsmynd hinna austrænu þjóða breyttist á mjög skömmum tíma. Lykillinn að hinni nýju mannsmynd helleníska tímans varð menntunin, paidea.

Bókmenntaarfur Gyðinga eftir babýlónsku herleiðinguna og á helleníska tímanum er afar fjölbreyttur og mikill. Hebreska hélst sem ritmál fræðimanna og fram á okkar tímatal er verið að skrifa rit í Júdeu á hebresku og arameísku, samanber Mishnah, Talmud og Qumran-handritin. Frá miðri þriðju öldinni f. Kr. má hinsvegar segja að í raun sé allur gyðingdómur orðinn hellenískur gyðingdómur en Gyðingar skiptust í hópa m.a. eftir viðbrögðum gagnvart hinum nýja menningarstraumi hellenismans. Einhvern greinarmun má gera á þeim hebresku- og arameískumælandi Gyðingum sem bjuggu í Jerúsalem og þeim grískumælandi í dreifingunni en strax frá upphafi Ptólemíska tímans er Jerúsalem að miklu leyti orðin grískumælandi borg. Bókmenntir Gyðinga frá helleníska tímanum eru undir áhrifum af hinum helleníska tíðaranda og flestar fjalla þær á einn eða annan hátt um hver séu hin réttu viðbrögð við hellenískri menningu.

Auk frumsamdra verka voru grískar þýðingar á hebreskum og arameískum ritum algengar á helleníska tímanum og var það þýðingarstarf knúið áfram af vilja yfirvalda í Jerúsalem til að hafa áhrif á Gyðinga í dreifingunni. Það þýðingarstarf sem mest áhrif hafði er hin gríska biblíuþýðing, Septuagina, en þýðingin gerði ritsafn hinnar hebresku Biblíu aðgengilegt jafnt grískumælandi Gyðingum sem Grikkjum og gerði gyðingdóm í raun að alþjóðlegum trúarbrögðum. Hugmyndin um eðli viskunnar í gyðingdómi reyndist sá grundvöllur sem samræðan milli hellenisma og gyðingdóms byggðist á. Hebreska hugtakið hokma er merkir visku er fyrst og fremst guðfræðilegt hugtak en það er yfirleitt þýtt með gríska hugtakinu Sofía sem á rætur í heimspekilegri umræðu. Bandaríski guðfræðingurinn Burton Mack bendir á að hokma stendur merkingarlega mun nær uppfræðsluhugmyndum Grikkja sem lýst er með hugtakinu paideia (paidei/a) en Sófíu-hugtakinu.

Speki og spekibókmenntir gegndu mikilvægi hlutverki fyrir sjálfsmynd gyðingdóms á helleníska tímanum og samskipti menningarheimanna í bókmenntum og þýðingum byggðist á því að skiptast á speki. Mack heldur því fram að snertiflöturinn á milli paideia hugmynda Grikkja og umvöndunar spekinganna hafi brúað bilið á milli hellenisma og gyðingdóms og lagt grunninn að þeim samruna sem við sjáum í gyðinglegum spekibókmenntum. Frá fyrstu kynnum Gyðinga af hellenískum textum hefur hugmyndin um paidea komist til skila. Síraksbók orðar þessi tengsl í upphafskaflanum en þar segir, ,,Speki (sofi/a) og menntun (paidei/a) er að óttast Drottinn, trúfesti og auðmýkt gleðja hann.” (Síraksbók 1.27)

Á helleníska tímanum tók spekin í bókmenntum gyðingdóms á sig nýjar myndir en ekki er augljóst hvort sú breyting átti sér stað undir hellenískum eða austrænum áhrifum eða hvort engin erlend áhrif koma þar við sögu. Spekirit og spekiefni byggja eðli síns vegna á stöðugleika í því samfélagi sem talað er inn í en leiðbeiningar um hegðun gera ráð fyrir því að hægt sé að segja til um afleiðingar hegðunar. Burton Mack heldur því fram að persónugerving spekinnar í gyðingdómi hafi verið viðbrögð við þeirri trúarlegu og pólitísku óvissu sem ríkti í Palestínu á helleníska tímanum og að persónugervingin hafi áréttað kennivald og gildi spekinnar á umbrotatímum. Spekin öðlaðist eigið líf með sterk persónueinkenni og varð heillandi persóna í gyðinglegum bókmenntum. Í lýsingum er hún nær alltaf kvengerð, lifir í nánu samneyti við Guð og þráir að dvelja meðal okkar mannanna.

Elstu dæmin um persónugervingu spekinnar er að finna í 28. kafla Jobsbókar og fyrstu köflum Orðskviða Salómons en í báðum textunum er spekinni gefið hlutverk við sköpun heimsins. Jobsbók er mun eldra rit en 28. kaflinn sem hefur verið bætt við bókina einhverntíma á fyrri hluta þriðju aldar.

Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima? Hún er falin augum allra þeirra er lifa, … Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar … sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig. Og við manninn sagði hann: Sjá, að óttast Drottin það er speki, og að forðast illt það er viska. (Jobsbók 28.20-28)

Í þessari tilvitnun má greina þrjú meginstef sem eru mjög áberandi í umfjöllun spekitexta um hina persónugerðu visku. Í fyrsta lagi er viskan hulin mönnunum, í öðru lagi er hún til staðar við upphaf tíma (1M 1.2) og loks er guðsótti upphaf viskunnar, en það stef er þekktast úr Orðskviðunum. Fyrstu köflum Orðskviðanna, köflum 1-9, er sennilega bætt í spekisafnið á miðri þriðju öld f. Kr. og þar er spekinni gefið hlutverk í sköpun heimsins og henni lýst sem yndi Guðs.

Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli. Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til … stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma, leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum. (Orðskviðir 8.22-31)

Í tilvitnunni er það spekin sjálf sem talar og lýsir tilurð sinni og stöðu frammi fyrir guðdóminum. Hlutverk spekinnar við sköpunina í 8. kafla Orðskviða og 28. kafla Jobsbókar er sambærilegt hlutverki anda Guðs í sköpunarsögu 1. Mósebókar. Þessi tenging spekinnar við sköpunarguðfræði biblíuhefðarinnar hafði mikil áhrif á bókmenntir helleníska tímans og olli því að öll þekking og sköpun var talin vitnisburður um visku Guðs.

Þó að báðir þessir textar séu tilkomnir á helleníska tímanum skyldi varast að draga þá ályktun að þeir séu komnir til fyrir grísk áhrif, viskan sem persónugerð guðleg vera kemur fram á sjónarsviðið mjög seint í grískum bókmenntum og mun fleiri hliðstæður má finna í semískum ritum. Þegar Orðskviðirnir eru þýddir á grísku á fyrri hluta annarar aldar f. Kr. og teknir upp í Septuagintu verða þeir hinsvegar fyrir hellenískum áhrifum í mun meira mæli en flest önnur rit grísku biblíuþýðingarinnar. Sérstaklega má greina hellenísk áhrif í Ok 8.22-31 en gríska þýðingin víkur þar áberandi frá hebreska textanum. Spekin er þar sköpuð eða getin af Guði fyrst sköpunar og tekur þátt í sköpun heimsins sem ráðskona (a(rmo/zousa) sem fegrar sköpunina og fullkomnar. Sú mynd er hliðstæð heimsmynd stóumanna um veraldarsál, sem á rætur að rekja til sköpunarsögu Tímeusar eftir Platón (427-347 f. Kr.).

Í Prédikaranum er spekin að einhverju leyti hlutgerð en eiginlega persónugervingu er þar ekki að finna. Andstæðum speki og heimsku er líkt við myrkur og ljós (Pd 2.13) og eiginleikar spekinnar eru lofaðir.

Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta. Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á. … Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni.(Prédikarinn 7.11-19)

Í Prédikaranum er spekin fyrst og fremst mannlegur eiginleiki, sem fæst við rannsókn á heiminum.

Í Síraksbók sem rituð er á 2. öld f. Kr og tilheyrir ritsafni Septuagintu er spekin annarar gerðar, hún er guðlegs eðlis og maðurinn nálgast sanna visku aldrei á eigin vegum heldur þiggur hana að gjöf frá Guði. Síraksbók persónugerir spekina í tveimur köflum, Sr 1.1-10 og 24.1-34 en hvorugur þessara kafla hafa varðveist á hebresku.

