sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Ég trúi…. · Heim · Hörmungarnar í Mumbai. »

Mikilvægi biblíufræðslu í íslensku skólakerfi

Sigurvin @ 01.30 9/7/06

Umræða um gildi kristinfræðikennslu í grunnskólum kemur upp öðru hverju en viðhorf til kristinfræðikennslu er oft áberandi neikvætt í þjóðfélagsumræðu. Meðal kennarastéttarinnar er þessi kennslugrein oft talin óþörf og þar sem kennarar hafa mjög takmarkaðan undirbúning undir kristinfræðikennslu úr sínu námi er víða pottur brotinn. Það viðhorf sem oftast heyrist er að ekki eigi að gera kristindóminum hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum og almenn siðferðileg kennsla eigi að leysa biblíusögur af hólmi. Þvert á þessi viðhorf er það brýnt verkefni skólayfirvalda að auka vægi kristinfræðikennslu og kennslu á sviði trúarbragðafræða í íslensku skólakefi.

Ef spurt er hvert sé markmið náms á grunnskólastigi ættu flestir að geta verið sammála um tvö meginmarkmið skólakerfisins í heild sinni. Annarsvegar að gera ungt fólk læst á sitt menningarumhverfi, auk þess að kynna það fyrir öðrum menningarsamfélögum og kenna þeim að bera virðingu fyrir þeim. Hinsvegar er það markmið grunnskólakerfisins að undirbúa nemendur undir frekari þekkingaröflun, bæði við nám á efri skólastigum og þegar komið er út á vinnumarkað. Ef íslenskt skólakerfi gerir nemendur ekki læst á Biblíuna og kristna trú er það að bregðast þessum grunnskyldum sínum. Vannþekking og fáfræði fólks á Biblíunni og hinum kristna arfi hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér og þörf er á að gera biblíufræðslu ítarlegri skil í námi á grunn og framhaldsskólastigi. Máli mínu til stuðnings eru hér taldar upp 10 ástæður fyrir því að biblíufræðsla er afgerandi mikilvæg.

Menningarlegar ástæður.

Óhætt er að fullyrða að engin hluti íslenskrar menningar er ósnortinn af kristnum menningaráhrifum. Frá upphafi landnáms hefur íslenskt samfélag verið undir áhrifum af kristinni trú. Þeir norrænu höfðingjar sem hingað sigldu þekktu til kristindómsins sem var óðum að festa rætur á ný í Norður-Evrópu og það írska vinnufólk (þrælar) sem hingað komu hafa tekið með sér kristna trú. Jafnvel heiðnar heimildir á borð við Völuspá (sjá ritgerð Péturs Péturssonar hér) og Gylfaginningu eru gegnsýrðar af kristnum áhrifum. Án grunnþekkingar á Biblíunni er maður ólæs á evrópska listasögu, hvort sem um ræðir myndlist, tónlist, leikhús eða bókmenntir og íslensk listasaga er þar engin undantekning með myndlistarfi þjóðarinnar[1] og sálmahefð. Lagakerfi okkar grundvallast á ritskýringu á biblíutextum og þó að löggjafarvaldið sé í dag óháð kirkju og kristni, eiga grundvallarviðmið samfélagsins ennþá rætur sínar að rekja til kristinnar trúar. Jafnvel táknmyndir þjóðarinnar byggja á kristnum grunni, fáninn ber kross Krists, landvættirnir eiga fyrirmynd í guðspjallamönnum Nýja testamentisins og þjóðsöngurinn er ortur útfrá 90. Davíðssálmi. Sú hugmynd að ekki eigi að leggja meiri áherslu á kristindóminn en önnur trúarbrögð er jafn fráleit og að ekki eigi að leggja meiri áherslu á íslensku í tungumálakennslu en erlend tungumál. Það er óhugsandi að vera læs á íslenska menningu án grunnþekkingar á Biblíunni.

Sagnfræðilegar ástæður.

Saga þjóðar okkar er nátengd sögu Evrópu og atburðir á Íslandi sem við fyrstu sýn virðist einskorðast við okkar samhengi er oft, þegar nánar er að gáð, í beinu framhaldi af þjóðfélagsbreytingum á meginlandinu. Á tímanum fyrir siðbreytingu fóru samskipti Íslendinga við Evrópu fyrst og fremst fram eftir boðleiðum kirkjunnar og kirkjumunir og rit bárust hingað reglulega með prestum og við uppbyggingu kirkna. Margar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi verða einungis skildar til fulls í ljósi kirkjusögulegrar þróunar. Má þar nefna almenna skólagöngu barna, sem kemur til vegna áhrifa frá píetistum á Norðurlöndum, og þróun heilbrigðiskerfis á Íslandi þar sem starf kaþólskra systra skipti sköpum. Lengi má finna dæmi um hversu mikill áhrifavaldur kristni og kirkja hefur verið í sögu okkar Íslendinga og augljóst er að þekking á kristindómnum er veigamikill lykill að skilningi á henni.

Utan við hið íslenska samhengi er Biblían ein merkasta sögulega heimildin sem við eigum um landssvæði frjósama hálfmánans á hinum forna tíma. Sögulegt mikilvægi Biblíunnar hefur oft verið dregið í efa vegna trúarlegra forsenda ritanna en Biblían gefur sig ekki út fyrir að vera hlutlaus heimild, forsendur hennar og sjónarhorn byggir á eingyðistrú og hjálpræðissögu Ísraelsþjóðarinnar. Krafan um sögulega hlutlægni er nútíma fyrirbæri, hversu mikið sem það er yfir höfuð raunhæft markmið, og allar heimildir verður að lesa útfrá innbygðum forsendum þeirra, trúarlegum sem öðrum. Með hjálp frá heimildum annara þjóða og heimsvelda er hægt að draga upp fyllri mynd af þróun sögunnar en án Biblíunnar væri mynd okkar af þessu örlagaríka landsvæði mun fátækari. Textar Biblíunnar snerta öll stærstu heimsveldi fornaldar á þessu menningarsvæði, Persa, Egypta, Assýringa, Babýlóníumenn, Grikki, Rómverja og fleiri.

Bókmenntafræðilegar ástæður.

Læsi á bókmenntaarf Íslendinga er óhugsandi án þekkingar á ritum og textum Biblíunnar og það á jafnt við um eldri bókmenntir og samtímabókmenntir. Íslendingasögurnar okkar er að miklu leiti byggðar á biblíufrásögnum og greina má kristin minni víða í þeim. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru með þekktustu bókmenntaperlum okkar Íslendinga og þekking á píslarsögum guðspjallanna er grundvallandi til skilnings á þeim. Líkt og flestir af okkar stærri samtímahöfundum beitti Halldór Laxnes víða vísunum í biblíutexta í bókum sínum og án biblíuþekkingar fara slíkar vísanir framhjá lesendum sem skorta slíkan grunn. Bókmenntaarfur okkar er svo nátengdur Biblíunni að segja má að biblíuþekking sé jafn mikilvæg færni í íslensku til að geta skilið og notið íslenskra bókmennta.

Málsögulegar ástæður.Guðbrandur Þorláksson (1541-1627)

Biblíuþýðingar hafa víða haft afgerandi áhrif á þróun og varðveislu evrópumála. Má þar nefna ensku King James Biblíuna sem er áhrifamesta ritverk enskrar tungu fyrr og síðar og þýsku biblíuþýðingu Lúthers sem lagði grunninn að háþýsku. Óvíst er hvort íslenska hefði varðveist sem þjóðtunga okkar Íslendinga ef þýðingarstarfi Odds Gottskálkssonar (Nýja testamenti Odds 1540) og Guðbrands Þorklákssonar (Guðbrandsbiblía 1584) hefði ekki notið við en hún varð til þess að danskar Biblíur voru lítið notaðar hér á landi eftir siðbreytingu. Íslenska Biblían hefur sett staðal fyrir tungumál okkar síðan og ekkert rit hefur haft eins mikil áhrif á íslenska tungu og hún.[2]

Bókmenntalegar ástæður.

Mörg af fegurstu bókmenntaverkum mannkynssögunnar eru varðveit í Biblíunni. Því til stuðnings má nefna könnun sem gerð var um árþúsundamótin meðal yfir 100 rithöfunda af 54 þjóðernum, þar sem spurt var hvert væri stórbrotnasta bókmenntaverk mannkynssögunnar. Í fyrsta sæti lenti Don Quixote eftir Cervates en á hæla hennar fylgdi Jobsbók, það margbrotna meistaraverk spekihefðarinnar. Í Biblíunni er að finna fegursta ástarljóð sem ort hefur verið, Ljóðaljóðin, mögulega fyrir utan sonnetur Shakespeare en þar er hann m.a. að vinna með þau. Orðskviðir Salómons (auk Síraksbókar og Speki Salómons) hafa leiðsinnt kynslóðum og þaðan eru mörg af spakmælum okkar og heilræðum komin. Auk þessa innihalda frásögur Biblíunnar spennusögur, morðgátur, stríðssögur, fjölskyldudrama, grín, ferðasögur, myndlíkingar og opinberanir svo eitthvað sé nefnt. Biblían hefur verið uppspretta listamanna frá ritunartíma hennar og áhrifasaga Biblíunnar er ótrúlega víðtæk.

Trúarbragðafræðilegar ástæður.

Frá sjónarhóli trúarbragðafræða og trúarbragðasögu er þekking á Biblíunni forsenda allrar umræðu á okkar menningarsvæði, en gyðingdómur, kristni, íslam, trú mormóna, bahaía og votta Jehóva byggja allar á Biblíunni á einn eða annan hátt. Læsi á textum Biblíunnar og ólíkur skilningur á þeim er því forsenda umræðu um þessi trúarbrögð. Þar að auki hafa margar af nýtrúarhreyfingum 20. aldarinnar útfærðar hugmyndir um Jesús og opinberunarvægi Biblíunnar og því er þeim mun mikilvægara að nemendur kynnist textum Biblíunnar á forsendum textanna sjálfra. Dæmi um slíkar nýtrúarhreyfingar eru spíritismi, guðspekihreyfingin, mörg vestræn afbrigði af búddisma og hindúisma (Yoga) og japanskar nýtrúarhreyfingar sem komið hafa til vesturlanda frá því eftir síðari heimstyrjöld (t.d. Soka Gakkai búddismi og MahiKari). Ef það er raunverulegt markmið íslensks menntakerfis að kynna nemendur fyrir fræðigreinum trúarbragðafræði og trúarbragðasögu þá er biblíuþekking nemenda grunnforsenda þess að slík kennsla geti borið árangur.

Fjölmenningarlegar ástæður.

Með æ vaxandi trúarlegum fjölbreytileika í samfélagi okkar, í kjölfar innflytjenda og Íslendingum sem verða fyrir áhrifum erlendis, verður þekking á trúarbrögðum mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Í Norður Evrópu eru átök á milli Múslima og þeirrar vestrænnu (kristnu) menningar sem fyrir er í þeim löndum sem þeir flytjast til daglegur veruleiki og gagnkvæmri virðingu er víða mjög ábótavant. Skilningur og gagnkvæm virðing fyrir ólíkum menningarhefðum er markmið fræðslu á sviði trúarbragða og forsendur slíkrar virðingar er að nemendur séu upplýstur um eigin trúarhefð. Slík ígrundun snertir dýpra en persónuleg trúarafstaða, því án þekkingar á því hvaða hlutar okkar menningar eiga rætur sínar í kristinni trú er ómögulegt að bera virðingu fyrir hinum trúarlega þætti í öðrum menningum. Yfirgnæfandi meirihluti nemenda í íslensku skólakerfi tilheyra lútherskum kirkjum og forsenda þess að þeir geti sýnt öðrum trúarhefðum virðingu er þekking á sinni eigin.

Siferðislegar ástæður.

Siðferðisviðmið okkar eru svo nátengd trúararfinum að fæstir eru meðvitaðir um hversu víðtæk áhrif kristindómsins eru á íslenska siðferðisvitund. Hugmyndir vestrænnar menningar um helgi lífsins, samábyrgð með náunganum og virðingu fyrir einstaklingnum eiga rætur sínar í kristinni trú þó þær séu ekki alltaf settar í trúarlegt samhengi. Þekking á Biblíunni og áhrifum hennar á menningu okkar gerir nemendur upplýstari um samhengi siðferðisviðmiða og hvar munurinn liggur við aðrar menningarhefðir. Margt af því sem við teljum sjálfgefin siðferðisleg sannindi eru mun bundnari við menningarlegt- og trúarlegt samhengi en við gerum okkur grein fyrir.

Kirkjulegar ástæður.

Kirkjulegar athafnir og kirkjulíf eru áberandi þáttur af íslensku þjóðlífi og því fylgir táknmál og hugtakanotkun sem getur verið framandi þeim sem ekki taka þátt í starfi kirkjunnar. Læsi á slíkt táknmál er mikilvægt fyrir nemendur óháð þeirra eigin trúararfi, því táknmál kirkjunnar mætir fólki svo víða. Öll umgjörð kirkjunnar er hlaðin táknmáli frá skrúða prestsins til lita kirkjuársins og jafnvel dagatal okkar er byggt upp eftir atburðarás guðspjallanna. Læsi á táknmál kirkjunnar er því mikilvægt öllum sem búa í íslensku samfélagi.

Trúarlegar ástæður.

Virðing fyrir trú og menningu annara, grundvallast á virðingu fyrir eigin trúararfi og meðvitund um sína persónulegu trúarafstöðu. Líkt og það er markmið tónlistarkennara að veita nemendum innsýn inn í heillandi heim tónlistar og gera þau skynug á margbreytileika og fegurð hennar, er það markmið samfélagsfræði- og kristinfræðikennara að gera nemendur skynug á fegurð trúar og trúariðkunar. Nálgun sem gefur aðeins rými á kaldri greiningu á mismunandi trúarbrögðum en fjallar ekki af virðingu um trúariðkun einstaklingsins gefur nemendum ekki rétta mynd af hinum trúarlega veruleika. Biblían fjallar um leit mannsins að hinu guðlega og um mót Guðs og manns. Án sanngjarni framsetnigu á þeirri staðreynd munu nemendur ekki fá rétta mynd af tilurð og túlkun Biblíunnar. Leit mannsins að hinu guðlega er sannarlega ekki hætt, eins og ógrynni nútíma sjálfshjálpar bókmennta gefa vísbendingu um, og þar er oft um bilblíulegt efni að ræða sett í nýjan búning. Læsi á Biblíuna og kristin trúararf gerir nemendur gagnrýnni og upplýstari á markaðstorgi guðanna.

Niðurstaða þessarar umfjöllunar er sú að það er ein af frumskyldum íslensks skólakerfis að gera nemendur kunnuga og handgengna Biblíunni. Þekkingarleysi á Biblíunni veldur því að nemendur verða ólæsir á þann stóra hluta menningar okkar sem vagga ritningarinnar hefur alið af sér. Minni áhersla á kristinfræði í íslensku skólakerfi mun leiða af sér meiri fordóma hjá ungu fólki gagnvart eigin trúarhefð og annara, frekar en að hvetja til skilnings og umburðarlyndis á tímum fjölmenningarsamfélaga.

[1] Samanber bók Þóru Kristjánsdóttur: Mynd á Þili JPV 2005.

[2] Samanber bók Jóns G. Friðjónssonar: Rætur Málsins JPV 1997.

url: http://sigurvin.annall.is/2006-07-09/01.30.52/

Athugasemdir

Fjöldi 20, nýjasta neðst

Hjalti Rúnar @ 9/7/2006 16.49

Það er örugglega freistandi að reyna að bæta atriðum á svona lista, en ég held að það sé skárra að sleppa ástæðum sem eru út í hött. Lesandinn gæti nefnilega efast um hina punktana í greininni. Þetta er td einfaldlega rangt:

Læsi á táknmál kirkjunnar er því mikilvægt öllum sem búa í íslensku samfélagi.

Það er ekki mikilvægt að vita hvers vegna presturinn er í fjólubláum eða grænum skrúða

Síðan væri gaman að fá að vita hvað “sanngjörn framsetning á þeirri staðreynd [að biblían fjalli um leit mannsins að hinu guðlega og um mót guðs og manns” eigi að vera. Trúboð?

Skúli @ 10/7/2006 11.04

Það er ekki mikilvægt að vita hvers vegna presturinn er í fjólubláum eða grænum skrúða

Nú heldur þú að ég sé með Dawkins á heilanum (!) en ég get samt ekki annað en að benda á það að karlinn nefndi sérstaklega þetta atriði og talaði um það hvernig hið trúarlega táknmál hefur síast inn í menninguna með ýmsum hætti. Hann lagði því áherslu á að fólk þekkti til þeirra mála til að geta skilið hin ýmsu listaverk.

Táknmál kirkjunnar og táknmál trúarinnar eru tvær hliðar á sama peningnum.

Guðmundur Guðmundsson @ 10/7/2006 13.00

Ég veit að það er litið hornauga af annálungum að menn segi hér skoðun sína hreint út á ómengaðri íslensku, en það verður að hafa það þótt einhver sé ekki sáttur við þessi ummæli.

Það er margt miður gagnlegt eða gáfulegt sem sést hefur á þessum síðum, en annað eins rugl og hér er borið á borð á sér vart hliðstæðu. Biblían á ekkert erindi inn í ríkisrekna grunn- og framhaldsskóla. Punktur. Það er ljóst að Sigurvin hyggst leggja sitt af mörkum svo stefnu kirkjunnar um frekari aðgang að skólunum verði framfylgt. Mér finnst þessi stefna frekleg árás á lýðréttindi og trúfrelsi (þ.e. frelsi frá trú) og jafnframt siðlaus. Láttu skólana í friði, Sigurvin.

Skúli @ 10/7/2006 13.23

Ekkert mál Guðmundur að segja skoðun sína en þú svarar engu efnislega sem Siguvin telur hér upp. Hann tíundar ítarlega rökin fyrir slíkri fræðslu og eins og ég nefndi ná þær skoðanir inn að innsta kjarna trúleysingja.

Það er ljóst að Sigurvin hyggst leggja sitt af mörkum svo stefnu kirkjunnar um frekari aðgang að skólunum verði framfylgtÉg er alveg gáttaður á því þegar sjálfsskipaðir lærimeistarar í rökhugsun setja svona frá sér án þess að tilgreina eitt einasta dæmi.

Og segja svo bara “punktur”!

Uss.

Skúli @ 10/7/2006 13.24

Ekkert mál Guðmundur að segja skoðun sína en þú svarar engu efnislega sem Siguvin telur hér upp. Hann tíundar ítarlega rökin fyrir slíkri fræðslu og eins og ég nefndi ná þær skoðanir inn að innsta kjarna trúleysingja.

Það er ljóst að Sigurvin hyggst leggja sitt af mörkum svo stefnu kirkjunnar um frekari aðgang að skólunum verði framfylgt

Ég er alveg gáttaður á því þegar sjálfsskipaðir lærimeistarar í rökhugsun setja svona frá sér án þess að tilgreina eitt einasta dæmi.

Og segja svo bara “punktur”!

Uss.

Hjalti Rúnar @ 10/7/2006 13.51

Nei, Skúli. Að kunna skil á merkingu skrautmunanna í athöfnum Þjóðkirkjunnar er ekki það sama og að kannast við biblíusögur. Er mikilvægt að vita hvers vegna presturinn er í fjólubláum eða grænum skrúða?´

Ég er alveg gáttaður á því þegar sjálfsskipaðir lærimeistarar í rökhugsun setja svona frá sér án þess að tilgreina eitt einasta dæmi.

Viltu dæmi um að Þjóðkirkjan sé að troða sér í skólana? Vinaleið

Skúli @ 10/7/2006 13.55

Hérna stendur þetta skýrum stöfum:

1. Skólinn fræðir um kristna trú og önnur trúarbrögð. Slík fræðsla verður mikilvægari eftir því sem íslenskt þjóðfélag verður fjölbreyttara í trú og lífsskoðun. Mikilvægt er að takast á við slík viðfangsefni í skólanum sem nær til allra.
2. Tileinkun trúar eða lífsskoðunar fer fram á heimilum, í kirkjum eða trúfélögum.

Fræðslan fer fram í skólanum. Trúboðið á heimilunum, kirkjum eða trúfélögum.

Guðmundur Guðmundsson @ 10/7/2006 14.02

Ef þetta stendur svona skýrum stöfum af hverju er þá svona erfitt fyrir ykkur trúmenn að framfylgja þessu?

Niðurstaða Sigurvins í þessum makalausa pistli er þessi:

Niðurstaða þessarar umfjöllunar er sú að það er ein af frumskyldum íslensks skólakerfis að gera nemendur kunnuga og handgengna Biblíunni.

Já, já Skúli við trúum ykkur alveg.

Skúli @ 10/7/2006 14.06

Þekkingarleysi á Biblíunni veldur því að nemendur verða ólæsir á þann stóra hluta menningar okkar sem vagga ritningarinnar hefur alið af sér. Minni áhersla á kristinfræði í íslensku skólakerfi mun leiða af sér meiri fordóma hjá ungu fólki gagnvart eigin trúarhefð og annara, frekar en að hvetja til skilnings og umburðarlyndis á tímum fjölmenningarsamfélaga

Hann er bersýnilega aðeins að tala um fræðslu hérna.

Guðmundur Guðmundsson @ 10/7/2006 14.18

Það að gera nemendur “handgengna” biblíunni er ekki fræðsla heldur trúboð. Auk þess er þessi staðhæfing órökstudd:

“Minni áhersla á kristinfræði í íslensku skólakerfi mun leiða af sér meiri fordóma hjá ungu fólki gagnvart eigin trúarhefð og annara.”

Það er alveg út í bláinn að halda svona löguðu fram. Ég held fram hinu gagnstæða með þeim rökum að sé ekki búið að “festa” nemendur í kristinni trúarhefð sé auðveldara að fjalla fordómalaust um öll trúarbrögð.

Skúli @ 10/7/2006 14.31

Mér finnst þú of grimmur í túlkun þinni Guðmundur. “Handgenginn” getur hér hæglega merkt að vera vel að sér. Mér finnst allt samhengið – sem og sitatið sem við Hjalti komum með – benda til hins sama: fræðslan í skólanum, boðunin í kirkju og trúfélögum.

Sigurvin tekur, ef ég skil hann rétt, dæmi af tónlistarkennslu og því hvernig fólk sem numið hefur eina grein tónlistar er læst á aðrar stefnur. Tungumál er annað dæmi. Sá sem kann vel sitt tungumál er fljótur að læra önnur mál.

Ég held fram hinu gagnstæða með þeim rökum að sé ekki búið að “festa” nemendur í kristinni trúarhefð sé auðveldara að fjalla fordómalaust um öll trúarbrögð.

Gott þú setur gæsalappir utan um “festa” því það er einmitt ekki verið að festa neinn í neinu.

Sigurvin @ 10/7/2006 17.21

Ég skal fúslega viðurkenna að þessar ástæður eru ekki allar jafn aðkallandi og læsi á táknmál kirkjunnar er kannski ekki brýnasta ástæðan fyrir mikilvægi biblíufræðslu í skólum. Staðreyndin er hinsvegar sú að allir sem búa í íslensku samfélagi munu komast í kynni við kirkjulegar athafnir, að minnsta kosti jarðafarir og brúðkaup og því er slíkt læsi mikilvægt.

Sigurvin @ 10/7/2006 17.39

Ég lét staðar numið við töluna tíu en lét hana ekki ráða för og einskorðaði mig við þær ástæður sem skipta máli í okkar samhengi. Ein ástæða sem ég sleppti kemur frá Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni (http://www.williams.edu/history/saf/faculty/bernhardssonm.html)en þegar hann var í grunnnámi í stjórnmálafræði, var honum kennt að trúarbrögð væru afgangsstærð í umfjöllun um alþjóðastjórnmál en það er leitandi að slíkum staðhæfingum í dag. Ég felst því ekki á staðhæfingu Hjalta Rúnars að þær ástæður sem honum finnst ,,út í hött” séu uppfyllingarefni til að ná tölunni tíu.

Hjalti Rúnar @ 10/7/2006 23.47

Fræðslan fer fram í skólanum. Trúboðið á heimilunum, kirkjum eða trúfélögum.

Þannig ætti það að vera, en er ekki þannig. Það er sérstaklega erfitt þegar að stofnun eins og Þjóðkirkjan hefur brenglaða hugmyndir um hvað sé fræðsla og hvað trúboð.

Vinaleið er gott dæmi um trúboð í skólum. Hefurðu ekkert um þetta frábæra dæmi að segja?

Skúli @ 11/7/2006 08.41

Ég hef ekki kynnt mér þetta til hlítar en ég held að með þessu sé þjóðkirkjan að bjóða liðssinni sitt í þágu góðs málefnis.

Með vísan til þess sem fyrr er sagt um hófsemina sem starf kirkjunnar elur af sér sé ég ekki að þetta sé stórkostlegt hættuefni.

Hjalti Rúnar @ 11/7/2006 12.32

Ég hef ekki kynnt mér þetta til hlítar en ég held að með þessu sé þjóðkirkjan að bjóða liðssinni sitt í þágu góðs málefnis.

Þetta er trúboð, það er ekki gott málefni.

Með vísan til þess sem fyrr er sagt um hófsemina sem starf kirkjunnar elur af sér sé ég ekki að þetta sé stórkostlegt hættuefni.

Ég hef áður svarað þessu. Þetta er valkvæmt úrtak. Þú gætir alveg eins sagt að norður-germönsk mál vinni gegn bókstafstrú.

Skúli @ 11/7/2006 13.16

Þú gætir alveg eins sagt að norður-germönsk mál vinni gegn bókstafstrú.

Afsakaðu Hjalti en þetta skil ég ekki.

Carlos @ 11/7/2006 15.36

Þetta er trúboð, þetta er trúboð, þetta er trúboð, segir Hjalti um vinaleiðina og annað sem kirkjan gerir á vettvangi almannastofnana. Þetta er trúboð.

En, Hjalti, í hverju felst þinn skilningur á því sem orðið felur í sér?

Kirkjan hefur “mission” = enska orðið sem er notað yfir tilgang (sbr. mission statement), stundar sumstaðar trúboð. Í þessari umræðu hér, eins og svo oft áður þá nota þeir sem vilja ekki trúboð kirkjunnar í skólum orðið afar vítt, þannig að erfitt er að henda reiður á hvað átt er við.

Kirkjan sinnir áfallamálum á almannavettvangi. Það er langur vegur frá því að það sé trúboð, samt hafa birst greinar á vantru.is þar sem þetta er úthrópað sem trúboð. Kirkjan býður fram áfallahjálp og sorgarvinnu, einstaka trúlausir kalla þetta árás á fólk með handanveraldarinnrætingu, þetta er trúboð, trúboð, trúboð, segir mantran. Hvernig væri að ná utan um hugtökin áður en lengra er haldið í stað þess að kasta fram móðursýkislegum fullyrðingum?

Hot spring river this bo

Matti @ 12/7/2006 18.52

> Kirkjan sinnir áfallamálum á almannavettvangi. Það er langur vegur frá því að það sé trúboð, samt hafa birst greinar á vantru.is þar sem þetta er úthrópað sem trúboð.

Er ekki við hæfi að vísa á greinina?

Hvernig væri að ná utan um hugtökin áður en lengra er haldið í stað þess að kasta fram móðursýkislegum fullyrðingum?

Þú setur þig á háan hest.

Carlos @ 13/7/2006 07.43

Hár hestur? Nei, tek bara eftir vanda, sem hlýst af ónákvæmri hugtakanotkun. Athugasemdin er hinsvegar í hlaðnara lagi.

Takk fyrir vísunina, hef verið að skrifa milli gönguferða í sumarleyfinu og er á leiðinni út.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli