sigurvin.annáll.is

AnnállGuðfræðiKirkjustarfMinningarorðPrédikanir ofl.

« Lokaprédikun við guðfræðideild Háskóla Íslands 5. maí 2006 · Heim · Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 18. nóvember 2005 »

Erindi flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 23. október 2004

Sigurvin @ 13.17 28/6/06

Fyrirlestur* þessi er unninn sem hluti af ritgerð í ritskýringarnámskeiði um epískann grundvöll Tvíbókaritsins, sem samanstendur af Lúkasarguðspjalli og Postulasögunni. Í ritgerðinni sjálfri eru þrjú sjónarhorn tekin til umfjöllunar, sagnfræðilegar forsendur, epískur bakgrunnur og textatengsl. Þessi fyrirlestur mun einblína á fyrsta þáttinn, sagnfræðilegar forsendur Tvíbókaritsins, en til grundvallar umfjöllunarinnar liggur afmarkaður texti, Postulasagan 5.12-16.

Eðlilegt er að lesa þann texta áður en umfjöllunin hefst og er hér stuðst við 1981 útgáfu Biblíunnar þó ritgerðinni fylgi sjálfstæð þýðingarvinna úr grísku. Postulasagan 5:12-16: Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn og undur meðal lýðsins. Allur söfnuðurinn kom einum huga saman í Súlnagöngum Salómons. Engir aðrir þorðu að samlagast þeim, en fólk virti þá mikils. Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna. Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra. Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.

Umfjöllun um sagnfræðilegt gildi Tvíbókaritsins felur í sér ótal vandamál og beinist hún mjög að hlut höfundar við ritun verksins. Fram á tuttugustu öld var sú skoðun ríkjandi að höfundur Tvíbókaritsins hafi fyrst og fremst verið að rita sagnverk og því var minni áhersla lögð á hlut hans sem höfundar bókmenntaverks. Þó að slíkar áherslur séu enn mjög ríkjandi hefur áhersla á hlut Tvíbókaritsins sem bókmenntaverk verið mjög áberandi á tuttugustu öld og þar með Lúkasar sem rithöfundar. Samanburður við hellenískar samtímabókmenntir hafa varpað nýju ljósi á Nýja Testamentið og eitt af markmiðum þessa fyrirlesturs er að fjalla um mismunandi nálganir fræðimanna í slíkum samanburði.

Mjög skiptar skoðanir eru um sannleiksgildi Postulasögunnar og þeirra atburða sem hún greinir frá. Til eru fræðimenn sem hafa farið þá leið að afskrifa alveg þann möguleika að verkið eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum, en aðrir hafa litið frásögnina þeim augum að um sé að ræða raunhæfa lýsingu á atburðarás frumkirkjunnar[1]. Slíkur skoðanamunur á sér langa sögu og má nefna að á nítjándu öld var þýski guðfræðingurinn Ferdinand C. Baur (1792-1860) talsmaður þess að einungis örfáir textar í Postulasögunni hefðu sagnfræðilegt gildi. Þá niðurstöðu fékk hann með samanburði á Pálsbréfum og Postulasögunni á grundvelli trúarbragðasögu, bókmenntarýni og áherslurýni. Arftakar hans frá Tübingen skólanum í Þýskalandi, með Franz Overbeck (1837-1905) í fararbroddi, héldu síðan áfram rannsóknum hans en Overbeck bætti við aðferðum heimildarýni og komst að sömu neikvæðu niðurstöðunni um sagnfræðilegt gildi Postulasögunnar. Á hinum bóginn var Adolf von Harnack (1851-1930) harður gagnrýnandi Tübingen skólans og taldi Postulasöguna standa jafnfætis Pálsbréfum og Eusebíusi sagnaritara sem heimild um frumkirkjuna og upphaf Kristindómsins. Harnack taldi meðal annars höfund tvíbókaritsins hafa verið samferðamann Páls líkt og hefðin sagði hann vera og síðari hluta Postulasögunnar sagði hann frásagnir sjónarvotts.

Á meðal vandamála við sagnfræðilegt mat á Tvíbókaritinu eru þær heimildir sem þar liggja að baki. Við þekkjum heimildir að baki Lúkasarguðspjalli: Markúsarguðspjall, Ræðuheimildinu Q, ásamt sérefni Lúkasar og getum gert okkur í hugarlund hvernig höfundur notar þær með samanburðarrannsóknum. Í tilfelli Postulasögunnar vandast hinsvegar málið, en utan Pálsbréfanna þekkjum við engar beinar heimildir að baki ritinu. Lúkas lagar þær heimildir sem hann notar að sínu orðalagi til að þær falli betur að frásögninni og því er mjög erfitt að greina úr heimildir vegna eigin sjónarhorns höfundar. Hinsvegar er töluvert af ritum sem geta varpað ljósi á Postulasöguna sem bókmenntaverk og munum við taka nokkur slík til umfjöllunar. Fræðimenn eru í dag nær einhuga um að Lúkas hafi ekki verið sjónarvottur þeirra atburða sem lýst er í Postulasögunni, en líklegra er að hann tilheyri þriðju kynslóð kristinna manna[2] og ritunartími verksins er talinn öðru hvoru megin við aldamót fyrstu aldar. Annað vandamál við sagnfræðilegt mat snýr að þeirri bókmenntagrein (genre) sem Postulasagan tilheyrir, en slík þekking getur gefið okkur innsýn inn í hvað höfundur ætlaðist fyrir – þ.e. hvort og þá hverskonar sagnfræði hann var að skrifa.

Tvíbókaritið og sagnritun í trúvarnarskyni.

Þegar litið er til helstu guðfræðinga tuttugustu aldarinnar í rannsóknum á Lúkasarguðspjalli hafa flestir litið svo á að um sagnritun (historiography) væri að ræða[3]. Arftaki þeirrar hefðar er bandaríski fræðimaðurinn Gregory E. Sterling en rannsóknir hans beinast einkum að samanburði á Tvíbókaritinu og riti Jósefusar, Antiquities[4]. Sterling segir að Tvíbókaritið megi flokka sem sagnritun í trúvarnartilgangi (Apologetic-historiography) og sem slíkt hafi ákveðið skáldaleyfi verið leyfilegt og nauðsynlegt. Hann telur Jósefus vera bestu hliðstæðuna bæði vegna þess að sá síðarnefndi notar hellenískann stíl ásamt því að skrifa áræðanlega sagnfræði og sökum þess að Jósefus áleit verk sitt leysa Septuagintu, hið gríska Gamla testamenti, af hólmi líkt og Lúkas áleit verk sitt uppfyllingu hennar. Saga Tvíbókaritsins er því ekki sagan af Jesú, Pétri eða Páli að áliti Sterling, heldur saga þjóðflokks – saga hinna Kristnu. Sterling segir höfund Tvíbókaritsins sækja skilning sinn á sögu í biblíulegann arf Septuagintu en frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni eigi Tvíbókaritið meira sammerkt með hellenískum bókmenntum. Undir lok greiningar sinnar kemst Sterling þó að þeirri niðurstöðu að sú mynd sem sagnritun Tvíbókaritsins dregur upp, sé svo skekkt af markmiði höfundar að draga upp samfellda mynd af upphafi kristindómsins, að hún sé í raun sögufölsun. Sú sögufölsun réttlætist af trúvarnartilgangi höfundar gagnvart hinum kristnu og óbeint af trúboði til Rómverja og Grikkja

Postulasögnuna 5.12-16 segir Sterlig vera eina af þremur samantektum sem þjóni þeim tilgangi að tengja saman frásagnabálka[5]. Þannig birtir höfundur Postulasögunnar sögu frumkirkjunnar á tvennan hátt, í fimm löngum sagnabálkum og þremur samantektum[6]. Það er niðurstaða Sterling að þessar samantektir séu að mestu leyti höfundaverk Lúkasar, sem byggi jafnframt á hefðum en ekki á sjálfstæðum eldri heimildum, en hann rökstyður það á grundvelli þess hve orðalag samantektanna er í takt við ritið og hversu tengdar þær eru nálægum frásögnum. Þannig vísar samantektin í Postulasögunni 5.13 til baka í hina kyngimögnuðu frásögn af Ananíasi og Saffíru (5.1-10) fyrr í kaflanum og þann ótta sem sá atburður olli (sbr 5.11), ásamt því að vísa fram á við þegar Postularnir eru handteknir í kjölfarið á þeim miklu vinsældum sem starf þeirra ávann þeim (P 5.16 er undanfari 5.17-42, sérstaklega v.17)[7]. Undantekning á þessu er þó frásagan af skugga Péturs, sem á raunar enga hliðstæðu í Tvíbókaritinu[8], en hún á sér sjálfstæða hefð sem Lúkas þekkir og notar[9]. Helsta hliðstæðan við slíkar samantektir í hellenískum bókmenntum segir Sterling vera lýsingar (ethnography) á trúar- og heimspekihópum hjá höfundum á borð við Fílón frá Alexandríu (ca.20f.Kr-40e.Kr.), Jósefus (37-ca.100e.Kr.) og Fílóstratus (ca.171- 247e.Kr.). Líkt og Fílon og Jósefus notuðu lýsingar á Essenum til að sýna fram á að gyðingdómurinn stæði þeim ekki að baki, er tilgangur Lúkasar að sýna fram á að hinir kristnu séu á engann hátt síðri öðrum hópum.

Burton L. Mack heldur því fram að skáldaleyfi Lúkasar hafi á engann hátt brotið í bága við ríkjandi aðferðafræði við sagnritun. Þegar hellenískir höfundar settust niður að rita sagnfræði hafi þeir sjaldnast haft meira en ræður og sögubrot til að vinna með og því þurft mikla skáldagáfu til að koma saman heilstæðri frásögn með því að geta í eyðurnar[10]. Tilgangurinn með ritun Postulasögunnar að áliti Mack var að slétta úr misfellum milli postulanna og þar með að skapa þá blekkingu að um eina postullega hefð hafi verið að ræða frá upphafi, sem kirkjunni hafi verið færð í arf. Sú hugmynd að Pétur og Jakob hafi getað verið einhuga Páli og varið trúboð hans var óhugsandi fyrir ritunartíma Postulasögunnar, en nauðsynleg til að hægt væri að draga skýr mörk milli réttrúnaðar og meintrar trúvillu. Slík ímynduð samstaða var nauðsynleg til að verjast þeim sem töldu sig hafa opinberun eða upplýsingar sem ekki samrýmdist hinni ungu og sífellt miðstýrðari kirkju og biskupum hennar segir Mack. Við upphaf annarar aldar færðist áherslan frá Jesú og yfir á postulana og mýtan um postullegan kristindóm fæðist. Við það fóru postularnir að líkjast æ meir meistara sínum, fóru að fremja kraftaverk eins og hann, kenna eins og hann og loks líða píslarvættisdauða líkt og hann að skilningi Mack.

Hubert Cancik kemst að svipaðri niðurstöðu og Sterling hvað snertir þá bókmenntagrein sem Postulasagan tilheyrir[11]. Hann vill meina að eitt aðal stefið í sagnritun Postulasögunnar sé saga stofnunarinnar, εκκλησία. Cancik velur 10 stef úr textum Postulasögunnar til að rökstyðja mál sitt og sýna fram á að Tvíbókaritið sé ,,sagnverk sem segir frá uppruna og útbreiðslu stofnunar…[12]”. Mark Reasoner hefur gagnrýnt þessa afstöðu Cancik og heldur því fram að það að líta á Postulasöguna fyrst og fremst sem sögu stofnunar sé ófullnægjandi[13]. Annarsvegar kemur í ljós, við nánari athugun, að þeir textar sem Cancik velur hafa ekki að aðal umfjöllunarefni sögu kirkjunnar sem stofnunar og hins vegar getur sú sýn ekki skýrt ræður og ferðafrásagnir Postulasögunnar. Reasoner leggur áherslu á að vanmeta ekki þátt guðlegrar opinberunar í uppbyggingu frásögunnar og hann segir ritið knúið áfram af guðlegri nauðsyn (Divine Necessity). Umræðan um hvort höfundur Tvíbókaritsins hafi í raun verið að skrifa sagnfræði og hversu ábyggilegar frásagnir hans eru, hylja raunverulegan tilgang hans fyrir að rita verk sitt. Tilgangur hans hafi síður verið að leiðrétta fyrri frásagnir og meira að útfæra hinn Kristna boðskap yfir á öll svið mannlegrar reynslu. Atburðarás Tvíbókaritsins er knúin áfram af ráðsályktun Guðs segir Reasoner og hvernig guðleg nauðsyn leikur til lykta í lífi þeirra sem boða og standa andspænis Orði Jesú[14].

Tvíbókaritið og ævisöguritun sem sagnfræði.

Rannsóknir Charles H. Talbert hafa mjög breytt sýn manna á sagnritun Tvíbókaritsins en aðferðafræði hans byggir á bókmenntarýni Henry J. Cadbury[15]. Talbert sér höfund Tvíbókaritsins fyrst og fremst sem rithöfund fremur en sagnaritara og verkið sjálft sér hann sem mótaða bókmenntalega heild. Hliðstæður úr hellenískum bókmenntum sækir hann aðallega í ævisögur af heimspekingum og lærisveinum þeirra en oft urðu til trúarhreyfingar kringum slíka menn. Fyrirmynd Talberts er verk Díógenesar Laertíusar um ævi framúrskarandi heimspekinga (Lives of Eminent Philosophers) en Lúkas byggir verk sitt upp á áþekkann hátt segir Talbert: fyrri hlutinn fjallar um líf stofnandans og síðari hlutinn eru frásögur af eftirmönnum hans. Tilgangur höfundar að áliti Talbert er því að sýna fram á hinn sanna Kristna veg (ὁδός) líkt og ævisögur heimspekinga. Cadbury hafði sýnt fram á hliðstæður milli Jesú og Páls en Talbert gengur mun lengra og útlistar hvernig höfundur Tvíbókaritsins byggir upp samsvörun milli þeirra á nákvæman og kerfisbundin hátt[16]. Páll verður þá einskonar kristsgervingur og í fyrri hluta Postulasögunnar má segja það sama um Pétur. Frásögnin af því þegar fólkið ber hina sjúku til Péturs minnir óneitanlega á frásögur af lækningum Jesú í Lúkasarguðspjalli[17].

Mikið hefur varðveist af kraftaverkahefðum úr grísk-rómverskri menningu og kraftaverk voru talin merki um guðlega forsjón í starfi þess sem kraftaverkið framdi. Einn frægasti kraftaverkamaðurinn úr samtíma Jesú var Apollóníus frá Týjana en ævi hans var rituð á 3. öld af Fílóstratusi[18]. Þrátt fyrir að rit hans ‘Ævi Apollóníusar frá Týjana’ sé þetta ungt hafa nýjatestamentisfræðingar tekið það alvarlega sem hliðstæðu við guðspjallahefðina af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi var Apollóníus söguleg persóna frá fyrstu öld og þar með samtímamaður Jesú frá Nasaret. Í öðru lagi er mikið af því sem Fílóstratus sagði um hann byggt á frásögum frá samferðamanni Apollóníusar að nafni Damis. Að lokum er álitið að hefðir um kraftaverkamenn hafi verið nokkuð fastmótaðar og haldist þannig frá því fyrir Krists burð[19]. Síðari tvö rökin verða að teljast byggð á veikum grunni. Samferðamaður Apollóníusar er af flestum fræðimönnum talinn persóna sköpuð af Fílóstratusi og nákvæmar rannsóknir á rituðum heimildum um kraftaverkamenn hafa leitt í ljós að slíkar hefðir eru mjög fjölbreyttar[20]. Samanburður á Fílóstratusi og guðspjöllunum er hinsvegar ekki síður réttmætur og samanburður við verk Díógenesar Laertíusar. Kraftaverkahefðir Postulasögunnar og Ævi Apollóníusar frá Týjana eru mjög skyldar að því leyti að í báðum ritum er gerður mjög skýr greinarmunur á kraftaverkum og töfrum og bæði ritin hafna því að þau fjalli um töfra, meðal annars af þeirri ástæðu að engir peningar eru teknir fyrir veitta þjónustu. Kraftar Apollóníusar og postulanna byggja á stöðu þeirra gagnvart Guði eða guðum en ekki á tæknilegri þekkingu galdra eða töfra[21].

Kraftaverkahefðir um Pétur náðu langt út fyrir frásagnir Postulasögunnar og bendir textinn í postulasögunni 5.12-16 til þess að þær hafi verið orðnar mjög útbreiddar á ritunartíma Postulasögunnar. Í apokrýfum ritum Nýja Testamentisins eru kraftaverk áberandi og notuð sem staðfesting á guðlegum krafti Jesú og postulanna. Dæmi um slíkt rit er Péturssaga (Acts of Peter)[22] en hún heldur áfram sögnum af Pétri og er þar komið með sjúka og lama til Péturs í von um lækningu líkt og í Postulasögunni. Þar er mikil áhersla lögð á píslarvættisdauða hans og kraftaverkin sem honum fylgja, staðfesta guðlegt vald hans sem postuli[23].

Tvíbókaritið og Biblíuleg frásagnarhefð.

Nokkuð ólíka nálgun má finna í verki Meir Sternberg, The Poetics of Biblical Narrative[24]. Í umfjöllun hans um frásagnir Gamla testamentisins segir hann Biblíuna vera sagnritun, þó hún sé sagnritun sem eigi jafnmikið sammerkt með ódysseifskviðu Hómers og sagnritun hinna grísku sagnfræðinga. Sternberg heldur því fram, að til að flokka megi Biblíuna sem sagnritun þarf túlkandi að gera skýran greinarmun á ‘sögulegri frásögn’ annarsvegar, sem hefur með að gera tilkall höfundar til sannleika og hinsvegar ‘sögulegum sannindum’, sem hafa með sannleiksgildi frásögunnar að gera. Söguritun er ekki upptalning staðreynda – heldur frásögn sem sögð er vera í samræmi við staðreyndir. Þannig má flokka verk sem skáldskap aðeins ef bæði höfundur og lesendur eru meðvitaðir um að verkið er uppspuni – en ef höfundur gerir tilkall til þess að verkið sé söguritun ber að líta á það sem slíka, hvert sem sannleiksgildi þess er[25]. Það er því ekki hægt að tala um sagnfræði án skáldskapar að áliti Sternberg og taka þarf tillit til hugmyndafræði og fagurfræði Biblíunnar til að myndin verði heil[26].

Hverjar sem fyrirmyndir höfundar Tvíbókaritsins eru er ljóst að ekkert eitt bókmenntaform hellenískra bókmennta er til þess fallið að skýra Tvíbókaritið. Samanburður við mismunandi bókmenntaform gefur okkur dýpri skilning á verkinu og höfundi þess, en ólíklegt er að samstaða náist meðal fræðimanna um hvert sé gjöfulast að leita.

Hvað snertir epískann grundvöll Tvíbókaritsins hafa nýjatestamentisfræðingar í síauknu mæli leitað utan við hinn epíska heim Gamla Testamentisins. Dennis R. MacDonald hefur borið saman Markúsarguðspjall við ódysseifskviðu Hómers og er sem stendur að vinna að sambærilegum samanburði við Tvíbókaritið. Í nýútkominni bók Marienne Palmer Bonz telur hún Tvíbókaritið skyldara Eneasarkviðu Virgils en verka Hómer, meðal annars vegna áherslunnar á Rómarborg í Postulasögunni sem áfangastaðar. Slíkri umfjöllun verður ekki gerð nánari skil hér en hún tengist mjög umfjöllun um hlutverk Lúkasar sem sagnritara og rithöfundar.

Í þessari umfjöllun hef ég rætt um mismunandi nálganir á spurninguna um sagnfræðilegt gildi Tvíbókaritsins. Ég hef tæpt á verkum Gregory Sterling og Hubert Cancick sem dæmi um starfandi fræðimenn er líta á höfund Tvíbókaritsins fyrst um fremst sem sagnritara – en það mætti álíta í takt við sjálfsmynd Lúkasar eins og hún birtist í inngöngum Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar. Charles Talbert og Burton Mack hafa verið nefndir sem dæmi um áherslu á Lúkas sem rithöfund fremur en sagnritara, þótt nálganir þeirra séu ólíkar að öðru leiti. Hægt væri að nema staðar við niðurstöðu Sternberg, að ekki sé hægt að tala um sagnfræði án skáldskapar, né skáldskapar án sögulegs veruleika þegar kemur að sagnfræðilegu gildi Tvíbókaritsins. Umfjöllun um Epískann bakgrunn og textatengsl verður að bíða betri tíma.

Ég þakka góða áheyrn.

* Erindi þetta var flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 23. október 2004 á málstofu sem bar yfirskriftina ,,Átakasögur úr frumkristni”. http://www.hugvis.hi.is/?frett?id=136

[1] Gerd Lüdemann, 1982: ,,Acts of the Apostles as a Historical Source.” The Social World of Formative Christianity and Judaism, essays in tribute of Howard Clark Kee. Ritstj. J. Neusner, P. Borgen, E.S. Frerichs & R. Horsley. Philadelphia, PS, Fortress Press. s.109-111.

[2] Gerd Lüdemann segir sterkustu rökin fyrir því að höfundur hafi ekki verið sjónarvottur byggi á samanburði á Pálsbréfum og Postulasögunni. Munur á guðfræði Páls milli verkanna mætti skýra með ritunartilgangi höfundar, enda skildu samtímamenn Páls guðfræði hans á mjög ólíkann hátt og það að höfundur sleppi úr upplýsingum í frásögn sinni sem koma fram í Pálsbréfum mætti skýra á sambærilegan hátt. Það er t.d. óhugsandi annað en að höfundur tvíbókaritsins hafi vitað að Páll lét lífið í Rómarborg en hann kýs að segja ekki frá því. Hinsvegar er hægt að útiloka að Lúkas hafi verið samferðamaður Páls á grundvelli þekkingarleysis hans á ferðum Páls. Samkvæmt Pálsbréfum ferðaðist Páll aðeins þrisvar til Jerúsalem eftir að hafa snúist til kristinnar trúar (Sbr. Gal 1.15-24; 2.1-10) en Tvíbókaritið segir hann hafa ferðast alls fimm sinnum til borgarinnar helgu (P 9; 11; 15; 18.22; 21). Lüdemann, Gerd, 1988, s.112.

[3] Í þessi tilliti fjallar Bonz um Henry J. Cadbury, Martin Dibelius, Earnst Haenchen og Hans Conzelmann. Þrátt fyrir mjög ólíkar rannsóknir og aðferðafræði efaðist enginn þeirra um að Lúkas hafi verið að skrifa sagnfræði. Marianne Palmer Bonz, 2000: The Past as Legacy. Luke-Acts and Ancient Epic. Minneapolis, MN, Fortress Press. s.1-7.

[4]Byggt á umfjöllun Bonz á verki Gregory E. Sterling, Historiography and Self-Definition: Josephos, Luke-Acts, and Apologetic Historiography (Leiden: E.J. Brill, 1992). Ibid, s. 184-185.

[5] Sterling 1994.

[6] Sagnaþættirnir eru P 2.1-40; 3.1-4.31; 4.36-5.11; 5.12-42; 6.1-8.3 og samantektirnar P 2.41-47; 4.32-35; 5.12-16 síðan eru minni frásagnareiningar innan þessara löngu frásagnabálka.

[7] Ibid, s. 682.

[8] Ekkert í guðspjallahefðinni er sambærilegt þessari frásögu, nema ef væri sagan af konunni sem læknaðist við að snerta klæði Jesú (Lk 8.43) eða þræl hundraðshöfðingjans sem Jesú læknaði án þess að ganga undir þak hans (Lk 7.1-10). Johnson segir helstu hliðstæðuna í hellenískum bókmenntum að finna í áletrunum og frásögnum af lækningahofum þar sem vera beiðandans í rýminu sjálfu hafði lækningu í för með sér. Luke Timothy Johnson, 1992: The Acts of the Apostles Romans. (Sacra Pagina Series, Volume V) Ritstj. Daniel J. Harrington, S.J., Collegeville, Minnesota, The Liturgial Press. s.96.

[9] Hér er Sterling að byggja á niðurstöðum Ernst Haenchen: The Acts of the Apostles: A commentary (Philadelphia, PA: Westminster, 1971)Johnsson, 1992, s.96.

[10] Burton L. Mack, 1995: Who wrote the New Testament? The Making of the Christian Myth. San Fransisco, CA, Harper Collins. s.231.

[11] Hubert Cancick, 1997: The Historyof Culture, Religion, and Institutions in Ancient Historiography: PhilologicalObservations of Luke-Acts. Journal of Biblical Literature 116/ 4, Boston, MA, Society of Biblical Literature, 673-696.

[12] Ibid, s. 673. “Luke-Acts is a history that narrates the origin and spread of an institution…”

[13] Mark Reasoner: The Theme of Acts: Institutional History or Divine Necessity in History? Journal of Biblical Literature 118/4, Boston, MA, Society of Biblical Literature, 635-659.

[14] Ibid.

[15] Hér byggir Bonz umfjöllun sína á verki Talbert: Charles H. Talbert, Literary Patterns, Theological Themes and the Genre of Luke-Acts, SBLMS 20 (Missoula, Mont.: Scholars Press, 1974). Sbr bók Bonz, M.P., 2000, s. 7-9.

[16] Ibid.

[17] Sbr. Lk 4.40; 5.18-19; 6.18-19.

[18] Howard Clark Kee, 1988: Medicine, Miracle and Magic in New Testament Times., Cambridge, UK, Cambridge University Press. s. 84-86.

[19] Ibid, 84.

[20] Ibid.

[21] Ibid, 86. Umfjöllun um greinarmuninn á kraftaverkum og göldrum í Postulasögunni og hlut peninga í þeim greinarmun má finna í bók Hans-Josef Klauck, 2002: Magic and Paganism in Early Christianity. The World of the Acts of the Apostle. Minneapolis, MN, Fortress Press.

[22] Hana má nálgast á vefsíðu http://www.earlychristianwritings.com/text/actspeter.html en sú útgáfa byggir á útgáfunni: The Apocryphal New Testament, M.R. James-Translation and Notes, Oxford: Clarendon Press, 1924.

[23] Kee 1988, s. 87.

[24] Meir Sternberg 1987: The Poetics of Biblical Narrative. Ideological Literature and the Drama of Reading. Bloomington, IN, Indiana University Press.

[25] Bonz 2000, s. 15-17.

[26] Ibid.

url: http://sigurvin.annall.is/2006-06-28/13.17.47/

© sigurvin.annáll.is · Færslur · Ummæli