Ég [spekin] gekk fram af munni hins Hæsta, þakti jörðina líkt og mistur … meðal allra lýða og þjóða hlaut ég völd. Hjá þeim öllum leitaði ég mér hvíldarstaðar, í arfleifð hvers myndi ég dvalarstað hljóta? … Í borginni sem hann [skaparinn] elskar fékk hann mér bústað, í Jerúsalem hef ég völd. (Síraksbók 24.3-11)

Spekin er í þessari tilvitnum útgengin af Guði og hefur einhver ítök meðal allra þjóða en sérstaða Ísraels og borgarinnar helgu er augljós, þar býr spekin og hefur völd. Það er áberandi að þó textinn sé lofgjörðarkvæði er spekin jafnt mælandi og andlag lofgjörðarinnar og 24. kaflinn á margt skylt með hellenískum sjálfslofgjörðum gyðjunnar Ísisar (Isis Aretalogies). Ekki er ólíklegt að Ísisardýrkendur hafi á þriðju öldinni boðað trú sína í Jerúsalem og að eiginleikar Ísisar hafi verið yfirfærðir á speki Guðs í ritdeilum við þá.

Áberandi einkenni á spekinni í 24. kafla Síraksbókar eru hin nánu tengsl hennar við lögmálið, Tóruna, og þó að spekin eigi heimili sitt í Jerúsalem er dvalarstaður hennar í lögmálinu.

Sá sem hlýðir mér [spekinni] verður ei til skammar, þeir sem starfa með mér munu ei syndga. Allt þetta er að finna í sáttmálsbók Guðs hins hæsta, lögmálinu sem Móse bauð oss að hlýða og veitti söfnuðum Jakobs í arf. Lögmálið er bakkafullt af speki eins og Písonsfljót, líkt og Tígris á tíma frumgróðans. (Síraksbók 24.22-24)

Þessum samruna spekinnar og lögmálsins er stillt upp sem svari við efahyggju hellensismans og afleiðingum hennar á siðgæði og hegðun manna. Af því leiðir að það sem lögmálið kennir er það sama og viskan boðar og sótt er í persónur úr sögu Ísraels eftir fyrirmyndum að frómu líferni.

Fyrri spekikvæðið (Sr. 1.1-20) birtir mynd af spekinni sem er undir áhrifum hellenískrar heimspeki, sérstaklega af heimsmynd stóumanna.

Fyrri öllu var spekin sköpuð, frá eilífð voru skilningur og hyggindi. … [Drottinn] er sá sem spekina skóp, leit á hana og virti vel og veitti (e)ce/xeen) henni yfir öll sín verk. Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans, hann veitir þeim sem elska hann ríkulega henni.(Síraksbók 1.4, 9-10)

Ólíkt fyrri spekiritum fær öll sköpunin hlutdeild í krafti spekinnar og hún er því einskonar alheimsvit, sem er úthellt yfir alla sköpunina og hápunktur hennar birtist í mannkyninu. Þetta altæka eðli spekinnar í Síraksbók er hliðstætt hugmyndum stóumanna um ,,Logos”, lögmálið sem grundvallar heiminn og hegðun mannsins miðar að.

Samtímamaður Síraks, heimspekingurinn Aristóbúlus, segir berum orðum það sem Síraksbók gefur í skyn, að spekin (hokma) sé sambærileg ,,Logos” stóumanna. Aristobúlus samþættir hina hefðbundnu palestínsku hugmynd um spekina sem samverkakonu Guðs í sköpuninni við frásögn sköpunarsagnanna í 1. Mósebók, sérstaklega 1M 2.1-4a, og beitir til þess hugtökum og hugmyndum hellenískrar heimspeki. Hápunktur samruna lögmáls og speki í gyðinglegum spekiritum helleníska tímans er að finna í tveimur ritum, Bréfi Aristeasar[1] og Orðskviðum Skugga-Fókylídesar[2] en hvorugt þeirra persónugerir speki Guðs. Sameiginlegt markmið ritanna er að sýna fram á að lögmál Fimmbókaritsins sé fyllilega sambærilegt æðstu hugsjónum grískrar siðfræði og uppspretta allrar sannrar heimspeki.

Elisabeth Schüssler Fiorenza bendir á að mikið af kynferðislegu myndmáli er eignað viskunni í gyðinglegum spekiritum, henni er lýst sem móður, eiginkonu, ástkonu, meyju og brúði. Síraksbók ber vott um slíkt myndmál en þar er spekinni lýst sem móður (Sr 4.11), brúði (Sr 5.2) og ástkonu sem leitendur hennar ganga á eftir ástsjúkir (Sr 14.22-27).

Sá sem gægist á glugga hennar leggur við hlustir hjá dyrum hennar, sest að við hús hennar og rekur tjaldhæla sína í vegg þess, slær tjaldi sínu upp í nánd spekinnar, þar á hann gott athvarf. (Síraksbók 14.22-25)

Speki Salómons, sem einnig tilheyrir Septuagintu, inniheldur sama stef og þar er lögð áhersla á samruna leitandans við spekina gegnum hjónaband, en sá samruni er grundvallaður á sambandi spekinnar og Guðs.

Ég fékk ást á henni [spekinni] og leitaði hennar frá æsku. Ég kostaði kapps um að leiða hana heim sem brúði og varð hugfanginn af fegurð hennar. Samlíf við Guð veitir ættgöfgi hennar ljóma og Drottinn alls elskar hana. Hún er innvígð í leynda vitund Guðs og tekur þátt í verkum hans. (Speki Salómons 8.2-4)

Spekin er upphafin í Speki Salómons sem hin eina sanna leið til Guðs og guðleiki hennar og dýrð er slík í ritinu að hún skyggir jafnvel á Guð sjálfan.

[Spekin] er andblær almáttugs Guðs og streymir tær frá dýrð hins alvalda … endurskin hins eilífa ljóss, nákvæm eftirmynd verka Guðs og ímynd gæsku hans. Ein er hún en megnar allt, er sjálfri sér söm og endurnýjar allt. Hún býr sér stað í helgum sálum frá kyni til kyns og mótar spámenn og vini Guðs. Enda elskar Guð aðeins þann sem er samvistum við spekina.(Speki Salómons 7.25-28)

Af þessari tilvitnun sést upphafning spekinnar í ritinu, hún á uppruna sinn í Guði og er endurskin af ljósi hans en virðist samt almáttug og endurnýjandi á eigin forsendum. Fyrst og fremst er hún innblástur og andi spekinga og spámanna Guðs og forsendan fyrir elsku hans.

Í opinberunarritunum er spekin hin leynda þekking sem aðeins fæst með guðlegri opinberun, oftast í draumi, sýn eða upphafningu til himins. Líkt og í Síraksbók leitar spekin í Enoksbók að dvalarstað á jörðinni en jafnvel í Jerúsalem finnst ekki ákjósanlegur staður og því dvelur hún á himnum í faðmi engla og þangað þarf að sækja hana.

Spekin fann ekki bústað á jörðu þar sem hún gæti dvalið, bústaður hennar er því á himnum. Spekin fór til að dvelja meðal sonum manna, en hún fann ekki dvalarstað. Spekin snéri til baka á sinn stað, og tók sér sæti meðal englanna. En ranglætið kom fram eftir endurkomu hennar, sem ófús fann sér bústað, og býr meðal þeirra, líkt og regn í eyðimörkinni og dögg á þyrstu landi. (Enoksbók 42.1-2)

Sú heimsmynd sem hér birtist er mun bölsýnni en sú sem Síraksbók dregur upp, þar sem höfundur Síraksbókar sá ljós í Jerúsalem sér Enoksbók aðeins ranglæti á allri jörðinni, sanna speki er þar ekki að finna. Birting spekinnar í opinberunarbókmenntum tekur á sig þrenns konar myndir. Í fyrsta lagi er hin hefðbunda sýn spekibókmennta að aðeins hinn réttvísi sem fylgir lögmálinu geti talist vitur, í öðru lagi að freistingum hinstu tíma fylgi opinberun á huldum boðskap hinna fornu spámanna Ísraels sem muni styrkja hina trúuðu og loks verður sannri speki ekki úthellt fyrr en við hinstu tíma.

Í niðurlagskafla Daníelsbókar koma allar þessar myndir fyrir, en áherslan er á hina leyndu þekkingu og opinberun hennar við heimsendi.

En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa. … En hann sagði: Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það. (Daníelsbók 12.4-10)

Í verkum Fílons frá Alexandríu er að finna mjög ríkt myndmál tengt spekinni sem er undir sterkum áhrifum frá spekibókmenntum Septuagintu, sérstaklega Orðskviðunum, Síraksbók og Speki Salómons. Fílon líkir spekinni við dóttur og yndi Guðs, ástkonu og móður spekingsins, tré lífsins, lögmálið, aldingarðinn Eden og fyrirheitna landið sem lofað var Abraham. Á köflum tekur myndmál hans á sig mjög kynferðislega undirtóna þegar hann lýsir hjúskap spekinnar við Guð og samræði hennar við mennina. Spekin er hjá Fíloni bæði guðlegt og mannlegt fyrirbæri og tengsl spekinnar við uppfræðsluhugmyndir Grikkja um paideia er mjög sterk. Þær persónur úr sögu Ísraels sem eru mikilvægastar í verkum hans eru Móses og Abraham, vegna miðlægni Tórunnar og tengslum hennar við spekina, og þeir verða málsvarar paideia. Fílon gengur mun lengra en Speki Salómons í því að tengja spekina við paideia og til að lýsa sambandi þeirra grípur hann til allegórískrar túlkunar, aðferðar sem er mjög fátíð í spekiritunum. Markmið Fílons er að skýra hvernig skuli meta og glíma við uppfræðsluna til þess að nýta það besta úr menningu Grikkja og hefðum Biblíunnar án þess að missa sjónar á Guði.

Hugmyndir um hina persónugerðu speki Guðs höfðu víðtæk áhrif á það hvaða augum hinir fyrstu kristnu litu persónu Jesú frá Nasaret og flestar elstu heimildir kristindómsins eru undir slíkum áhrifum. Ef frá er talin Ræðuheimildin er Jakobsbréf eina spekirit Nýja testamentisins og umfjöllun um spekina stendur sem miðja og hverfiás þess. Þrír megintextar varpa ljósi á eðli og birtingu spekinnar í Jakobsbréfi. Fyrsti textinn Jk 1.2-8 tilheyrir inngangi Jakobsbréfs og samanstendur af tveimur nátengdum períkópum, sú fyrri fjallar um þolgæði sem ávöxt þess að standast raunir og sú síðari um hvernig biðja skuli um visku í trú.

Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant. (Jakobsbréf 1.2-4)

Það sem tengir þær saman er áherslan á spekiefni en þau stef sem koma fyrir í Jk 1.2-4 eiga fjölmargar hliðstæður í gyðinglegum spekiritum. Stefið um að gleðjast yfir erfiðleikum vegna þeirrar trúarfestu sem leiðir af því að standast þrautir, á djúpar rætur í spekihefð gyðingdóms. Síraksbók og Speki Salómons endurspegla þessa áherslu og hvetja til gleði við andstreymi vegna þeirra ávaxta sem erfiðleikar færa. Upphafning þess að standast raunir var mjög áberandi í grísk-rómverskri menningu og sjálfsstjórn (self-mastery) var ein mikilvægasta dyggðin í hellenískri hugmyndafræði. Sjálfsstjórn aðgreindi Grikki og Rómverja frá frumstæðari þjóðum að eigin áliti og inn í þá hugmyndafræði talar hellenískur gyðingdómur þegar lögmáli Gamla testamentisins er stillt upp sem aðferð til að öðlast sjálfsstjórn.

Seinni períkópan Jk 1.5-8 leggur áherslu á gjöf spekinnar frá Guði en líkt og í spekiritum gyðingdóms er sofi/a guðlegs eðlis og sönn speki verður aðeins þegin frá Guði.

Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá Drottni.! (Jakobsbréf 1.5-8)

Mynd bréfsins af sofi/a er að mörgu leyti sambærileg umfjöllun annara rita Nýja testamentins um heilagann anda en líkt og heilagur andi er spekin gjöf að ofan, sem veldur umbreytingu í lífi hins trúaða og gerir honum kleift að nálgast mark fullkomnunar. Fullkomnun er þannig ekki innan seilingar fyrir tilstilli eigin krafta, heldur einungis með því að þiggja spekina að gjöf frá Guði. Gleði hins trúaða felst í voninni um fullkomnun við hinstu tíma. Loks er stillt upp sem andstæðum trú og efa og það áréttað að sá sem er tvílyndur og efast í bænum sínum mun ekki fá bænasvar (Jk 1.6-8).

Annar texti sem varpar ljósi á eðli spekinnar í Jakobsbréfi er upphaf meginmálsins Jk 2.1-13 en þar koma fyrir mikilvæg spekistef.

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist. (Jakobsbréf 2.1)

Í upphafi textans er gefin áminning um að fara ekki í manngreinarálit og Jesús er titlaður dýrðardrottinn. Merkingu þessa titils ,,dýrðardrottinn” má útleggja á nokkra vegu eftir því hvernig samhengi orðanna er skilið en líklegasta þýðingin er sambærileg þeirri íslensku. Hin hefðbundna skilgreining er að þessi vísun í dýrð (doca/) sé tilvísun í upprisu Jesú í samhengi krossins líkt og önnur tilvik þar sem orðið kemur fyrir í ritum Nýja testamentins. Það þarf hinsvegar ekki að vera, annarsvegar í ljósi þess að Jakobsbréf stendur næst Jesúhefðinni í Ræðuheimildinni sem ekki þekkir til krossdauða og upprisu Krists og hinsvegar í ljósi tengsla ritsins við spekihefðina. Í umfjöllun Mack um lofgjörðarkvæði Síraksbókar skilgreinir hann hugtakið dýrð (kābôd) útfrá merkingarsviði spekiumræðu en Sírak útleggur dýrð sem nærveru viskunnar meðal þjóðarinnar. Dýrðartitill Jesú í Jk 2.1 er því mögulega spekihugtak sambærilegt Síraksbók sem áréttar tengsl Jesú við hina guðlega speki og nærveru spekinnar í Jesú.

Annað mikilvægt stef í upphafi meginmálsins er lögmálið (no/mov) en lögmálsskilningur Jakobsbréfs er náskyldur Ræðuheimildinni, Matteusarguðspjalli og ýmsum gyðing-kristnum ritum.

Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig , þá gjörið þér vel. En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn. Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess. Því sá sem sagði: Þú skalt ekki hórdóm drýgja , hann sagði líka: Þú skalt ekki morð fremja. En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið. Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins. (Jakobsbréf 2.8-12)

Umfjöllun textans um lögmál vísar í lögmál Gamla testamentisins og boðorðin tíu en Jk 2.8 vitnar í 3. Mósebók (3M 19.18) um að elska náungann eins og sjálfan þig. Orðasambandið no/mov basiliko/v (hið konunglega boðorð) er sótt í spekibókmenntir gyðingdóms, í Speki Salómons er leið viskunnar eftirfylgni við lögmálið og sú speki sem fæst við lögmálshlýðni leiðir til konungdóms.

Viðleitni til að fræðast er að elska hana [Spekina]. Að elska hana er að halda boð hennar. Að halda boð hennar tryggir ódauðleika. Ódauðleikinn færir mann í nánd við Guð. Þannig leiðir þrá eftir speki til konungsdóms. (Speki Salómons 6.18-20)

Þessi hliðstæða sýnir að lögmálsskilningur Jakobsbréfs byggir á gyðinglegum spekihefðum og í ljósi þeirra hefða merkir no/mov basiliko/v lögmál sem leiðir til guðlegrar visku.

Í versi 12 eru hinir trúuðu hvattir til að breyta líkt og þeir er dæmast munu undir ,,lögmáli frelsisins”, no/mov e)leuqer/iav, en af samhenginu má ráða að orðasamböndin hafi sambærilega merkingu. Tenging lögmálsins við frelsi merkir annarsvegar að lögmálshlýðni leiðir af sér frelsi frá valdi hins illa og hinsvegar í heimslitasamhengi frelsi undan yfirvofandi dómi. Þriðja orðasambandið tengt viskunni kemur fyrir í inngangi bréfsins Jk 1.25 en þar er talað um hið fullkomna lögmál frelsisins. Lögmálsskilning bréfsins má draga saman á þann hátt að eftirfylgni við hið fulkomna lögmál Guðs leiðir til sannrar speki.

Auk áhrifa frá spekihefðum gyðingdóms ber lögmálið í Jakobsbréfi skyldleika við stóískar hugmyndir. Jackson-McCabe sýnir fram á í bók sinni um lögmálið í Jakobsbréfi að hin stóíska hugmynd um lögmál hið innra (lo/gov e!mfutov), sem stýrir siðferði og hegðun mannsins, sé að finna í Jakobsbréfi. Jakobsbréf 1.21 er að hans áliti skýrasta dæmið um áhrif slíkra hugmynda í Nýja testamentinu.

Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar. (Jakobsbréf 1.21)

Í textanum er hið gróðursetta orð forsenda frelsunar en orðasambandið er tilvísun í lögmál Móse líkt og vísanir í lögmálið í Jk 1.25 og 2.1-13. Orðanotkun höfundar Jakobsbréfs er greinilega sótt til stóíska heimspekinga á fyrstu öld f.Kr. en sambærileg áhrif má greina í öðrum gyðinglegum og kristnum ritum. Niðurstaða Jackson-McCabe er sú að Jakobsbréf varðveiti fágætann vitnisburð um frumkristna hreyfingu sem byggði frelsunarhugmyndir sínar á lögmálshlýðni við Tóruna frekar en á fagnaðarerindi Páls. Samruni lögmálsins, speki Guðs og stóískra hugmynda um lo/gov lögmálið í Jakobsbréfi er mjög sambærilegur og greina má í umfjöllun Síraksbókar um spekina, þar sem henni er lýst sem einskonar alheimsvisku sem er úthellt yfir alla sköpun Guðs.

Þriðji og mikilvægasti textinn í Jakobsbréfi sem fjallar um eðli spekinnar er Jk 3.13-18 en hann er uppbyggður á eftirfarandi hátt.

Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl. En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja. (Jakobsbréf 3.13-18)

Í upphafi er sönn viska tengd verkum hins trúaða (Jk 3.13), því næst er lýst afleiðingum þess að lifa án visku Guðs (Jk 3.14-16) og loks er spekin að ofan skilgreind og ávöxtum hennar lýst (Jk 3.17-18). Áhersla textans er á tvær nátengdar hliðar spekinnar, annarsvegar er lögð áhersla á himneskan uppruna hennar en spekin er himnesk gjöf sem umbreytir lífi þess sem hana þiggur, og hinsvegar leggur textinn áherslu á helgað líf þess sem spekina hefur þegið. Jakobsbréf byggir á arfi gyðinglegra spekibókmennta í þeirri mynd sem dregin er upp af spekinni og guðlegur uppruni hinnar sönnu speki sem komin er að ofan er til dæmis að finna í Orðskviðunum (Ok 2.6; 8.22-31), Síraksbók (Sr 1.1-4; 24.1-12) og Speki Salómons (SS 7.24; 9.4, 6, 9-18). Sú hugmynd að spekin sé tengd anda Guðs á langa sögu í bókmenntum gyðingdóms og hana er víða að finna í Fimmbókaritinu (1M 41.38-41; 2M 21.3-4; 5M 34.9), í spádómsbók Jesaja (Jes 11.2) og í spekiritum Septuagintu (SS 7.7; 9.17). Loks er gjöf spekinnar að fullu veitt við upphaf hinstu tíma í Jakobsbréfi og sú hugmynd ber textatengsl við gyðingleg opinberunarrit á borð við Enoksbók þar sem andi Guðs og spekin gegna sambærilegu hlutverki. Í Jakobsbréfi koma saman þrjár tegundir gyðinglegra bókmennta, spekihefðir, heimslitahefðir og opinberunarhefðir en allar skarast þær í hugmyndinni um speki Guðs.

[1] Í Bréfi Aristeusar er það sagt ritað á tíma Ptólemeusar II. (284-247 f. Kr.) en margt bendir til að eiginlegur ritunartími bréfsins sé allavega öld síðar.

[2] Orðskviðir Skugga-Fókylídesar (Sentences of Pseudo-Phokylides) eru ritaðir á 1. öld f. Kr. af Gyðingi sem skrifar undir nafni gríska skáldsins Fókylídesar (6. öld f. Kr.) og verkið líkir eftir bragarhætti grísku skáldanna, sexliðahætti (hexameter).

url: http://sigurvin.annall.is/2006-11-04/22.27.26/

© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli