sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 23. október 2004 · Heim · Bæn hjóna. »

Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 18. nóvember 2005

Sigurvin @ 13.18 28/6/06

Erindi* mitt ber heitið, Jakobsbréf, vegvísir að andlegri fullkomnun, og er unnið undir leiðsögn Jóns Ma. Ásgeirssonar, prófessors í nýjatestamentisfræðum. Efnið tengist rannsókn á stefjum í gyðing-kristnum bókmenntum sem ég er að vinna fyrir hann og kjörsviðsritgerð minni sem fjallar um samband Jakobsbréfs við Ræðuheimildina að baki guðspjöllum Matteusar og Lúkasar. Ritgerðina kem ég til með að byggja á verkum suður-afrísks nýjatestamentisfræðings að nafni Patrick J. Hartin en hann hefur verið áhrifamikill í rannsóknum á Jakobsbréfi og tengslum þess við Jesúhefðina.

Jakobsbréf.

Jakobsbréf er fyrir margar sakir heillandi viðfangsefni þrátt fyrir að minnihluti fræðimanna hafi veitt því athygli. Á meðal fræðimanna hefur bréfið frá upphafi verið umdeilt og má með sanni segja að þeir hafi verið ósammála um flest sem snýr að bréfinu. Efni bréfsins ber vott um djúpar rætur í gyðinglegri hefð en málnotkun þess og stíll bera vott um vandaðri grísku en almennt er að finna í Nýja testamentinu. Utan guðspjallanna á Jakobsbréf sterkust tengsl við orð Jesú af ritum Nýja testamentisins en nafn hans kemur aðeins fyrir tvisvar í öllu bréfinu og aldrei sem tilvitnun. Hvað snertir ritunartíma Jakobsbréfs hafa fræðimenn ýmist dagsett það með elstu ritum regluritasafnsins eða þeim yngstu, þó mun sterkari rök dagsetji bréfið tiltölulega snemma. Höfundur bréfsins er nafngreindur Jakob en þar er átt við leiðtoga frumsafnaðarins í Jerúsalem sem kallaður var bróðir Jesú. Hvort sem hann er raunverulegur höfundur bréfsins eður ei, þá er líklegt að þar sé að finna eina varðveitta efnið frá þeim hópi sem Páll kallar máttarstólpana í Jerúsalem, þeim Jakob, Pétri og Jóhannesi (Gal 2.9).

Hvað snertir uppbyggingu Jakobsbréfs, hafa fræðimenn löngum haldið því fram að bréfið sé sundurlaust safn leiðbeininga og sé ekki eiginlegt bréf að bókmenntaformi. Sá misskilningur byggir hinsvegar á samburði við Pálsbréfin og þrátt fyrir að Jakobsbréf sé ólíkt þeim fellur það fullkomlega að fyrirmyndum Grikkja um bréfaskrif. Í inngangi bréfsins kynnir höfundur þau stef sem bréfið tekur til umfjöllunar í meginmálinu. Stefin eru síðan tekin fyrir á þann hátt að fyrsta stefið er einnig hið síðasta, annað stefið tekið upp á ný næst síðast og þannig áfram koll af kolli. Miðja bréfsins og hverfiás er síðan orðræða um spekina, eðli hennar og birtingu en Jakobsbréf er að innihaldi spekirit. Niðurlag bréfsins vísar síðan aftur til inngangsins og rammar þannig inn umfjöllunina.

Ræðuheimildin Q.

Árið 1964 birti James R. Robinson áhrifamikla grein tileinkaða Rudolf Bultmann, sem kallast ,,LOGOI SOPHON: On the Gattung of Q.” Grein þessi byggir á tengingu sem Bultmann gerir á milli orða Jesú og spekihefðar Gamla testamentisins, en Robinson heldur því fram að bókmenntaform Ræðuheimildarinnar tilheyri ferli (trajectory) sem á sér upphaf í þeirri spekihefð. Yfirskrift greinarinnar logoi sophon, eða ummæli hinna vitru, er heppileg nafngift á þeim bókmenntaflokki sem Ræðuheimildin tilheyrir en skilningur á bókmenntaflokki ritsins er grundvallandi fyrir túlkun á innihaldi þess. Robinson telur feril slíkra bókmennta eiga upphaf sitt í Mesópótamíu og þaðan í spekiritum Gamla testamentisins, Orðskviðunum, Jobsbók og Prédikaranum. Áhersla á spekina var mjög áberandi á helleníska tímanum eins og sjá má í Apókrýfum ritum Gamla testamentisins, aðallega Síraksbók og Speki Salómons og í Mishnah ritum á borði við Pirke Aboth. Áhrif slíkra bókmennta skiluðu sér inn í elstu heimildir kristindómsins og að áliti Robinson endaði þessi ferill bókmennta loks í kristnum-gnóstískum ritum á borð við Pistis Sofia. Fram að þessu höfðu fræðimenn almennt álitið Ræðuheimildina vera ófullkomið bókmenntaform, einungis vísi að bókmenntaformi guðspjallanna.

Bók John S. Kloppenborg, Formation of Q: trajectories in Ancient Wisdom Collections, sem kom út 1987 hefur reynst tímamótaverk í rannsóknum á Ræðuheimildinni. Í bókinni dregur Kloppenborg upp mótunarsögu Ræðuheimildarinnar og staðsetur ritið fastari fótum í hefð spekibókmennta. Helsta gagnrýni Kloppenborg á samanburð Robinson við spekihefðir Gamla testamentisins, er að hann tekur ekki tillit til víðara mengis spekibókmennta en þeirra sem tilheyra gyðinglegum ritum. Spekihefðir og bókmenntir eru í eðli sínu fjölmenningarlegar og margt bendir til að þeir sem söfnuðu slíku efni hafi verið meðvitaðir um fjölþjóðlega skírskotun þess og uppruna. Ræðuheimildin stendur í nánum tengslum við spekihefðir Gamla testamentisins, en Kloppenborg segir tvenn rök knýja á samanburð við grískar spekibókmenntir. Annarsvegar sú staðreynd að Q er upphaflega skrifuð á grísku, en ekki arameiísku eða hebresku eins og margir eldri fræðimenn halda fram, og tilheyrir því grískum bókmenntum þrátt fyrir augljós tengsl við semitískar hefðir. Hinsvegar inniheldur Ræðuheimildin svokallaðar kreijur (chriae), bókmenntaform sem ekki er upprunalegt spekisöfnum gyðinga en er hinsvegar víða að finna í grískum bókmenntum, aðallega ritum kýnikea. Ásamt umfjöllun um tengsl Q við gyðinglegar spekibókmenntir, tekur Kloppenborg tillit til spekisafna frá Austurlöndum Nær, aðallega Egyptalandi, og grískra spekisafna, gnómólógía og kreiusafna. Þegar Ræðuheimildin er staðsett í umhverfi slíkra spekisafna er óhugsandi álíta hana ófullkomið bókmenntaform, þvert á móti er Q með margbrotnustu bókmenntaverkum spekihefðarinnar.

Tengsl Jakobsbréfs við Q.

Doktorsritgerð Patrick J. Hartin, sýndi fram á sterk tengsl á milli ummæla Ræðuheimildarinnar og Jakobsbréfs. Líkt og Ræðuheimildin á Jakobsbréf sterk tengsl við spekihefð Gamla testamentisins og Apókrýfra rita og Hartin staðsetur bréfið samhliða Q á þeim ferli sem Robinson dró upp af spekihefðum. Ef textar Jakobsbréfs eru bornir saman við rit á borð við Orðskviðina, Síraksbók og Speki Salómons er augljóst að þar er um skylt efni að ræða. Tengslin við Ræðuheimildina eru enn meira áberandi og Hartin sýnir fram á að höfundur bréfsins þekkir Ræðuheimildina og þróun hennar innan Matteusarsamfélagsins. Gagnrýni Kloppenborg á jafnt við umfjöllun Hartin um Jakobsbréf og samanburð Robinson, en Hartin einskorðar sig við spekiarf Gamla testamentisins og gyðinglegra bókmennta í doktorsriti sínu. Jakobsbréf er skrifað á mjög vandaðri grísku og inniheldur kreijur líkt og Ræðuheimildin og samanburður bréfsins við gríska spekihefð á því ekki síður rétt á sér.

Spekin er miðlæg í Jakobsbréfi og uppsetning bréfsins staðsetur tvo texta, sem hafa spekina að umfjöllunarefni, sem miðju og hverfiás ritsins. Fyrri textinn er Jakobsbréfs 3.13-18 en sá síðari 4.1-10. Fyrri textin verður gerður að sérstöku umfjöllunarefni en hann er svohljóðandi í væntanlegri nýrri þýðingu á Nýja testamentinu.

Hver er vitur og skynsamur á meðal yðar? Hann sýni það með því að vera hóglátur og vitur í allri breytni sinni. En ef beiskur ofsi og eigingirni býr í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns spilling. En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið. (Jk 3.13-18. Biblía 21. aldar.)

Textinn er þannig uppbyggður að fyrst er gefinn mælikvarði á hvað það merkir að hafa speki, spekin þekkist af breytni sem er hóglát og vitur. Næst er lýst þeim neikvæða lífsstíl sem kemur af því að skorta speki Guðs og loks er spekinni að ofan lýst og ávöxtum hennar. Spekistef birtast almennt með tvennum hætti, annarsvegar sem leiðsögn um hvernig farsælast sé fyrir lesandann að breyta og hinsvegar vangaveltur um eðli spekinnar. Höfundur setur sig í hlutverk leiðbeinandans og takmarkið er að hvetja lesandann til að tileinka sér veg spekinnar (sófia) og öðlast þar með fullkomnun (teleios). Spekin í Jakobsbréfi, líkt og í öðrum gyðinglegum spekiritum, er því sá farvegur sem leiðir til fullkomnunar. Tengslin við hina gyðinglegu hefð eru áberandi, spekin er persónugerfð líkt og algengt er í spekiritum almennt og hún er tengd lögmáli Guðs en sú tenging er algeng í apókrýfum spekiritum. Lögmálið sem birtist í Jakobsbréfi er þó ekki einungis vísun í lögbók Gyðinga, heldur lögmál kærleikans líkt og í guðspjöllum Markúsar, Matteusar og Lúkasar.

Ef eðli spekinnar í Jakobsbréfi er borin saman við notkun hugtaksins í Pálsbréfum, er grundvallarmunur á. Páll gerir ráð fyrir að spekin sé jafnt mannlegt sem guðlegt fyrirbæri en slíkri tvískiptingu hafnar Jakob. Spekin fæst ekki með skynsemi mannsins heldur einungis að ofan og það er Guð sem hana gefur þeim er biðja. Hugmynd Jakobsbréfs um speki er að mörgu leiti sambærileg umfjöllun annara rita Nýja testamentins um heilagann anda. Líkt og heilagur andi er spekin gjöf að ofan, sem veldur umbreytingu í lífi hins trúaða og gerir honum kleift að nálgast mark fullkomnunarinnar. Fullkomnun er þannig ekki innan seilingar fyrir tilstilli eigin krafta, heldur einungis með því að þiggja hana að gjöf frá Guði. Ræðuheimildin og Jakobsbréf eiga það sameiginlegt að tengja spekina við yfirvofandi heimsslit. Spekistef ritana hafa því knýjandi tón í hvatningu sinni, um viðsnúning á viðteknum gildum, samanber um auðsöfnun og stéttaskiptingu mannlífsins. Hegðun hins trúaða markast af því að stutt er í hinstu tíma.

Höfundur bréfsins hefur tvíþætt erindi með spekiboðun sinni, hann er spámaður þess sem koma skal og vitringur sem leiðbeinir um hegðun hér og nú. Í báðum ritunum er persóna Jesú tengd viskunni en með nokkuð ólíkum hætti. Í Ræðuheimildinni er Jesús sendiboði viskunnar, kominn til að leiðbeina þeim sem vilja heyra um veg hennar. Það er síðan tengt hinni svokölluðu devterónómísku heimsmynd, að spekin hafi sent erindreka iðrunar og afturhvarfs til Ísraelsþjóðar en þjóðin þrjóskast við og hafnar sendiboðunum. Í Jakobsbréfi er stigið skref í átt til þess að Jesús sé jafn viskunni, en það er þó ekki stigið til fulls fyrr en í Matteusarguðspjalli, þar sem Kristur er orðinn holdgerfing viskunnar og lögmálsins. Jakobsbréf markar þannig að áliti Hartin millistig í þeirri þróun hugmynda um Jesús, frá því að vera erindreki viskunnar til holdgerfingar á visku Guðs. Í Jakobsbréfi er Jesús sá sem hefur verið upphafinn ,,dýrðardrottin” og tekur á sig hlutverk viskunnar.

Hugmyndin um fullkomnum sem takmark viskunnar er mjög skylt í meðförum Matteusarhópsins á Ræðuheimildinni og Jakobsbréfi. Í Jakobsbréfi tekur teleios á sig tvíþætta mynd: annarsvegar felur hún í sér fullkomna hollustu við Guð, sem erfiðleikar geta ekki haggað og hinsvegar lífsstíl sem helgaður er í takt við þá hollustu. Krafa Jakobsbréfs er um helgað líf, helgað Guði og helgað þjónustu við náungann. Í nýlegri bók Hartin, A Spirituality of perfection, rekur hann bakgrunn hugtaksins Teleios og staðsetur merkingu þess fyrir Jakobsbréf. Hugtakið á langa notkunarsögu í grískum bókmenntum og vítt merkingarsvið, en það er algengasta hugtakið í forn-grísku sem merkir fullkomnun. Það tengist fórnarathöfnum í ritum Hómers og táknar lýtarleysi þeirrar skepnu sem fórnað er. Það er því ekki að undra að hugtakið hafi verið valið til að þýða sambærileg hugtök í fórnartextum Gamla testamentisins í Septugintu, en það er notað fyrir hebresku hugtökin tamim og shalem sem merkja óflekkað, ómengað eða heilt. Í öðru samhengi gat hugtakið merkt að vera fullvaxta, verið tengt heilagleika guðanna eða markmiðum heimspekinga. Í Nýja testamentinu er merkingarsvið þess ekki síður vítt, í samstofnahefðinni merkir það að vera heill, í Jóhannesarguðspjalli er það að eiga hlutdeild í eðli Guðs, hjá Páli að vera fullvaxta í trúnni á Krist og loks í Hebreabréfinu er það tengt fórnaguðfræði líkt og í Septuagintu.

Umfjöllun Hartin sýnir að merking þessa margræðna hugtaks verður ekki staðsett með einu orði, líkt og fullkomun, merkingarsvið þess er of vítt til þess. Í Jakobsbréfi er teleios nátengt trú sem sýnir ávexti sína í verki, samanber Jk. 2.20 sem segir: ,, Vilt þú láta þér skiljast að trúin er ónýt án verkanna?”. En teleios næst þó ekki einungis með okkar starfi, heldur byggir á þeirri speki sem kemur að ofan og okkur er gefin af Guði. Hartin leggur til þýðingu á hugtakinu í Jakobsbréfi, sem er enska orðið integrity, en það mundi útleggjast íslensku sem heilindi, ráðvendi eða heilsteypt skapgerð. Krafan um fullkomnun er í nútímamerkingu oftast sett í neikvætt samhengi, samanber að vera haldinn fullkomnunaráráttu. En krafa Jakobsbréf um heilindi í lífi hins trúaða, á fullt erindi til þeirra sem kenna sig við kristna trú. Það er krafan um trú sem öðlast líf í verkum.

* Erindi þetta var flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 18. nóvember 2005 á málstofu sem bar yfirskriftina ,,Síðgyðingdómurinn og upphaf kristni: Uppfylling fyrirheita eða þversagnakennd tileinkun?” http://www.hugvis.hi.is/saekja/hugvthing_dagskra_2005.pdf.

url: http://sigurvin.annall.is/2006-06-28/13.18.34/

© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli